sunnudagur, 28. september 2025


Hjálpin

Þegar Rúnar fékk skilaboðin frá Yngva fann hann fyrir kunnuglegri lúku yfir brjóstinu. Nöturlegum, titrandi fingrum sem herptust með óáþreifanlegan dofa á milli rifjanna. En nú vaknaði enginn annar en Rúnar við hvell skilaboðin. Engin sem fannst hún vera í samkeppni við veikan æskuvin.

Vonandi tæki þetta fljótt af, síðast sofnaði Rúnar á miðri kynningu um nýja verkferla í vinnunni eftir aðra eins nótt. Það sæmdi ekki millistjórnanda að sofna á mikilvægum fundi um verkferla. Svo var Sif þarna líka; leiðin út.

Rúnar þekkti þetta tog löngu á undan Yngva. Áður en hann þekkti sjálfan sig. Togið í strengjunum. Rúnar hafði aldrei áttað sig á því hvort hann hafði fæðst með þá eða tekið þá upp á Túngötunni þegar hann sá systur sína lúffa fyrir vafasömum kæröstum. Ef hann hefði getað varið hana. En kærastarnir voru miklu eldri en Rúnar.

Rödd í þögninni spurði hvers vegna fólk gerði sjálfu sér þetta. En hver annar kæmi til Yngva? Enginn. Og þar með var kippt í brúðuna. En fann Rúnar í alvöru til með Yngva, eða sveipaði hann sjálfan sig með skikkju til að gleyma einhverju?

Rúnar hefði aldrei vingast við þennan mann í dag. En hann mundi eftir Yngva sem hafði skriðið inn um gluggann á Túngötunni þegar að meira en dyrnar voru læstar. Yngvi sem vældi ekki, heldur hlustaði með honum á heiminn.

Yngvi hafði oftar en einu sinni kennt Rúnari að standa með sjálfum sér. Síðast eftir skilnaðinn, þar sem hann fékk að gista á sófanum hjá Yngva. Einir saman á ný, tveir fráskildir menn gegn heiminum.

Rúnar mundi eftir fyrsta dramatíska skilaboðinu. Þegar Hófí fór frá Yngva með krakkana. Aftur, en í síðasta sinn. Hvernig Yngvi hafði grátið eins og smábarn á meðan Rúnar talaði í gegnum nóttina þar til sólin kæfði dauft stofuljósið.

Rúnar sá fyrir sér drapplitaða himininn þegar hann skildi Yngva eftir fyrir framan bráðamóttökuna. Þó hann væri drungalegur fylgdi honum samt djúpur ylur, eins og kvika undir jökulhettu. Sum hlutverk gefa tilgang. Ástæðu til að vera.

Rúnar stöðvaði bifreiðina. Hafði hann tekið þátt í að skapa þennan vítahring? Hvenær hafði hann orðið áskrifandi að eymd annarra? Eða var eymdin orðin áskrifandi að honum? Honum hafði tekist að sannfæra Yngva um að fara ekki aftur til sinnar fyrrverandi. Rúnar hafði tekið undir með Yngva að ekkert vit væri í sálfræðingum og læknadópi. Fyrir hvorn þeirra?

Ef það væru til verkferlar fyrir fólk, svona eins og í vinnunni. Samt. Þó þeir væru til myndi fólk ekki innleiða þá viljandi. Bryti þá í spað og kenndi öllu um nema sjálfu sér. Bara til að skapa upplifun um val. Hafði Rúnar valið sér þetta líf eða aldrei haft neina stjórn? Hafði hann rekið áfram með blekkingu viljans að leiðarljósi?

Þegar Rúnar gekk inn fannst honum stofugólfið lýsast ögn. Lykt af áfengi, lágt hljóð úr sjónvarpi. Rúnar fann aftur þykku, skrýtnu lyktina úr herbergi systur sinnar. Hann gekk hjá eldhúsi með opinni túnfiskdós og kexmylsnum, leit á rykfallinn golfbikar og hálfupplýstar krakkamyndir á veggjunum. Hálft lyfjaspjald lá undir stofuborðinu.

Rúnar þekkti þessa sviðsmynd, hreyfingarnar voru næstum sjálfvirkar. En þrýstingurinn á milli rifjanna var farinn. Átti hann ekki að finna fyrir einhverju? Var dofinn hættur eða voru þeir orðnir að einu og sama fyrirbærinu, hann og dofinn?

Neyð Yngva hafði hjálpað Rúnari að finna tilgang, en þessi sami tilgangur deyfði þá báða. Hvor hafði notfært sér hvorn? Voru þeir enn menn eða ekkert nema reykur og skuggi að þvinga sér leið yfir hverfandi, dökk ræsi?

Rúnar vissi að Yngvi lægi í sófanum. Sama sófa og Rúnar hafði sjálfur fengið að gista í eftir skilnaðinn. Hann fann næstum því fyrir slitna gorminum stingast aftur í bakið.

Rúnar heyrði innra með sér allt sem Yngvi myndi segja: Fyrst ögrandi opnunin, svo upptalning á blórabögglum. Síðan hikið, svo sjálfsvorkunnin. Síðast myndi Yngvi sofna í sófanum og Rúnar færi þreyttur í vinnuna og hugsaði sjálfur um að hverfa. 

Ef Rúnar hefði ekki alltaf verið svona upptekinn af því að bjarga heiminum gæti hann bjargað því litla sem eftir var af hans eigin lífi. Hjúkrunarfræðingurinn hafði sagt honum að passa bakið. En hvað um manninn á þessu baki?

