miðvikudagur, 13. ágúst 2025


Maðurinn á milli

Fyrst var aðeins ógreinilegt rumsk í stofusófanum, eins og einhver væri að teygja úr sér. „Rottur?“ spurði Andri. „Brak í leðrinu,“ svaraði Ólöf yfir myndinni. En síðan heyrðist einhver kyngja þó poppið væri löngu búið.

Andri hafði látið undan að horfa á Stellu í orlofi eftir leiðindaþras. „Ég sagði við manninn, er ekki betra að þið ræðið þetta þegar hvorugt ykkar er þreytt?“ Ólöf lagði glasið harkalega niður: „Getum við talað um eitthvað annað en vinnuna?“

„Við hvern á ég að tala? Þú ert tvo tíma í ræktinni,“ svaraði Andri fýlulega. „Hvað ertu að flýja?“ 

„Veistu hvernig þetta er í vinnunni hjá mér? Veistu hvað ég...“

„Ólöf. Vandi flestra para sem koma til mín er...“ 

„Aaa... Þegar ég er í ræktinni er alla vega enginn að nuða vandamálum annarra í smettið á mér.“ 

Þau kveiktu á myndinni. En brátt var eins og einhver annar ætti þögnina í sófanum, eins og hol spenna sem hvorugt þekkti. Síðan byrjuðu hljóðin.

Andri reyndi að hrista ónotakenndina af sér. Lagði hönd yfir herðar Ólafar. Hann mætti ósýnilegum þunga, eins og hann þyrfti að ýta annarri hendi frá.

Hann þefaði. Daufur rakspíri. Framhjáhald? Hver var tvo og hálfan tíma í ræktinni?

En tortryggni hans vék fyrir sameiginlegum ótta þegar þau heyrðu einhvern geispa undan leðurklæðningunni. Þau tókust í hendur, eins og einu sinni.

Andri tók hljóðið af sjónvarpinu. Nú heyrðist einhver svolgra. Brennivínslykt reis úr bilinu á milli skrautpúðanna.

„Hvaða hljóð eru þetta?“ spurði Andri. Þögnin sem fylgdi lagðist eins og seigfljótandi hjúpur á milli þeirra.

Síðan heyrðist spurt: „Hvað fannst þér um unga fólkið í morgun, Andri?“ Röddin var hrjúf og hás. Minnti á Ladda með hálsbólgu.

Andri opnaði munninn en Ólöf boraði tveimur fingrum inn í öxl hans og hristi þungbrýnd höfuðið. Það mátti ekki fóðra þetta, hvað sem þetta var. 

En röddin hélt áfram: „Rúnar hefði alveg getað tekið einn í viðbót, fyrst Sigga var veik. Fólk er búið að bíða í nokkrar vikur.“ 

Röddin þagnaði. Myndin hélt áfram en þau fylgdu ekki söguþræðinum. Uppi í rúmi horfðust þau þögul í augu á meðan einhver skrækti: „Er maðurinn að verða vitlaus eða hvað?“

Heimilið varð ekki samt aftur. Röddin byrjaði þegar Andri kom heim og hætti um leið og Ólöf sofnaði. Andri lagði til að Ólöf hefði það huggulegt yfir bók fyrir háttinn.

Ólöf vildi láta athuga með hlerun, símana, þungmálma, sófaframleiðandann, Ladda, særingamann... Andri hummaði.

„Andri, ertu hérna?“ „Já. Við eigum eftir að borga píparanum, tryggingarnar, fasteignagjöldin... Sjáum hvað við eigum eftir mánaðamótin. Það er ekki eins og þetta sé hættulegt Ólöf.“ 

En vikurnar liðu og Andri sat bara inni í stofu þegar hún kom fram. „Veistu ég er farin að halda að þú viljir hafa þetta FYRIRBÆRI á milli okkar.“

„Ha... nei, nei. Ég meina... Það er fínt að tala við hann sko.“ 

„Ssss,“ sussaði maðurinn á milli þegar Ólöf skellti útidyrahurðinni. „Það er verið að horfa á mynd hérna.“

Þannig gekk þetta. Þegar Andri kom heim talaði hann við manninn um vinnudaginn og kveikti svo á Stellu fyrir hann.

Ólöf fór í ræktina á meðan. En þegar hún tók um lóðin rifjaði hún upp hótun mannsins sem hún hafði handtekið. Hún kláraði ekki lyftuna. Var þetta popplykt?

