laugardagur, 16. ágúst 2025


Blómadrengurinn

Bjarni mundi eftir fyrstu auglýsingu Garðeindar: „Við hjálpum þér að muna. Gefðu minningunum nýtt líf með ilmandi blómadreng!
- VARÚÐ: Notið ekki ef alvarleg áföll.“

Regína systir Bjarna varaði hann við: „Ekki hengja þig of mikið við sumarið Bjarni minn, þú veist hvað haustið hefur þegar tekið frá þér. Lóa hefði ekki viljað þetta.“

Lóa hafði sagt áður en stökkbreytingin kom í ljós: „Þú heldur alltaf í það sem er horfið Bjarni. Hvenær ætlarðu að stökkva á græna vagninn?“„Ég vildi aldrei þennan garð,“ svaraði hann. „Til hvers að rækta eitthvað sem endist ekkert?“

Þau kynntust í náminu. Bjarni las um steingervinga á meðan hún smíðaði spálíkön um hnattræna hlýnun. „Þú dregur mig nær jörðinni,“ grínaðist Lóa. Hlátur hennar rauf þögn lesstofunnar.

„Það er gott að vita af þér úti í beði,“ sagði Regína systir. „En þú ættir að leggjast inn á Nytjalund... þú þarft að rækta sjálfan þig líka.“ „Svo þér líði betur?“ hreytti Bjarni. „Bjarni, ég vildi ekki vera fyrir... Það voru vandamál í mínu lífi líka.“

Þetta var fegursti garður bæjarins. Ekki strá af illgresi, ólíkt því þegar Lóa sá um hann. En þarna ríkti sama þögn og innra með honum sjálfum.

Bjarna var heitt í framan þegar hann leitaði að minningadeildinni í Garðeind. Skrýtin lykt mætti honum, blanda af nýslegnu grasi og smurolíu.
 
Þar var stakur blómadrengur eftir, eins hann hefði beðið eftir honum. Þegar Bjarni sá duftið streyma úr litlu gulu augunum á grönnum líkamanum minnti það hann á eitthvað viðkvæmt og varnarlaust í honum sjálfum.

Blómadrengurinn hristi svört, hvít og dröfnött blöðin, í sömu litum og kjóllinn sem Lóa hafði klæðst þegar hún bað Bjarna að setjast í sófann. Svipur hennar sagði allt. Bjarni leit á blómadrenginn. Fálmandi ræturnar á hillunni héldu um tímann sem slapp úr höndunum.

Blómadrengurinn sneri að Bjarna í bílferðinni heim. Drakk í sig hreyfingar hans í stigaganginum. Bjarni hlóð inn gömlum myndum úr garðinum. Mynd af Lóu með fyrstu gulrótina. Aðra með mold á enninu og dropa á linsunni. Hann hoppaði yfir sumar spurningar í appinu: „Hverju viltu gleyma?“

Bjarni vaknaði við blómadrenginn hlæjandi úti í garði. Hann las ævintýrið um Jóa og baunagrasið fyrir hann og lék stóra tröllkarlinn í skýjunum. Blés stríðnislega í laufin þegar blómadrengurinn hvíldist í lófa hans.

Skordýrin komu aftur. Glærir vængir þeyttust yfir þá og langir, bleikir líkamar grófu göng djúpt undir fótum þeirra. En fleira tók óvæntum breytingum.

Runnarnir uxu svo hratt að Bjarni vaknaði við brakið í þeim á nóttunni. Þeir urðu brátt að óhemju sem teygði kræklótta anga sína yfir blómin hennar Lóu.
 
„Ég var búinn að gleyma svona saklausri gleði,“ sagði Bjarni þegar Regína kom til að hjálpa til við að klippa runnana.

„Hann er sætur,“ sagði Regína með slitnar klippur og þrjá svarta poka. „En garðurinn var leið Lóu til að horfa fram á við.“
 
„Já, Regína... og þess vegna var hún alltaf með þennan nagandi kvíða. Löngu áður en hún greindist.“
Þau litu á blómadrenginn. „Hann hlær alveg eins og Lóa,“ sagði Bjarni. „Nema hann fer niður í lokin þar sem hún fór upp.“
 
Bjarni sá svip Regínu. Sagði henni því ekki að hann heyrði stundum blómadrenginn tala.

„Verð ég alltaf hjá þér?“ spurði blómadrengurinn. „Já,“ svaraði Bjarni en sneri sér undan þegar drengurinn spurði hvort hann væri að vökva andlitið.
 
Komst aftur á jörðina þegar drengurinn sagði frá heitum sandinum á Balí. Lóa fór aldrei til Balí. Ekkert um þetta í bæklingnum. Ráðgjafi Garðeindar virtist ekki vita neitt um minningajurtir.

