Heita vatnið
Sesselja hikaði í smá stund áður en hún rétti Ahmed skál með nýbökuðum kleinum. Langaði að segja honum hvað þetta væri en lét brosið duga. Sesselja gjóaði augum á framandi klæði Fatimu. Á börnin þeirra tvö sem höfðu flúið land án þess að flytja að heiman eins og Atli sonur hennar hafði gert í fyrra.
Sesselja hafði þrifið og þvegið launalaust fyrir komu fjölskyldunnar til landsins og bakað kleinur eftir uppskrift móður sinnar. Vissi þó að hún myndi ekki geta prjónað í viku á eftir vegna gigtarverkja. Það var Sif vinkona sem hafði neytt hana í þetta sjálfboðastarf. Sagðist muna hvernig sér leið þegar dóttir hennar flutti að heiman.
Þegar Fatima þakkaði Allah fyrir húsnæðið fannst Sesselju hún stíga ofan í sjóðheitt kar. Hún spurði sig í augnablik hvort hún væri raunverulega þarna. Fann fyrir stingjunum í höndunum. Nei, hvernig lét hún. Hún var auðvitað ekki þarna fyrir sig sjálfa. Hún var bara þreytt núna. Þreytt á að gefa.
En síðan, eftir nokkurra vikna sjálfboðastarf, breyttist eitthvað innra með Sesselju. Þetta hófst allt þegar hún ætlaði að panta sér pylsu eftir sundferð. Afgreiðslumaðurinn svaraði henni á ensku.
Fyrst hitnaði líkaminn allur og hún fann megna lykt af klór og brennisteini. Síðan fannst henni eitthvað taka yfir munnholið, eins og það væri ekki hennar lengur. Sesselja streittist á móti, en tilfinningin líktist drukknun í hennar eigin líkama.
Hún leit stjörf á pylsusalann. Í stað þess að segja: „Eina með öllu,“ þrumaði hún: „Þetta fólk er ekkert komið hingað til að vinna, heldur fara á bætur.“
Sesselja greip fyrir andlitið með skelfingarsvip. Hún heyrði hljóð sem minnti á rennandi vatn og fannst eins og líkaminn væri allur blautur og heitur. Sem betur fer skildi maðurinn hana ekki, né hvers vegna hún hljóp í burtu svo sundtaskan varð eftir.
Hún skellti aftur bílhurðinni og leit í baksýnisspegilinn. Hver var þetta? Sesselja sá móður sína fyrir sér kreista hönd hennar þegar þau gengu hjá erlendum verkamönnum á byggingarsvæði.
Hvernig móðirin hafði beðið hana að þvo sér um hendur eftir að hafa leikið við Alvarez í næstu götu. „Geturðu ekki leikið við Hallgerði frekar? Hún kann að spila á píanó eins og þú. Bróðir þinn er til í að skutla þér til hennar.“ Móðir hennar, fíkniráðgjafinn sem flúði sjálf til Kanaríeyja yfir vetrartímann.
Sesselja herpti varirnar og reyndi að segja: „Ég er ein af góða fólkinu,“ en í staðinn kom: „Þessir helvítis hælisleitendur fá allt upp í hendurnar.“ Hún hrópaði upp fyrir sig með tárin í augunum og tók leigubíl heim.
Sesselja vandist þessu ekki, en hún hætti smám saman að grípa fyrir munninn þegar hún var ein. Hún uppgötvaði sér til undrunar að hluti af henni fann sannleikskorn í hvössustu ummælum. Þetta bæði kitlaði hana og fyllti reiði og skömm.
Þegar raddirnar tóku yfir fannst Sesselju nasirnar fyllast af móðu og líkami hennar hvíla á einhverju hörðu. Hún fann hitann renna inn í holdið: „Er þessi sem lögreglan lýsir eftir útlendingur?“
Stundum var þessi tilfinning... góð. Var hún að missa vitið eða að öðlast nýjan skilning á sjálfri sér?
Atli sonur hennar neyddi hana til Korpúlfs læknis. Hann hafði hikað við að kynna móður sína fyrir erlendri kærustu sinni, Aminu. Korpúlfur sendi hana í rannsóknir sem komu eðlilega út. Hann skrifaði svo upp á kvíðalyf sem hún tók aldrei.