Í þetta sinn staðnæmdist Rúnar á miðju gólfi. Yngva virtist brugðið: „Bíddu, hvar er ræðan?“ Ögrandi háðstónn vafði sér á milli orðanna. Aðferð sem Rúnar þekkti of vel. Næst myndi Yngvi neita því að leita sér hjálpar. Tala um hvernig enginn gæti hlustað nema Rúnar. Hvernig enginn annar myndi skilja. Síðan myndi Rúnar sitja í litla, þrönga sófanum þar til Yngvi sofnaði á snjáðum sófa eymdarinnar.

En Rúnar fraus. Getur maður bjargað öðrum en sjálfum sér? Hann sagði ekkert. Fann ekki fyrir neinu. Reyndi að sjá Sif fyrir sér. Hvernig var aftur lyktin af henni? Í staðinn kom í hugann fyrsta starfsmannakvöldið sem Sif mætti á. Þó Yngvi hefði ekki sent nein skilaboð, bjóst Rúnar við slíkum á hverri stundu, svo hann varð þeim mun óöruggari og endaði á því að taka óvart undir hálfrasísk ummæli Kristnýjar beint fyrir framan Sif, sem var sjálf ættleidd. Hvernig gat hann verið svona mikill aumingi?

„Rúnar?“ Yngvi hljómaði hissa yfir því að Rúnar væri ekki að spyrja um hvað hann hefði drukkið mikið. Hvort hann hefði borðað eitthvað og tekið töflurnar? Talað um draslið í íbúðinni og spurt um krakkana. Sekúndurnar liðu eins og bergmál á milli þeirra. „Rúnar, ertu þarna? Gerðist eitthvað?“

En Rúnar sagði ekki neitt og fann sjálfur hvernig stofan varð dimmari með hverju ósögðu orði. Af hverju var hann þarna? Til að endurtaka leikinn eftir tvær vikur? Til að hjálpa sjálfum sér í gegnum hinn veika? Sif myndi skilja, ólíkt Guðnýju. Sif hafði verið í ofbeldissambandi var hvíslað á kaffistofunni.

„Rúni, manstu þegar Guðný fór, hvað þú sagðir mér þá?“

„Hættu.“

„Þetta með að vera einn, innan um aðra.“

Rúnar þagði. Hvernig fór Yngvi að þessu? Var hann búinn að æfa þetta, skipuleggja flóttaleið ef leikurinn breyttist?

„Þú ert ekki einn.“

Rúnar fann ekki fyrir fótunum. Það var eins og stofan væri ekki raunveruleg. Dauf peran lýsti upp sama svið og þegar systir hans sagði að hann mætti ekki segja foreldrum þeirra frá nálunum.

„Ég get þetta ekki lengur, Yngvi. Hringdu á sjúkrabíl eða ég geri það fyrir þig.“

„Ég vissi það. Þú komst bara hingað fyrir sjálfan þig, eins og alltaf. Til að einhver annar sé auminginn.“

Göturnar voru hljóðar þegar Rúnar keyrði heim. Þó hann keyrði heim var eins og hann vissi ekki hvert göturnar leiddu. Síminn titraði. Rúnar sá byrjun skilaboðanna en opnaði þau ekki: „Ég hjálpaði þér þegar...“ Rúnar tók nýja beygju. Það var slökkt í blokkaríbúð Sifjar. Auðvitað, klukkan var þrjú. Hann hélt heim.

Rúnar fann símann titra aftur í vasanum á miðjum hádegisfundi um úrelta verkferla. Nafn Yngva á skjánum. Yngvi hringdi og hringdi aftur. Hvað var flótti og hvað að hlaupa aftur heim? Á furðulegan hátt fylgdu orðljótu skilaboðunum sem á eftir komu ákveðin huggun, næstum hreinsun.

Að vissu leyti fannst Rúnari hann eiga ásakanirnar skildar. Þau sögðu líka að Yngvi væri þarna enn. En kannski hafði Yngvi aldrei beðið um hjálp, heldur aðeins einhvern til að spyrna sér frá. Ekki til að breyta, heldur viðhalda. En hvað getur maður verið hetjan í mörgum lífum í einu?

Rúnar fór fram af hádegisfundinum og sá mann fara inn með matarbakka. Hann dró upp símann og hringdi. Þegar Rúnar kom aftur inn sungu gamlir verkferlar sinn síðasta söng yfir lyktinni af grilluðum laxi og hrísgrjónum.

Á milli rifjanna hreiðraði um sig ný tilfinning, á sama tíma þung og létt. Á meðan fyrirlesarinn talaði um að breytingar rétti Rúnar Sif litla, hvíta servíettu úr bunka á enda borðsins. Hann sá örið yfir úlnlið hennar skjótast undir ermina.

Þegar þau spjölluðu saman eftir vinnu ímyndaði Rúnar sér að Yngvi hefði opnað dyrnar fyrir faghjálpinni sem Rúnar hafði kallað út án þess að svara honum. 

Sif spurði hvað honum fyndist um breytingarnar. „Ég skil alveg þörf fyrir svona ferla, en þeir mega ekki taka yfir sjálfstæða hugsun starfsmanna,“ svaraði Rúnar mun vélrænna en hann hafði vonað.

„Nei, ég veit um nokkuð sem þeir ná ekki utan um,“ hvíslaði Sif í eyra Rúnars, skaut olnboganum í síðu hans og opnaði útidyrnar upp á gátt. Marsloftið var kalt, en ótrúlega ferskt.

„Það er gott kaffið hérna neðar í götunni.“

eXTReMe Tracker