mánudagur, 11. ágúst 2025


Teppið

Albert þurfti aukasígarettu áður en hann þorði að hringja bjöllunni: „Parfdal von Untergarten.“ Nafnið eitt lagði þrönga skel yfir brjóstið svo hann saug aðra umferð úr astmapústinu. Blágrænn hólkurinn minnti hann alltaf á vinalega skjaldböku.

Albert sat grafkyrr þegar prentari prófessorsins fór í gang. Virti fyrir sér gamlan spegil á vegg bílskúrsins. Það var eitthvað óþægilegt við spegilinn sjálfan svo hann skoðaði bara rammann: Austræn skrift og endurteknar ristur á bókstafnum F.

Hornið sem kom fyrst út úr prentaranum líktist helst gömlu teppi. Þétt ofnir þræðir sem runnu saman yfir mjúka og loðna undirstöðu. Fyrst saklausar línur og bogar. En þegar fyrsta formið tók á sig mynd leit Albert ósjálfrátt undan, hristi síðan höfuðið og hló vandræðalega. Þetta líktist sturtuhengi úr æsku sem hann óttaðist þegar hann fór einn á klósettið. Hvernig átti þetta að hjálpa með reykleysi?

Albert vissi að prófessor Parfdal hafði alltaf verið óhefðbundinn. Ekki aðeins gegnsýrður af austrænni speki, heldur einnig sínum eigin uppfinningum. En Albert hafði reynt allt. Samt spurði Gerður hvort allt þyrfti að gerast svona hægt.

Astmaköstin eftir blóðugan skilnað í fyrra höfðu kostað hann 7. sætið í norðvesturkjördæmi. Alberti var að vissu leyti létt, honum fannst hann ekki tilbúinn að andmæla sjálfum iðnaðarráðherra opinberlega.

Bara ef hann væri jafn ákveðinn og ráðherrann. Hrökklaðist ekki inn í aumingjalega skel. Undirbúandi ræðu um hreint loft með sígarettu í munninum. Og nú, þegar Gerður átti von á fyrsta barni þeirra snerist þetta ekki einungis um hann sjálfan lengur.

Albert vissi að það væri búið að hóta prófessor Parfdal brottrekstri úr alþjóðafélagi geðrannsókna margendurtekið. En þegar prófessorinn sofnaði óvart yfir skanna þrívíddarprentarans svo annað augað nam við ljósrákina, varð ekki aftur snúið.

Þetta var fyrsta frétt þrjá daga í röð. „Snillingur að störfum, eða örvætingarfull tilraun til að sópa fyrri afglöpum undir teppið?“ Fordæmin sýndu að margar stærstu uppgötvanir læknavísinda voru gerðar af slysni.

Parfdal hallaði sér óþægilega nálægt Alberti, svo mottan á efri vörinni straukst við eyrnasnepilinn: „Í fyrsta skipti í sögunni getur þú séð þína eigin dulvitund prentaða á teppi. Þú borgar Parfdal... en verður samt ríkur. Gott!“

„Hver heldur þú að vilji flagga bældum hvötum í anddyrinu heima hjá sér?“ Albert færði sig undan prófessornum.

„Fólk hefur alltaf þurrkað skóna í dulvitundina hvort eð er,“ svaraði Parfdal glottandi. „Þú getur keypt teppi í JYSK eins og allir aðrir ef þér sýnist!“

Albert hlustaði á vélina prenta. Skrýtin lykt fylgdi sem fór beint ofan í lungun. Hann hóstaði. Lyktin minnti á stigaganginn á Baldursgötu. Foreldrar hans, báðir að reykja yfir vagninum. Albert ætlaði að grípa astmapústið en kuðlaði óvart saman sónarmyndinni af syninum. Prentarinn hvein eins og hann væri líka tepptur.

Albert pírði augun á teppið. Lítil grá vera með hrútshorn og klaufir að kyrkja hans fyrrverandi. Albert fann hvernig fingurnir krepptust. Brjóstið hitnaði. Hvernig vissi...?

Parfdal sat á bak við gegnsætt gler og sönglaði þýska barnagælu vafinn í sitt eigið teppi á meðan:

„Schlaf, kleiner Schildkröten-Junge, die Muscheln auf dem Meeresboden werden die Sterne nie kennenlernen.“

Albert gjóaði augum á teppi Parfdals. Blágrænn drengur sem há, hvít vera rassskellti með... þýskri orðabók?

Hann mætti augnaráði prófessorsins sem kjökraði: „F mein Herr, ég komst aldrei lengra en F.“

Albert leit á sitt eigið teppi og minnti sig á að það var Parfdal sem var meðferðaraðilinn þarna. Og furðufuglinn.

