sunnudagur, 31. ágúst 2025


Opið bréf til ríkisskattstjóra

Kæri ríkisskattstjóri.
Ég skrifa þetta bréf ekki sem eigandi stærsta kvikmyndahúss bæjarins, heldur sem auðmjúkur þjónn samfélagsins. Aldrei myndi ég raska ró yðar vegna svo lítilvægra fjárhæða, nema vegna þeirra skelfilegu atburða sem dunið hafa á kvikmyndahúsi mínu að undanförnu. Málið snýst heldur ekki um fáeina auruga skildinga, heldur sjálfar undirstöður velferðarsamfélagsins.
Sjáðu til, við í Kvikmyndahúsi Garðars Bærings störfum eftir gildum sem lita ekki aðeins starfsemina, heldur einnig líf og limi þeirra sem gefa sýningargestum hlé frá raunveruleikanum. Þegar Kata í miðasölunni fór í barneignarleyfi í fyrra, steig ég sjálfur niður í miðasöluna, þar til ný starfsstúlka fannst. Þessari góðgerð minni og auðmýkt mætti líkja við lægri skattþrep ykkar fyrir þá sem minna mega sín. Já, hér þekkir einn mannvinur annan.
Það er því afskaplega óheppilegt að sá mannlegi harmleikur sem átti sér stað hér síðustu helgi hafi þurft að taka sér bólfestu einmitt innan veggja kvikmyndahúss sem gerir út á kærleik við náungann. Innan húsrúms sem var ekki byggt til að græða, heldur til að opna hug og hjörtu almennings. Og þó nafn mitt slæðist inn á milli lína í Tekjublaðinu, slær hjarta mitt einatt með okkar minnstu bræðrum og systrum.
Ólánið hófst allt með öldruðum manni, Ragnari Fiskfjörð, sem krafðist endurgreiðslu á miða að sýningu lokinni. Hann bar fyrir sig sjaldgæft, áunnið öldrunarheilkenni sem ku hrjá aðeins 0,001% mannkyns, svo nýuppgötvað að fyrsta vísindagreinin um það hefur ekki enn verið birt.
Ragnar þessi sagðist hafa keypt miða á heimildamynd um Síberíurefinn en hafi fyrir mistök lent á annarri, bannaðri og blárri mynd, og upplifað þar bæði niðurlægingu og hortugheit. Hjá okkur, sem sláum oft af miðaverði fyrir börn og erlenda ferðamenn, og röðum í kistur samfélagsins hvort sem litið er til hátekjuskatts eða menningarlegra verðmæta sem skaga langt upp úr nokkru skattaframtali.
Ég stend á krossgötum. Hver og einn ber ábyrgð á að fara í réttan sal. Sat maðurinn virkilega í gegnum heila, ranga kvikmynd án þess að gera neitt? Og það með því að kaupa sig inn á ódýra mynd um slyngan og kaldan ref sem lifir og hrærist í ríki kommúnista! Er það furða virðulegur skattstjóri, að ég spyrji hvort verið sé að hafa mig að fífli?
Á ég að velja harða viðskiptahætti eða auðsýna mildi? Ef ég endurgreiði, gæti það skapað fordæmi þar sem fólk heimtar peninga til baka fyrir eigin mistök, þrátt fyrir að hafa neytt og jafnvel notið þjónustunnar. En gott orðspor vegur einnig þungt hjá grænum, jafnlaunavottuðum velferðarfyrirtækjum eins og mínu.
Auðvitað gætir þú spurt um læknisvottorð. Já, hví hugsaði ég ekki um það? Þorskhaus þessi hefði getað slengt fram gulnuðu A4-skjali þar sem staðið hefði: „Hér með staðfestist að Ragnar Fiskfjörð kommúnisti er með óskráð form elliglapa sem hindra hann í að finna réttan bíósal og krefst þess að allar rangar sýningar verði endurgreiddar með poppi og gosi.“ En engin slík skjöl voru lögð fram.
Það sem áður var myrkvað skjól kvikmyndatöfra er nú orðið að vígvelli siðferðis og sjúkdóma. Hvað næst? Getur fólk með kæfisvefn óskað eftir endurgreiðslu eftir að hafa sofið í gegnum heilu myndirnar? Þurfa eigendur fyrirtækja að standa vörð um hvert viðskiptavinir þeirra fara og í hvers háttar ásigkomulagi? Eða látum við poppkornsregluna sígildu ráða: „Ef þú kláraðir poppið, var myndin ekki svo slæm“?
En málið hefur enn vaxið og dregið að sér óvæntan álitsgjafa. Mann sem kallar sig Dulspekinginn, fastagestur sem segist koma „til að samlagast myrkrinu“. Hann sendi mér handskrifað bréf:
„Þessi Ragnar, ef hann er þá til, er táknmynd óréttlætis í heimi þar sem fólk telur sig eiga rétt á geðþóttatilvist. Hver er svindlarinn? Bíóið, sem selur falska drauma, eða áhorfandinn sem telur sig berja sannleikann augum? Þú flýrð ekki kvikmyndina. Hún er undanskot frá því að líta inn á við í forboðin djúp sálarinnar.“
Ég er siðsamur maður herra skattstjóri, en í lok bréfs bætir Dulspekingurinn við að sjálfsfróun sé bönnuð í kvikmyndahúsum. Var hann að vísa í raunverulegt vandamál, eða var þetta dýpri speki? Átti hann við sálræna fróun, þá egóísku einangrun að nota listina eingöngu fyrir sjálfan sig, þar sem hver borgari situr lokaður og læstur gagnvart sameiginlegri upplifun með náunganum í næsta sæti? Var þetta ákall til samveru eða tilraun til stjórnunar?
Ég vona að þér, virðulegur ríkisskattsstjóri, skiljir alvöru málsins. Hér er ekki reynt að koma nokkrum krónum undan gagni og skyldu, heldur er tekist á um máttarstólpa kerfis sem byggir á réttlæti og virðingu fyrir listinni að reka fyrirtæki með hjartað á réttum stað.
Ég bið þess eins að bera ekki allan kostnað, beinan og óbeinan, sem þegar hlotist hefur og mun gera áfram af miðamáli Ragnars. Og á tíma sem verð á sogrörum og pappaglösum hafa hækkað upp úr öllu valdi!
Þér hljótið að gera undantekningu fyrir heiðarlegan viðskiptamann og samfélagsföður. Annars sér hver maður að öll viðskiptahús bæjarins munu innan tíðar fyllast af skætingi og fordæmalausum endurgreiðslukröfum frá uppgerðarlýð.
Með von um skilning á skattaárinu, Garðar Bæring.

eXTReMe Tracker