Þegar Sesselja mætti Viðari nágranna sagði hann henni að starfsfólkið hafi skyndilega lokað heita pottinum í sundlauginni:
Þegar hún mætti Viðari nágranna sagði hann henni að starfsfólkið hafi skyndilega lokað heita pottinum í sundlauginni: „Það er eitthvað að hitastillinum, potturinn var sjóðheitur.“ Hún vissi að Viðar færi daglega í heita pottinn. Bjóst við að röddin tæki yfir en náði að svara Viðari að sér þætti það leitt.
Ekki bar á neinu þrjá daga, en þá ætlaði hún að hrósa erlendum afgreiðslumanni í Nettó fyrir góða íslensku. Annað kom úr munni hennar: „Þetta fólk hefur verið hér í tíu ár og kann ekki stakt orð í íslensku!“
Sesselju fannst hún fljóta. Sá fyrir sér hveiti, sykur, egg og lyftiduft veltast yfir funheitri pönnu og fann aftur fyrir gigtinni smjúga inn í fingurna eins og bráðið smjör. Hún hljóp heim, á flótta í sínu eigin hverfi. Á flótta frá sínum eigin hugsunum.
Hún óð fram hjá Viðari nágranna í sameigninni sem mælti: „Jæja, potturinn fór í gang. Þessi Lithái kunni ekkert á þetta.“
Hún lokaði dyrunum. Potturinn? Gat það verið? Hitakófið, vatnshljóðin, lyktin. Það passaði við lokunartímann. Hún hafði oft farið í heita pott Dalvallalaugar. Fór með móður sinni í hann í gamla daga og hlustaði á fullorðna fólkið tala um „útlendingavandann“. Hafði ekki erlent barn drukknað í þessum potti þegar móðir hennar var lítil?
En var heiti potturinn uppsprettan, eða dró hitinn aðeins upp á yfirborðið eitthvað sem hún hafði sjálf reynt að halda niðri? Var potturinn þægilegur blóraböggull; bjó hún sjálf yfir fordómum innsti inni sem þægilegt hafði verið að varpa yfir á móðurina og óheflað fólk í sundfötum?
Var móðir hennar vond? Manneskja sem hafði helgað líf sitt til hjálpar fólki með fíknisjúkdóm. Af hverju gaf lífið aldrei einföld svör?
Atli reyndi allt. Rökræddi við móður sína um málefni innflytjenda. Gaf henni símanúmer dægurmálaþáttar til að viðra skoðanir sínar. En áfram hélt hún. Hvernig yrði að kynna hana fyrir Aminu? Það voru farnar að renna tvær grímur á Aminu við dularfulla biðina: „Is your mother afraid of me?“
Atli gafst upp og laug að Aminu að þetta væri byrjandi heilabilun. Amina horfði á eldrauð eyrun. Var það lygi ef Atli trúði því sjálfur? Hann skvetti köldu vatni framan í sig. Tíminn var kominn. Þau urðu að komast yfir þetta.
En Sesselja sagði ekkert allt kvöldið. Hafði komist að því að hennar þögn hélt líka röddinni niðri. Hún benti á maga Aminu og lék eftir þungun. Atli horfði undrandi á móður sína. Af hverju talaði hún ekkert?
Amina brosti og rétti Sesselju kalt vatnsglas. Hún sagði: „Faðir mín, líka bilað heilann. Alzheimer.“
Sesselja fór í kleinu og rauf þagnarbindindið: „Burt með hendurnar! Þetta er hreint, íslenskt vatn!“ Amina horfði óttaslegin á Atla, sem gaf móður sinni illt auga. Sesselju fannst Amina allt í einu vera komin í sundbol og pírði augun á hana. Þannig gekk þetta í hringi eins og í hreinræktaðri íslenskri fjölskyldu.
Sesselja barðist við þörfina fyrir að tala um kostnað við heilbrigðisþjónustu hælisleitenda með því að bryðja ísmolana. Vildu ekki langflestir frið? Hafði hún ekki séð kærleikann með berum augum í starfi sínu? En undir niðri flæddi enn sama hveravatnið út í falinn, botnlausan pott.
Þegar þau voru komin út játaði Atli að móðir sín hefði ekki greinst með heilabilun, en breytingin á henni væri engu að síður bæði snögg og undarleg. Hann nefndi ekki samviskubitið yfir að hafa flutt að heiman. En hann var vissulega orðinn 25 ára. Amina horfði á bíl spóla í burtu hinum megin við götuna. Grár útblásturinn liðaðist á milli þeirra.
