Rúm og litir
Ólafur ólst upp í gráma sem sagði ekki aðeins drauma hættulega, heldur rændi sjálfri vökunni frá Héðni föður hans. Héðinn hafði lifað af ofríki hvítu doppanna. Hann sagði syni sínum sögur frá tíma þegar fólk missti stjórn á sér. Frá Hilmari nágranna sem setti eitur út í kökurnar því doppurnar sögðu honum að gera það.
„En pabbi, af hverju vildi hann gefa fólki eitur?“ „Ég veit það ekki, sonur sæll. Það er ekki hægt að skilja hvenær við hættum að vera menn og doppurnar taka við. Og það sem við skiljum ekki er hættulegt, eins og martraðir. Góða nótt, kútur.“
Með árunum fór Ólafur að efast um gildi gráa svefnsins. Svefninn hljómaði eins og þægileg átylla til að hlaupast undan ábyrgð. Faðir hans virtist ekki drifinn áfram af lífsgleði heldur ótta. Stundum varð Ólafur reiður í garð fólks sem fylgdi reglum í blindni. Var hann verri maður fyrir vikið?
Héðinn faðir hans mundi hvernig hvítu doppurnar mörruðu í tréstiganum þegar skugginn þrengdi sér á milli fúnandi spýtnanna. Héðinn fékk enn sviða í lófana við það eitt að hugsa um hvítu doppurnar. Doppurnar sem höfðu svæft konuna hans. Einn daginn myndi Héðinn segja syni sínum að Hilma móðir hans hafði ekki látist af slysförum.
Þegar Ólafur var nítján ára varð hann hugfanginn af bannaðri, litaðri tónlist sem gekk í laumi á milli skólafélaganna. Þetta voru miklu dýpri tónverk en sama gráa hlandið sem sprændist endalaust úr útvarpinu. Ólafur var sannfærður um að gráminn hefði kæft sjálfa sköpunargleðina í manneskjunni.
Um þetta leyti sótti Ólafur ólöglegan litaðan fund. Framsækin kona talaði um óteljandi svefnliti. Hún hefði ekki aðeins sofnað í doppóttu, heldur svifið um alheiminn í bleiku og bröndóttu. Þetta hljómaði ekki eins og hræðsluáróðurinn á hans heimili. Ólafur sannfærðist um nauðsyn litabyltingar. Fólk hlyti að rísa upp fyrr eða síðar.
Ólafur sagði föður sínum ekki frá fundinum. Ekki fyrr en hann hafði smíðað appelsínugult rúm með byltingarsinnum úti í skógi. Ólafur sagði Héðni hvernig hann hafði sofnað undir skæru mynstri og séð appelsínugula menn teygja heiminn í nýjar áttir. Hvernig hann andaði í skýjum og stjörnum undir dynjandi lófataki.
„Þetta var engin martröð, pabbi. Ímyndaðu þér hvað þetta getur gert fyrir vinnuna þína. Þú getur smíðað fleiri rúm á tveimur tímum en þú gerir núna á tveimur vikum!“ Ólafur lét vera að segja föður sínum frá lágværu, óþægilegu braki sem barst samtímis sýninni.
Héðinn gamli ærðist: „Hver lét þig gera þetta? Var það Felix? Ég vissi að þau væru enn doppótt!“ Héðinn var sjálfur orðinn doppóttur í framan af reiði. Nei. Ekki fyrir framan drenginn. Hann dró grátt andann.
Sonur hans trúði á liti, hann vissi ekki betur. Hafði Héðinn ýtt undir áhugann með öllum doppóttu sögunum? Söguna um hermanninn sem snerist gegn samborgurum sínum, og vaktmanninn sem hló að viðvörunarljósi álversins. Ólafur sagði ekki neitt. Svipurinn gaf til kynna að hann vissi meira en honum hafði verið sagt. Það var kominn tími á sannleikann.
„Óli minn, ég þarf að segja þér svolítið. Hilma mamma þín dó ekki í bílslysi. Hún missti smám saman tengslin. Þetta byrjaði allt með litunum. Fallegum litum. Fyrst gulur, svo grænn. Hún málaði ótrúlegar myndir. En þegar hvítu doppurnar komu hætti hún að hvíla sig. Dag einn var hún farin að mála sína eigin liti á raunveruleikann.“
Héðinn horfði blíðlega á son sinn. Héðinn og Hilma höfðu líka trúað á drauma. Kannski var það nauðsynlegt skeið. Ólafur var skynsamur drengur. Hann myndi sjá fallvaltleika litanna.