Þau reyndu. Andri lagði popp og staup á stofuborðið. Ólöf keypti Stellu í orlofi og setti á endurspilun. Síðan laumuðust þau upp í hjónaherbergi. Þetta var kannski það sem þau þurftu.

En friðurinn entist ekki lengi. Andri hrasaði niður tröppur í vinnunni og braut báða ökkla. Var mikið heima.

Ólöf kom seint heim eftir ljóta aðkomu að slysi. Andri talaði um verki, lélegan svefn, ógleði... Ólöf dæsti og sauð spaghettí.

Hún horfði út. Sá fyrir sér vettvang slyssins. Brotið glerið, blóðið, augun. Strauk yfir auman blett undir bolnum þegar Andri stakk gafflinum upp í sig. Ætti hún að láta líta á þetta? 

Hún fór ekki í ræktina. Andri hélt áfram, taldi sig vera að kvefast aftur. „Þetta spaghettí er enn hart.“ 

Það var þá sem maðurinn á milli þeirra rauf aðra þögn: „En þú Ólöf... hvernig líður þér?“ 

„Ha, mér? Ertu að spyrja mig?“ Andri hætti að bryðja spaghettíið.

„Já, þér,“ svaraði röddin. „Ég sé að þú ert annars hugar í dag. Ég vil að þú vitir að mér finnst þú vera sterk.“ Þetta hafði Andri aldrei sagt. 

„Veistu. Stundum erum við sterkust þegar við berskjöldum okkur. Þú þarft ekki að bera þetta allt ein.“ 

Ólöfu fannst móta fyrir útlínum mannsins, í sama mynstri og rautt leðrið. Ætli hann væri myndarlegur?

Andri gjóaði augum á Ólöfu. Maðurinn var orðinn mjög áhugasamur um konuna hans. Eins og hann hafði verið gagnvart Andra. Nú töluðust þeir varla við.

Andri sá Ólöfu pukrast með staupglas inn í stofu seint um kvöld. „Hvað heldurðu að þú sért að gera?“ Hátt, skerandi hljóð rauf samtalið, eins og þungt húsgagn að færast. Þau sáu greinilega tvo ökkla við sófann.

Ólöf varði minni tíma í ræktinni. Sagðist ætla að lesa aðeins fyrir háttinn. En Andri heyrði kæft flissið inn í herbergi.

„Þú lítur út eins og leikkona á þessari mynd.“ „En sætt af þér. Finnst þér rauður fara mér?“ „Ólöf, allir litir fara þér vel.“ 

Andri beit í sængina og horfði á diplómað í sambandshjúkrun yfir náttborðinu. Þessu varð að linna.

Nótt eina þegar lyktin af poppi og brennivíni smaug sér inn í gróandi beinin klippti hann af bæði gipsin. Staulaðist hljóðlaust fram þrátt fyrir sársaukann.

Ólöf og maðurinn litu undrandi upp. Andri sá flóttaleg augun á dökkrauðu leðurandlitinu. Síðan hvessti maðurinn brúnir.

Andri þreif í hönd Ólafar. Faðmaði hana fast að sér þegar hún stóð upp. Maðurinn sagði: „Hún þarf meira, Andri. Hvað heitir þetta aftur... virk hlustun?“ 

Rödd mannsins titraði eins og slitinn sófagormur sem danglar út í loftið. Þegar hann reis upp rakst hann í borðið svo það hvolfdist úr poppskálinni og brennivínsflöskunni yfir gólfið.

„Við hljótum að geta fundið eitthvert jafnvægi hérna,“ sagði Andri. „Já,“ sagði maðurinn. „Það er enginn að tala við þig,“ sagði Andri reiðilega. „Þú ert að stía okkur í sundur. Farðu.“

„Ég er að reyna að hjálpa ykkur.“ Röddin var há og tær. „Og þú Andri, þakkar mér fyrir með... afbrýðisemi?“ 

„Farðu! Þú ert ekki velkominn hérna!“ hrópaði Ólöf.

Maðurinn stökk upp. Ætlaði á milli þeirra en hrasaði um blautt poppið og datt aftur fyrir sig á sjónvarpið sem brotnaði. Stella í orlofi hélt einhvern veginn áfram þó skjáglerið lægi mulið yfir votum baununum.

Andri leit á Ólöfu. „Héðan í frá kemst ekkert á milli okkar, ókei?“ „Nú þegir þú Andri,“ sagði Ólöf. Þau kysstust. Maðurinn gekk settist hægt í sófann og hvarf inn í leðrið. Gormarnir gáfu frá sér lágvært suð. Stök baun heyrðist poppast.

eXTReMe Tracker