sunnudagur, 5. október 2025


Hórus fer í Bónus

Það gerist ekki á hverjum degi að fornegypskur guð ranki allt í einu við sér á miðju gólfi íslenskrar lágvöruverðsverslunar, en þannig var það með hann Hórus í Bónus á Egilsstöðum.

Gylltur sandurinn hrundi af öxlum guðsins þegar ljómandi fálkahöfuðið rakst utan í kexrekkana með háværum skelli. Hórus gargaði.

„Var þetta vont?“ Hórus leit við. Lítil stúlka með hvítan bangsa í hönd. Hórus skildi hana ekki og reif upp hart bananatré með rótum til að fæla hana á brott. 

En stúlkan skríkti aðeins þegar bananarnir hrundu yfir Hórus af hvítum standinum og rétti honum bangsann sinn. Var himnaguðinn valdlaus í þessu undarlega ljóshofi?

Hórus leit í kringum sig. Hvar var hann? Hann sá aðeins endurtekið myndletur af sama bleika grísnum. Hafði föðurbani hans Set tekið á sig svínsham og hrakið Hórus til eilífrar útlegðar?

Eða, það sem Hórus óttaðist innst inni, hafði hann, himnaguðinn sjálfur, sofið alla eyðimörk og konungdóma af sér af eintómum klaufaskap frammi fyrir undarlega bleikum grísaguði?

Hórus gekk óséður fram hjá morgunkornspökkum og litríkum snakkpokum. Hann skipaði ungu pari fyrir, en þau hlógu bara og beindu logandi flötum olíulömpum að honum. Skammt frá safnaði gamall maður dýrafórnum úr hvítri, lýsandi vök. Var þetta æðstipresturinn?

„Hvar áttu heima?“ Litla stúlkan aftur. Hórus hafði ekki tíma fyrir þetta. Hann reyndi að hvessa augu sólar og mána en gat það ekki. Það var eins og eitthvað annað tæki yfir. Litla stúlkan virtist ekki aðeins sjá í gegnum guðdóminn, heldur neyða hinn mikla Hórus til að gera slíkt hið sama.

Hann tók upp þvottaefnispakka og þefaði af honum. Hórus gretti sig og henti honum á gólfið. Hvaða viðbjóður var þetta? Unglingur í svörtum hálfkufli merktum grísaguðinum gekk hjá en lét sig hverfa þegar hann mætti risavöxnum guði bíta í grænt ilmkerti og hrækja því svo á gólfið.

Í þessu hofi staflaði fólk ekki sandklumpum upp í pýramída heldur þunnum pökkum í litlar járnkörfur. Hann hló. Hvort myndi endast lengur?

En hvers vegna var Hórus þarna? Sjálfur Hórus, sonur Ósíriss, andi faraóa og verndari hins sameinaða Egyptalands. Var þetta refsing? Hafði grísaguðinn slátrað hinum máttugu guðum Nílar í himneskum bardaga á meðan Hórus lokaði auga?

Hator. Hvar var konan hans, Hator? Var hún... Hvaða tilfinning var þetta? Ekki guðleg reiði, heldur... skömm? Máttu guðir finna fyrir sorg og skömm? Hórus leit upp en mætti ekki hlýjum geislum Ra heldur flöktandi og kaldri flúrskímu sem risti sig inn í höfuð hans.

Hórus þurfti að styðja sig við hillu með bökunarvörum, svo nokkrir hveitipakkar hrundu á gólfið og þyrluðu upp þykku, hvítu skýi. Voru konungar Nílar orðnir að dufti?

Litla stúlkan datt við lætin, hruflaði sig á öðru hnénu og fór að gráta. Saklausu blóði var spillt. Hórus mundi hlutverk sitt sem verndari mannkyns.

Hórus ætlaði til stúlkunnar en maður, sem spratt úr mjólkurkælinum, gaf honum illt auga svo hann hrökklaðist í burt og þóttist skoða vítamínin í horninu. Hafði Hórus verið of upptekinn af sjálfum sér?

Hvað voru þúsundir dýrkenda þegar það eina sem hann þráði voru alvöru tengsl? Guðirnir voru líka helteknir af ímynd sinni hjá mönnum. Allt snerist um einhverjar myndir á vegg. Litla stúlkan sá ekki guð, heldur nýjan leikfélaga.