„Það er eitthvað að þessari vél, prófessor.“ Prófessorinn leit niður, en svaraði lágt og snöktandi: „Nei, Meister Albert. Það er eitthvað mikið að okkur öllum. En þú og ég... við sjáum í gegn, er það ekki?“

Albert reyndi að hugsa um eitthvað fallegt. Bíddu... Hver voru þetta á teppinu? Iðnaðarráðherra, Albert sjálfur og konan úr sundi sem svaraði aldrei þegar hann bauð henni góðan dag. Þau þrjú í kynsvalli... á Ingólfstorgi?

Af hverju iðnaðarráðherra? Maður sem hann hafði sakað um landráð. Albert á teppinu reykti sínar eigin lungnapípur. Ráðherrann líktist héra við ráslínu en Albert bar skel á bakinu. Þessi vél var illa biluð, eins og Parfdal sjálfur.

Gráir bílskúrsveggirnir þrengdu að Alberti. Hann sundlaði og kastaði upp yfir teppið svo tækið sendi frá sér bláan neista og stöðvaðist. Leiðslurnar rifnuðu af með blautu soghljóði þegar Albert rauk út rauður í framan.

Parfdal bauðst til að senda Alberti teppið tveimur dögum síðar sem hann þáði. Til að tortíma því. Eða fela það undir pallinum í sumarbústaðnum? Nei, Gerður myndi ærast. Brenna þetta strax.

En þegar teppið týndist í póstinum varði Parfdal sig með því að dulvitundin færi sínar eigin leiðir. Albert hefði skemmt dýran tækjabúnað og þegar skrifað undir eigendaábyrgð sem tók fyrir endurgreiðslu. Hann væri bara heppinn að Parfdal væri maður fólksins.

Albert heyrði ekki af prófessor Parfdal aftur. Hafði nóg með að sinna ungabarni heima. Leit í frosinni skömm á konuna þegar iðnaðarráðherra kynnti frumvarp um virkjun í miðjum þjóðgarði. Fannst hann sitja í heitum potti þegar þau rifust um hvort nikótínfíkn væri spurning um aga eða erfðir. Hætti að bjóða góðan dag í sundi.

En samfélagið breyttist með uppfinningunni. Albert sofnaði yfir nýrri glæpasögu þar sem enginn braut af sér. Hætti að dreyma. Á meðan hann fór út með barnavagninn heyrði hann prest og sálfræðing í útvarpinu tala um auða bekki. Allar auglýsingar í þættinum voru um djúphreinsun á mottum.

Sumir viðskiptavinir Parfdals kvörtuðu yfir því að húð þeirra væri farin að líkjast gömlu, litlausu teppi. Eldri kona sýndi skóför á bakinu. Parfdal komst undan með því að kenna um ljósabekkjum og tíðum ferðum til sólarlanda.

Sonur Alberts óx og dafnaði. Þegar Albert sótti afmælisköku fyrir þriggja ára afmælið heyrði hann um stórfellt skattsvik í útvarpinu: „Lögreglan kom að galtómum bílskúr prófessorsins. Aðeins stakur þráður lá eftir á gólfinu, vafinn inn í sjálfan sig.“

Sumir töldu það merki um að Parfdal hefði flúið inn í sjálfan sig. Jarðbundnari raddir sögðu hann hafa haldið austur um höf.

Fimm árum seinna fór Albert í heimsreisu með fjölskyldunni. Í afskekktri búð í Nepal rakst hann á kunnugleg mynstur á teppum í hundraðavís. Eitt þeirra sýndi mynd af rjúkandi berkjum. Greinilega var búið að hreinsa út aðra hluta teppisins, en hann þekkti enn útlínur sinnar fyrrverandi.

Albert þóttist ekki sjá teppin, né bera kennsl á sölumanninn. Gekk framhjá gömlum spegli án þess að lesa skriftina á viðnum. Keypti skjaldböku úr leir handa átta ára syni sínum: „Af hverju eru þær með svona skel?“ spurði sonurinn. „Til að verja sig,“ svaraði Albert.

Þegar Albert steig út veiddi hann sígarettupakka upp úr vasanum. Hann rétti syninum skjaldbökuna og fannst eins og hann væri sjálfur að horfa út um lítið gat sem tveir fullorðnir stóðu yfir með glóð í munnvikunum og sögðu: „Við völdum þetta aldrei.“

Albert drap í sígarettunni. Reykurinn minnti á raknandi þræði. Hann tók skjaldbökuna af syni sínum og þrykkti henni inn um glugga á versluninni þar sem hún mölvaði gamla spegilinn.

Albert fyllti lungun af hreinu lofti. Sonurinn benti á F-laga ský. Innan úr búðinni barst tregafullur söngur: „Schlaf, kleiner Schildkröten-Junge...“ En Albert sá aðeins bros Gerðar.

eXTReMe Tracker