þriðjudagur, 19. ágúst 2025


Hvíti járnsmiðurinn

Gylfi fann stingi í fótunum við að horfa á afa sinn ganga inn í barnaherbergið, og augun urðu þurr eins og eplið sem hann hafði falið undir rúminu þegar amma hans dó. „Þú nemur húsið,“ sagði afinn. Hann lagði höndina á vegginn: „Finndu, hérna tifar hann.“

Gylfa fannst best að sitja á gólfinu inni í herbergi þegar foreldrar hans rifust. Hann fann þrýsting í kviðnum, eins og raddirnar nörtuðu í eitthvað innra með honum. Hann skildi ekki orðin en vissi að þau snertu hann: 

„Jónína, við eigum ekki efni á... 

...Gylfa og þú kaupir samt...

...það eina sem þú...“

Nóttina eftir sjö ára afmælið vaknaði Gylfi við háreysti frammi á gangi, eins og oft áður. En þetta skipti var öðruvísi. Það var enginn herpingur í maganum, heldur hljóð sem var ekki hans eigið. Ekki grátur móðurinnar eða skrjáf í lyfjaspjaldi, heldur lágt hvísl úr veggnum.

Fyrst sá Gylfi ekkert og hljóðið hætti. En síðan heyrðist lágvær en skær titringur. Gylfi sá glæra, mjóa stilka færast upp vegginn, fasta við gegnsæja skel. Útlínurnar hurfu undir flagnaða málningu þegar pabbi Gylfa opnaði dyrnar og faðmaði hann. Munnur pabbans brosti en augun þögðu.

Mamma Gylfa fór í langa vinnuferð og þegar hún kom til baka bökuðu þau þrjú saman pönnukökur. Þegar foreldrarnir fífluðust í eldhúsinu fann Gylfi fyrir hlýjum straumi fara upp beinin og fiðringi í iljum. Sæt og mjúk lyktin af pönnukökunum myndaði þunnan hring sem snerist í loftinu.

En þegar afi hans lést og mánaðamótin skriðu yfir dagatalið hrópaði mamman á pabbann, og skordýrið kom aftur. Í þetta sinn voru angarnir og búkurinn ekki gegnsæ heldur fölur, og minnti helst á hvítan járnsmið. Hann boraði sig undir málninguna yfir rúmi Gylfa. Skildi eftir sig grófa hnoðra á gólfinu, eins og þurr, grá epli. Faðir Gylfa ryksugaði upp hnoðrana.

Gylfi virti járnsmiðinn fyrir sér. Gróf hann göng, eða var hann svangur? Hann setti puttann í gatið og stakk síðan upp í sig. Fyrst fann hann fyrir létti. En síðan kom sama þykka og daufa bragð og þegar móðir hans opnaði lyfjaskápinn, svo hann skyrpti á gólfið.

Járnsmiðurinn leit ekki við eplabitanum sem Gylfi skildi eftir handa honum. Hlustaði ekki þegar Gylfi talaði við hann. Gylfi reyndi að hugsa um sætu og mjúku pönnukökulyktina. Hvernig pabbi hans stríddi mömmunni og svífandi tilfinningunni í liðunum.

En ekkert gerðist og járnsmiðurinn hélt áfram að narta í vegginn. Þegar lætin frammi urðu hærri, vann járnsmiðurinn hraðar. Og þegar pabbi hans skellti hurð, bættist ný löpp við búkinn.

Gylfi þorði ekki að segja foreldrum sínum frá járnsmiðnum af ótta við að gera illt verra. Þau höfðu oft sagt honum að hafa hljótt þegar þau töluðu saman.

Hvað ef veggurinn hryndi yfir hann? Á sama tíma fannst Gylfa gott að vita af járnsmiðnum, eins og þeir hefðu komist að þegjandi samkomulagi. Eins og járnsmiðurinn væri að segja það sem enginn annar gat sagt.

Síðan var það eitt kvöldið að Gylfi heyrði rödd afa síns innan úr sprungunni, með undarlegu bergmáli: „Sjáðu.“

Gylfi leit í gegnum rifuna. Sá báða foreldra sína. Þegar faðirinn gekk alvarlegur um gólfið fann hann herping í maganum. Andvarp móðurinnar gerði rif Gylfa þyngri. Rödd afans sagði: „Minn nærðist á þögninni.“

Dag einn kom járnsmiðurinn úr vegg grunnskólans. Þegar hann horfði á Öldu kennara hrópa á Björn að vera kyrr fann Gylfi fyrir bruna í bringunni eins og Alda hefði þrýst að því logandi kyndli. Og þegar Gylfa var litið á Björn fann hann straum í fótunum og ið í höndum, eins og hann þyrfti sjálfur að hlaupa um matsalinn.

Gylfi sagði ekkert, því Alda kennari virtist eiga nóg með kyndilinn þegar Björn hlustaði ekki. Hann fann hve þreytt hún var. Og Gylfi passaði að vera þægur svo Björn gæti hreyft sig meira án þess að vera skammaður.

Gylfi sagði engum frá því að hann fann til í bakinu þegar Alda skammaði Björn, eða var sársaukinn alfarið þeirra? Kennararnir hrósuðu Gylfa á foreldrafundum fyrir að vera þægur.

Árin liðu og rödd afans í veggnum varð hans eigin. Járnsmiðurinn varð að tilfinningu í andlitum annarra; skjálftanum í hendi Áskels fyrir próf, þögn kærustunnar þegar hann talaði við aðra stelpu. Þegar pabbi hans öskraði af gleði þegar Gylfi skoraði á körfuboltamótum fannst honum maginn í sér sogast inn í langt og mjótt gat.

Seinna fékk Gylfi ráðgjafastöðu hjá stóru lánafyrirtæki. „Númer 26!“ Ungt par gekk inn. Þegar Gylfi dró upp skuldastöðu parsins horfði konan þurrum augum á manninn sinn. Stóllinn varð allt í einu harðari. Kviður Gylfa skrapp saman eins og gamalt epli.

Þegar parið var farið sat eftir rykhnoðri undir borðinu sem Gylfi stakk ósjálfrátt í skúffuna. Pönnukökulykt barst úr veggnum á móti. Hann fann stingi í fótunum þegar afi hans gekk rólega inn í herbergið. Hann dró upp símtólið og bauð parinu annan tíma.

eXTReMe Tracker