Ef hann hefði fengið að spila Mehen eins og venjuleg börn fyrir þúsundum ára. Börn sem voru löngu horfin. Það var ekki eins og Hórus hefði valið sér eilíft líf í goðsögn um föðurhefnd. Fólkið vildi átök. Hefnd. Stríð.

Var það ekki annars? Hann virti fyrir sér unga parið. Svona höfðu þau Hator verið áður en Set náði úr honum auga, Hórus gelti Set og allt fór fjandans til. Þegar Hator var bara venjuleg kona með kúahorn og drauma. 

Af hverju hafði hann samþykkt þetta blóðuga hlutverk? Fyrir mannkynið, eða til þess að trúa á sjálfan sig? Og nú var allt horfið.

Þetta múmíustand var líka þreytt. Fjarlæg, súr líkamslykt í bland við natron, léreft og gips. Lykt sem hékk í nösunum eins og þúsund ára bænasöngur. Hórus fitjaði upp á nefið. Hann sagði aldrei neinum frá útbrotunum og kláðanum sem hann fékk af þessu.

Guðdómi fylgdi djúp einsemd. Þurftu guðir að falla til að finna fyrir jörðinni? Máttu himneskar verur ekki ganga örna sinna án þess að einhver asninn þrykkti því á leirker? Hvenær vék dýrkun fyrir hreinni kúgun?

Hórusi varð óglatt. En hvað yrði heimurinn án Hórusar, guðs himneskrar verndar? Ískrandi, bilað hjól á kerru æðstaprestsins rauf guðlega einbeitinguna. Hjól? Þetta magnaða snúningsverk hefði getað sparað svolitla vinnu við að draga alla sandklumpana.

Stúlkan veifaði Hórusi í fangi föður síns. Unga parið beindi lampanum að Hórusi og hló sig máttlaust. Æðstipresturinn brosti og sagði eitthvað óskiljanlegt sem hljómaði eins og verndarbæn fyrir Hórus.

Þetta var augljóslega helgistaður þar sem fólk hittist til að deila einhverri djúpri samkennd. Ekki til að þræla af sér skinnið frammi fyrir brennandi auga Ras. Kannski var þessi nýja svínaveröld ekki svo vitlaus?

Augu Hórusar ljómuðu. Ef enginn vissi hver hann var þurfti hann ekki að hefna neins! Hórus fann hlýjan innvortis straum flæða yfir bakka sína. Það var hægt að taka Hórus frá Níl, en enginn gat náð Nílinni úr Hórusi.

Hórus smeygði sér út á milli talandi sjálfsafgreiðslukassa. Mynd hans brá fyrir á glærum fleti. En Hórus sá ekki guð, heldur fanga í fuglabúningi. Eitt risastórt, starandi fífl í bjánalegum fálkabúningi. Blóðhefnd guða og manna hafði ekki aðeins verið uppátækjasöm ástríða, heldur skilgreint hver hann var.

Nei! Ekki lengur. Hórus kastaði klæðum og gekk nakinn út í haustmyrkrið. Maður á stéttinni með glóandi reykelsi í munninum rak upp stór augu.

Grísaguðinn glotti á gulum og sléttum sandvegg. Þetta var ekki Set, heldur verndari nýs menningarsamfélags. Samfélags þar sem hver og einn gat ekki aðeins valið á milli tuttugu tegunda af súrnaðri mjólk, heldur einnig hver hann var.

„Vel spilað grís, vel spilað,“ muldraði Hórus.

Hórus sneri sér við og beygði sig inn í næsta hof, sem hafði volduga, rauða stafi: „LINDEX“.

Hórus tók upp hálfgegnsæja lendaskýlu með hlébarðamynstri. Skýlan teygðist á milli fingra hans án goðsögulegs þunga og fyrirheits um eilíft líf. Efnið var létt og teygjanlegt, ólíkt skerandi þykku líni múmíanna.

Stakur sólargeisli féll inn um gluggann. Þetta var ekki sól hins almáttuga og dæmandi Ras, heldur hlýtt ljós á himni. Ljós sem eitt sinn geymdi guðdóm, féll nú á brjóst hins frjálsa neytanda.

eXTReMe Tracker