„Óli minn, þú ert að þroskast svo mikið. En veistu... Stundum er það sem syfjar okkur mest einmitt það sem heldur fyrir okkur vöku. Mig dreymir kannski aldrei, en ég sef saklaus maður.“
Héðinn fann smíði sonarins úti í skógi. Hve fögur hún var í náttbirtunni. Hann hikaði, leit í kringum sig og var næstum því lagstur í appelsínugult rúmið. Hann sá Hilmu fyrir sér. Hve glöð hún hafði verið áður en allt fór á hvolf. Þessi gleði gerði ekkert ómögulegt, sem var einmitt það hættulega við hana. Hilma réði ekki við litina. Hún málaði sig smátt og smátt frá Héðni og frá tveggja ára syninum. Frá sjálfri sér.
Héðinn táraðist og hóf öxina á loft. Grár málmurinn blikaði í tungsljósinu. Þegar litaðar spýturnar hrukku í sundur gáfu þær frá sér undarlega langa bresti sem fylgdi Héðni alla leiðina heim.
Útidyrnar stóðu opnar. Lítið bréf lá á borðinu: „Þú ert ekki hræddur við litina pabbi, heldur sjálfan þig. Þú ert hræddur við að dreyma eins og frjáls maður.“
Héðinn vissi hvar Ólaf væri að finna en lét hann vera. Hann heyrði aftur dynkina. Marrið í stiganum. Hann sá fyrir sér gamla barnaherbergið. Skuggann yfir dýnunni. Drauminn sem varð eftir.
Ólafur gisti hjá byltingarsinnum sem unnu að nýju rúmi. Um nóttina fékk hann litaða sýn: Þrír appelsínugulir menn teygðu veruleikann í nýjar, glitrandi áttir. En það var líka þögul skelfing undir sviðinu. Myndi hann missa stjórn eins og doppótta fólkið? Eins og móðir hans?
Breytingar voru í aðsigi. Grái flokkurinn fékk á sig harða gagnrýni fyrir einokun á sífellt dýrari og þynnri svampdýnum. Andófið náði hámarki þegar Fríða Heiðars í Gráa flokknum svaraði mótmælaröddum í næturútvarpinu: „Kannski vill fólk bara vera sofandi.“
Var fólk að vakna frá gráa minnissvampinum? Þetta var hárrétt augnablik. Ólafur heyrði grámann tifa í bæjarlæknum þegar hann og aðrir byltingarsinnar afhjúpuðu appelsínugult rúm á markaðstorginu. Bæjarbúar göptu af syfju og undrun.
Hægt og bítandi vék þögnin fyrir skvaldri, sem braust út í fagnaðarlæti. Þetta var ekki aðeins rúm, heldur loforð um betri tíma. Múgurinn trylltist.
Var Ólafur tilbúinn? Allt í einu streymdu appelsínugular dýnur og rúmbotnar úr nýrri verksmiðju. Á kaldhæðinn hátt hætti hann að dreyma þó hann legðist í sama litaða rúmið. Í staðinn kom hreinn ótti. Beindist hann að því að endurtaka vegferð foreldra sinna? Eða hræddist hann sína eigin leið?
„Ertu búinn að sjá þetta Óli?“ spurði Davíð félagi hans. Ólafur tók við blaðinu: „Lesblindan dreng dreymdi tvær síður úr Sjálfstæðu fólki í appelsínugulu rúmi.“
Ólafur ætlaði að fagna, en innst inni heyrði hann langt, holt hljóð. Hann leit út um gluggann og sá safnsvörðinn hlaupa hálfnakinn niður götuna með appelsínugulan fána á lofti. Hvenær varð fögnuður að algjöru stjórnleysi?
Stundum var Ólafur ekki viss hvort hann væri vakandi. Nafnlausar hótanir sem bárust inn um lúguna bættu ekki úr skák. Ólafur fann djúpstæðan ótta um að hann myndi annaðhvort vakna frá þessu öllu eða missa stjórn á sjálfum sér. Næturnar geymdu hljóð sem minnti á brestandi grein. Heyrðu aðrir þetta líka?
Fríða Heiðars mætti Ólafi í næturútvarpinu. Hún sakaði hann um lýðskrum. „Hvað með efnahaginn og menntakerfið? Allt grátt.“
„Doppurnar voru aldrei illar, aðeins ástríða sem fór úr böndunum,“ sagði Ólafur.
„Þetta er allt sami liturinn,“ svaraði hún. „Það eina sem Ólafur er búinn að gera hérna er að taka eldgamla hvíta doppu niður af háalofti...“
„Er rykið á háaloftinu ekki grátt?“ spurði þáttastjórnandinn.