„I really want this to work out, Atli. But... I just need peace in my life now.“ Atla sveið þegar hún kvaddi. Þurfti hann í alvöru að velja á milli þeirra?
Eftir að parið gekk út rauk Sesselja inn á klósett, og baðaðist köldu vatni þar til hún skalf þver og endilöng. Daginn eftir bárust fréttir um að heitur pottur í Dalvallalaug hefði allt í einu byrjað að sjóða. „Það væri hægt að steikja kleinur í þessum hita!“ grínaðist fréttamaðurinn. Biluðum hitastilli var kennt um.
Sesselja leit út um gluggann, endurkast hennar á rúðunni var teygt og tvístrað. Höfðu þessar raddir alltaf tilheyrt henni á einhvern bældan, afskræmdan hátt? Var sundlaugin enn opin?
Sesselja skannaði sundmiðann. Fór dáleidd í gegnum búningsklefann. Fann hjartað slá í 37°C potti úr kjöti og beinum. Heyrði ylhýrt málið, vögguvísurnar, þjóðsögurnar, nöfn fjallanna. Sá fyrir sér fátækt fólk ganga yfir fornt landslag í gegnum hríð aldanna. Fyrir hvað? Fyrir hvern?
Hún fann gleðina og stoltið yfir að tilheyra þessari menningu. Sá svo risastóra ylvolga kleinu molna undir dökkum, traðkandi verum með framandi augnaráð. Síðan settist einn baðgestur á eftir öðrum í brennandi sæti með eldrauð augu og spúði gufustrókum yfir landið.
Sesselja hafði séð margt. Sumt fólk var svo ólíkt henni. Hún hafði spurt sig hvort það væri frelsi að hylja líkama sinn? Að karlmaður þyrfti að vera viðstaddur þegar kona fer til læknis? Hafði hún verið hrædd við að týna sjálfri sér? Mynd af móður hennar brá fyrir, marandi í 42°C potti með munninn upp úr: „Þetta fólk hugsar ekki eins og við, Sesselja.“
Hún stóð upp. Droparnir féllu af vörmum kroppnum. Hún gat ekki stjórnað hvað annað fólk lét út úr sér í sundi. En hún gat síað sínar eigin hugsanir. Átt rödd sem gat bæði sungið íslensk þjóðkvæði og boðið fólk velkomið. Þetta þurftu ekki að vera andstæður.
Amina sagði Atla að lífið hefði kennt henni að útiloka ekki fólk eftir fyrstu kynni. Faðir hennar hefði sjálfur sagt ýmislegt í sínum veikindum.
Næsta morgun sátu Atli og Amina við eldhúsborðið. Sesselja settist niður með þeim: „Ég vil að þú segir henni að mér þykir leiðinlegt hvernig ég var um daginn.“ Atli leit á hana með óvæntri aðdáun.
„Ég ætla að kenna henni íslenska vögguvísu fyrir barnabörnin.“
Gleðisvipur Atla snerist í skeifu: „Mamma! Hvað er að þér? Við vorum að kynnast!“
„Mér er alveg sama,“ sagði Sesselja. Ég var búin að hitta pabba þinn tvisvar þegar ég varð ólétt af þér. Svo veit enginn hvað ég verð lengi hér.“
Sesselja byrjaði að syngja: „Bíum bíum bambaló...“ Hún fann lykt af klór og brennisteini. Líkaminn þrýstist upp að hörðu plastinu. Heyrði einhvern setjast í pottinn: „Það ætti bara að senda þetta lið heim í næstu vél!“
Sesselja hækkaði róminn. Söng um vin sem hún vaggaði í ró yfir hlýrri gufu: „Þetta fólk...“ Hún horfði á Atla og Aminu sem brostu bæði. Móðir Sesselju maraði í soðnu vatninu með froskalappir á bakkanum.
„En úti bíður andlit á glugga."
Róandi söngurinn, stoltur en hlýr, var hennar val. Söngur sem var ekki endanleg lausn, en upphafið að einhverju nýju.
Sesselja teygði sig í handklæðið. Klórinn sveið í augun. Hún reyndi að heyra ekki hæðnisraddirnar sem héldu áfram að bubbla í fjarlægum potti.
„Borðar Amina kleinur?“