Hurðin
Sigurður nam hvellt, málmkennt hljóð fyrir aftan sig. Síðan hæglátt marr. Unga konan á næsta borði glotti og maðurinn hennar rak upp stór augu. Þegar viðarvörnin fyllti vit Sigurðar eins og þykk gríma vissi hann að það væri of seint að snúa við.
Sigurður vissi frá fyrstu kynnum að Eik væri sérstök. Hver setur mynd af gömlum dyrum á stefnumótasíðu? Hann færði sig nær skjánum. Sýndist einhver standa í dyragættinni, eða var þetta endurkast hans sjálfs af glerinu?
Skipti ekki máli þegar kvöld Sigurðar voru dimmir gangar sem leiddu ekkert lengur. Það var ekki eins og Rósa hefði læst hann inni. Sigurður gerði það sjálfur með því að segja ekkert þegar hún skipti heimilisviðnum smám saman út fyrir gler. Hurðar, borð, skápar. Fíngert og viðkvæmt eins og hún sjálf. Viðurinn hafði þó sál.
„Sextugur, fráskilinn starfsmaður í Húsasmiðjunni leitar að einhverju endingargóðu.“ Mynd sem Kalli á lagernum tók á starfsmannagrillinu í hittifyrra. Ekkert eins og gráu iðnaðarfolarnir á innskráningarsíðunni. Hver myndi svara þessu?
Þegar Sigurður náði í skrúfur og bolta fannst honum eitthvað molna innra með sér. Fann bank í brjóstinu þegar viðskiptavinir spurðu um hjarir og pumpur. Svaraði með frosinni bendingu. Þóttist telja eitthvað í hillunni.
Sigurður ekki fundið fyrir neinu undanfarið. Myndin af þeim Rósu í skápnum vakti hvorki söknuð né reiði. Fann vart fyrir bílskúrshurðinni klemma stóru tána. Ekki fyrr en hann sá sig speglast í glerinu.
Sigurður mætti löngu á undan Eik. Angan af grilluðum kjúklingaspjótum og sjávarfangi hékk yfir salnum. Kliður hnífapara, eins og sögin inni á verkstæði að kljúfa síðustu spýturnar í tvennt.
Þegar Sigurður leit við sá hann um stund ekki konuna sem stóð þar heldur hurðina af stefnumótasíðunni. Hún minnti á gömlu hurðina í sveitakirkjunni sem hafði staðið af sér veður aldanna.
Þó hurðin væri nýlökkuð mundi hann eftir sprungunum. Sprungur sem hann gat ekki sýnt. Þessar stuttu, þveru voru aðgerðirnar sem Elvar litli gekkst undir. Þessi ljóta við handfangið þegar Rósa brotnaði niður. Allt í einu var hann ekki viss um hvort hann hefði lokast inni eða úti.
„Sigurður?“ Röddinni fylgdi dauft ískur. Eins og hún vissi að það væru ryðblettir á handfanginu. För á viðnum. En hurðin hékk uppi, þó kanturinn hefði skekkst.
Þessi hreinskilni. Eik bar söguna eins og heiðursmerki. Sigurður átti að vita hvað Rósa hugsaði. Sjá í gegnum hana eins og hreint gler, eins og hún þóttist sjá í gegnum hann. Glerhurðir voru flottar en þær voru ekki gerðar fyrir veðurfarið í lífi þeirra.
Sigurður lyfti brúnum. „Var þetta norskur harðviður á myndinni þinni?“ Eik leit rannsakandi á hann. „Ég veit ekki hvaðan dyrnar komu.“ Hún leit á salatið. „En ég veit hvað það er að halda þeim opnum. Fyrir sjálfri mér.“
„Læsti einhver þig inni?“ spurði Sigurður. „Nei, ég lokaði þeim sjálf. Missti trú á að einhver gæti geymt lykilinn með mér, án þess að týna honum.“ Kertaljósið dró fram rauðgyllta undirtóna í ljósbrúnu hári hennar. „En ég er komin í viðgerð.“
Eik fálmaði eftir vatni en rakst í ólífuolíuna sem helltist yfir hönd hennar. Hún stirðnaði öll upp á meðan húðin drakk olíuna í sig eins og skrælnaður rekadrumbur. Hún hló svo og fór að tala um skóginn við heimabæinn sinn.
Sigurður fylgdi Eik heim. Nóttin lagði ósýnilega lykla á glampandi ræsin. Litla glæra poka með hjörum og skrúfum sem hreyfðu um stund við heiminum. Þau héldust í hendur.
En við dyrnar heima hjá henni var eins skrúfurnar sneru vitlaust. Sigurður tók í handfangið. Brá hvað það var kalt. Minnti á janúarkvöldið sem Rósa keyrði burt. Skuggi hans á glerinu. Hann sleppti.
„Fyrirgefðu,“ sagði hann og leit afsakandi á Eik. „Mér líður eins og flagnandi gúmmílista. Þessum sem tolla ekki lengur á samskeytunum.“
Þögn. Sigurður fann þungt bank. Orð hans bergmáluðu í löngu, dökku rými sem hann þekkti of vel. Honum fannst trekkurinn opna eitthvað innra með sér. Sigurður sá sjálfan sig ganga út í ilmandi skóg. Hávær sög rauf kyrrðina.
Hann leit á Eik. Hún sagði: „Þetta er allt í lagi. Ég skemmti mér vel. Mér sýndist þú gera það líka.“
Hljóðið þegar Eik hallaði aftur fylgdi honum heim eins og greinar að slást í vindi. Greinar sem teygðu sig lengra en nokkrar dyr.
Hann hraðaði sér. Fannst fólk benda og hvísla. Hljóp upp stigaganginn. Lykillinn ætlaði aldrei að rata í skrána.
Sigurður hafði gleymt að læsa. Var viss um að eitthvað væri horfið en hann fann ekki hvað. Hafði Rósa ekki tekið allt? Förin eftir glerskápinn voru á sínum stað. En stofan var léttari. Litirnir aðrir. Skærari.
Þegar Sigurður settist við eldhúsborðið fann hann sting í baugfingrinum. Hljóðaði, ekki af sársauka heldur undrun. Ljósbrún rák undir holdinu.
Sigurður þrýsti fingri á hana. Jú, alvöru flís. Sviðinn var sár og ljúfur. Líka þessi í augunum, eins og örfínn salli hefði ratað í augnkrókana. En Sigurður heyrði ekki í söginni.
Um nóttina dreymdi hann þykka móðu streyma inn í Blómaval. Garðdvergar og grá Búddahöfuð kölluðu eitthvað reiðilega á milli sín. Dvergarnir reyndu að halda hillunum uppi á meðan þung höfuðin mynduðu stækkandi sprungur í þær.
Þegar Sigurður mætti í vinnuna daginn eftir spurði hann Kalla hvort hann gæti tekið nýja mynd af sér. „Hvað, minn bara búinn að greiða sér?“ glotti Kalli.
Ungur maður skimaði í kringum sig. Sigurður steig yfir þröskuld lagersins. „Ég er að leita að hurð sem þolir allt.“
Sigurður leit djúpt í augu drengsins. Sá sjálfan sig í votu yfirborði þeirra. Fingurinn stakk aftur. „Þessi endist þér út ævina... ef þú manst að bera á hana.“