„Leyfðu mér að klára hérna. Taka eldgamla hvíta doppu og mála hana appelsínugula. Það er það eina sem hann er búinn að gera.“
Ólafur benti á að fjölskylda Fríðu Heiðars ætti verksmiðjurnar sem framleiddu gráu rúmin. Fólk hefði nú frelsi, ekki aðeins til að velja, heldur til að dreyma sína eigin drauma.
Fríða Heiðars svaraði: „Frelsið er grátt. Að draga upp bara einhvern lit er gera lítið úr baráttu þeirra sem fórnuðu sér fyrir grámann sem við göngum að í dag. Doppurnar koma aftur um leið og við sofnum á verðinum. Gráminn færði okkur vegina og sanngjarna vinnutíma. Ólafur ætlar bara að skola þessu burt með appelsínugulri froðu!“
En fólk hafði tekið lit. Fríða Heiðars sá appelsínugult listaverk spretta upp neðar í götunni sinni. Risavaxna skæra kúlu sem teygði kræklótta anga upp til himins. Óteljandi litaðir kristallar geisluðu í sólinni. Göturnar fylltust af dansi og söngvum. Fríða Heiðars barðist við tilfinningu um að fara út og fagna með þeim.
Hún settist niður við sjónvarpið með bragðlausan gráan safa. Hún dæsti yfir frétt um að vísindamenn hefðu uppgötvað appelsínugular stjörnuþokur og appelsínugul lyf. Hafði hún staðið í vegi fyrir eðlilegri framþróun?
En svo kom frétt um að lögreglumenn og húsverðir hefðu endurtekið sofið yfir sig svo venjulegt fólk hætti sér ekki út á kvöldin. Síðan um versnandi aga sem foreldrar og kennarar kölluðu „appelsínuguluna“. Fríða Heiðars hugsaði um samdráttinn í Gráu verksmiðjunni. Það var hennar að snúa þessari óöld við.
Veröldin hafði litast. En undir skæra litnum var talað um lágværan holan brest. Sumir sögðu hljóðið koma úr nýjum jarðgöngum. Aðrir að hljóðið kæmi einhvern veginn innan frá. Fólkið í lituðu verksmiðjunni hafði varla undan framleiðslunni og Ólafur lofaði að ráða fleira fólk.
Ólafur fann fyrir stolti, en á sama tíma læddist að honum skömm. Voru hvatar hans sjálfselskir eða samfélagslegir? Hann heyrði að strætóbílstjórinn í næsta húsi hefði fengið svo hrikalega martröð að hann gat ekki komið nálægt skiptimiðum aftur. Brak. Fólk mátti ekki fá ranga mynd af byltingunni. Þrátt fyrir að það vantaði fleira fólk tók Ólafur nokkra frá færibandinu og fól þeim að búa til jákvæðar appelsínugular fréttir.
Ólafur lét hraða á framleiðslunni þrátt fyrir viðvaranir starfsfólks: „Við náum ekki að sveigja gormana svona hratt.“ „Lengjum þá vaktirnar,“ svaraði Ólafur og hunsaði grámann sem læddist á milli hans eigin orða. Hann skrifaði undir ódýrari hráefni til að halda niðri kostnaði. Seinna yrðu þau kölluð hetjur.
Úrvinda starfsmenn báðu um frí. „Nú er ekki rétti tíminn til að hvíla sig.“ Ólafur kreppti gráan stein í vasanum. Í hvað var hann að breytast? Var hann farinn að hljóma eins og þau? Nei. Hann var að bjarga fólki frá grámanum. Bjarga framtíðinni.
Allt í einu fóru þræðirnir að slitna. Málningin náði ekki að þorna. Gormarnir skekktust. Ólafur brást við með því að selja dýrar bætur og varahluti. Starfsfólkið vann enn lengri vaktir. Hann rak gamlan skólafélaga sem mótmælti. Annaðhvort var fólk með í byltingunni eða á móti henni.
Rúmin héldu áfram að eyðast innan frá, með undarlegu, holu braki. Ólafur tók nokkur rúm í sundur af ótta við að sjá þar doppur en fann engar. Var hann að endurtaka sömu martröð í nýjum lit?
Fríða Heiðars hló í næturútvarpinu þegar talið barst að holu brakinu sem nú var orðið stöðugt: „Hljóðið í litabólunni að springa.“ Hún bætti við í samúðarfullum tón: „Sjáðu hvernig þeir hafa farið með sitt eigið starfsfólk. Við í Gráa flokknum höfum alltaf barist fyrir eðlilegum hvíldartíma.“
Sumir hörfuðu aftur í grámann. Margir starfsmenn snerust gegn ofríki Ólafs. Harðir stuðningsmenn héldu þó fast í litinn og unnu með Ólafi að því að bæta bæði gorma og grindur.
En skaðinn var skeður. Fríða Heiðars benti á að glæpatíðni og verðbólga hefðu aukist með tilkomu appelsínugulu rúmanna. „Greinilegt orsakasamhengi. Fólk er svo upptekið af sjálfu sér að það lítur ekki á sig sem hluta af samfélaginu lengur. Gráminn sé oss næstur!“
Heima bylti Ólafur sér. Var þetta honum að kenna? Í fréttunum sá hann fólk í appelsínugulum fötum brenna grá rúm á markaðstorginu. Reiður ungur maður baunaði litasprengjum yfir öldunga Svefnráðsins. Þetta var ekki byltingin sem Ólafur ætlaði sér. Hafði hann vakið upp gamla martröð? Nei. Nú þurfti hann að hafa vit fyrir fólki.
Þegar Fríða Heiðars steig út úr útvarpshúsinu mætti hún ungu pari með appelsínugula vöggu. Barnið svaf, ómeðvitað um merkingu litanna.
Eitt sinn hafði Fríða séð heiminn í lit, án þess að þagga hann niður. Gat hún það enn? Hún heyrði innra með sér doppóttu lögin sem mátti ekki syngja:
„Dreymum doppur frjáls,
dýrð sé kóngi nætur!
Klífum kojur stáls,
kátir sveina fætur!“
Hún fann fyrir létti sem hún náði ekki utan um. Hafði líf hennar gengið á sjálfstýringu? Hún leit á barnið. Hún vissi að sumar reglur í Gráu bókinni voru út í hött. En fólki þurfti að mæta þar sem það var.
Fríða Heiðars leit frá barninu. Hún rifjaði upp loforðið sem hún gaf föður sínum á dánarbeðinu. Loforð um að gefa andvaka heimi gráan svefn.
Slagorðið „GRÁTT ER GOTT“ var á allra vörum í næstu kosningum. Grái flokkurinn náði yfirgnæfandi meirihluta og rúm bæjarins féllu aftur í gráan svefn.
Eftir langa kosninganótt lá Fríða Heiðars með Gráu bókina opna í fartölvunni. Hún lék sér að því að breyta litnum á stöfunum á meðan maður hennar svaf. Fyrst í doppótt. Svo í appelsínugult. Loks aftur í grátt.
Svefnráðið bannaði Ólafi að koma nálægt hönnun og samsetningu rúma nokkurn tímann aftur. Honum var úthlutað starf í grárri verslun. Ólafi var að vissu leyti létt að bera ekki heiminn á herðum sér. Og skyndilega var brakhljóðið á bak og burt.
Héðinn faðir hans heimsótti Ólaf oft í búðina og keypti gráa blýanta. Eitt sinn færði hann Ólafi rykuga mynd sem Hilma móðir Ólafs hafði málað. „Þetta var síðasta myndin.“ Undir gráma myndarinnar skein í litlar hvítar doppur.
Ólafur skildi að Héðinn hafði aðeins reynt að vernda hann fyrir sínum eigin ótta. Ekki var hann heldur til í að fórna geðheilsunni fyrir bæ sem var ekki reiðubúinn að vakna. Ólafur hafði lært að getunni til að dreyma fylgdu óhjákvæmilega martraðir. En síðasta mynd móður hans fylgdi honum.
Eitt kvöld horfði Ólafur á sólina setjast. Skýin, sem minntu á hvítar doppur, urðu smám saman grá. Í andartak brá fyrir keim af appelsínugulu á milli þeirra. Ólafur var ekki aðeins orðinn hræddur við doppurnar heldur sjálfan sig. Hann mundi eftir draumnum í skóginum. Lófatakinu þegar hann tókst á loft. Ef hann gæti aðeins byrjað aftur.
Ólafur heyrði fjarlægan brest, næstum eins og úr minningu. Síðan sá hann fjóra unga menn bera rúm inn í dökkvann. Rúmið hafði liti sem hann hafði aldrei dreymt um: Gulan, bláan, grænan...
Ólafur hristi höfuðið. Þessir litlu drengir vissu ekkert um byltingu. Hverju hann hafði fórnað. Fyrir hverja? Hrjótandi hálfvita.
Annar drengjanna leit á Ólaf og kinkaði kolli áður en hann hvarf út í nóttina. Ólafur fann fyrir óvæntum sting. Hann skildi að lófatakið í fyrsta draumnum hafði aldrei verið fyrir sig heldur alla sem börðust fyrir lituðum hugmyndum.
Ólafur lokaði augum og brosti. Hann fann litina streyma fram hjá sér. Hann sá litina í augum móður sinnar. Óendanlega liti sem hann hjálpaði til við að vekja en myndu hvorki enda með honum né henni.