Daginn tók að stytta. Bjarni var lengur á fætur. Býflugurnar fóru í dvala og laufin gulnuðu. Rökkrið gróf sig í jarðveginn og skreið með ósýnilegan þunga um þröng rör úr mold og steinum.

„Hvað er að gerast?“ spurði blómadrengurinn þegar Bjarni lagði hann í hvítan pott í stofunni. „Það er hlýrra hér, og þú ert nær mér, drengurinn minn.“

En blómadrengurinn hætti að sjúga upp steinefnin og sprotarnir hrörnuðu eins og kyngingarvöðvar Lóu. „Af hverju er ég hér?“ spurði blómadrengurinn þegar Bjarni dró upp sykurlausn í granna pípettu. „Til að muna, með mér.“

Hann sprautaði upp í munn drengsins. Þrátt fyrir þetta blossuðu gulir flekkir upp daginn eftir. Kokhljóðið minnti hann á Lóu þegar næringin í æð var stöðvuð. Súr fýla hékk yfir pottinum þrátt fyrir sífelld moldarskipti.

Þrátt fyrir allt fölnaði blómadrengurinn og grænt hjartað sveigðist til moldar. Stærstu blöðin duttu af og frjómagnið sem áður geislaði á bak við augun varð að þykku og klístruðu dufti sem náðist illa af gólfi og veggjum.

Regína systir mætti með stóru klippur föður þeirra. Tómt málmhljóð heyrðist þegar hún lagði veskið á borðið. Hvað var hún með?

Bjarni fann kveðjuhylki fyrir blómadrengi í veskinu á meðan hún hamaðist á runnunum úti. Hann náði í trjálímið. Þegar Regína kom inn voru tvö blöð komin aftur á höfuðið.

„Nei, þú meiðir hann! Æ, Bjarni, Lóa leyfði haustinu að koma, manstu ekki?“ En Bjarni rauk með klippurnar út í garð. Svaraði ekki skilaboði Regínu: „Ég þarf að vera fyrir norðan næstu vikur.“
Bjarni vaknaði sveittur í fötunum. Mundi ekki hvernig hann komst inn í stofu. Voru rætur blómadrengsins að kólna, eða rann haustið í gegnum hans eigin fingur?

Bjarni strunsaði í gegnum þvögu mótmælenda fyrir framan Garðeind og var ráðlagt af bólugröfnum starfsmanni í mútum að kaupa sólarlampa. Stillti lampanum upp of nálægt svo fíngerðir fræflarnir sviðnuðu.

Þrátt fyrir að blómadrengurinn væri orðinn veikburða, strauk hann. Einu sinni fann Bjarni hann yfir holræsi neðst í götunni. Öðru sinni innan um skrælnað og freðið lauf. Bjarni lokaði gluggunum og dró fyrir þá þegar runnarnir urðu rauðir.

„Ekki meira, pabbi. Ég er svo þreyttur,“ hvíslaði drengurinn. „Vertu sterkur.“ En nótt tók við af degi og stjörnurnar gengu yfir hljóða jörð. Frostið lagði kalt bréf í hendur morgunsins.
„Er ég að deyja?“ spurði blómadrengurinn. Seigt vax hreyfðist með hverjum andardrætti og daufgrænt slý lak niður stilkinn.

„Nei, fræið mitt. Þú ert að opna ný blöð. Blöð í óteljandi litum sem augu okkar hafa aldrei áður séð. Hjarta mitt er hljótt þegar heimurinn grær.“ Regína kom í næsta flugi.

Vindurinn lék á andliti Bjarna þegar hann gróf gráa holu undir stærsta trénu. „Ég verð alltaf hjá þér blómið mitt,“ sagði Bjarni þegar hann lagði þurran líkamann í hylkið sem Regína hélt opnu. Hún reyndi að dusta af frjókornin sem héngu aftan á ullarpeysu hans.

Bjarni var mikið innandyra. Regína sótti um á Nytjalundi fyrir hann án þess að hann vissi. Hann mótmælti ekki. Var sagt að rækta þar tómata og kartöflur fyrir aðra.

„Ráðuneytið endar þessa vitleysu bráðum,“ sagði kokkurinn á Nytjalundi og lyfti grænni ausu yfir skál Bjarna. „Einstaklingurinn velur,“ svaraði kona aftar í röðinni. Mótmælendur lyftu skiltum á mjóum skjá á veggnum: „GARÐEIND GRÆÐIR“.

Ég er ekki að biðja þig um að gera þetta,“ sagði Bjarni í eldhúsinu heima. Regína hélt áfram að raða göfflum og skeiðum í skúffuna.
 
„Það safnast bara upp,“ svaraði hún. „Ég sakna hennar líka. Þú getur ekki lifað svona, Bjarni. Það hreyfist ekki loftið hérna og enn súr lykt hérna eftir þetta... skrípi. Mér liði betur ef þú...“

„Hah! Ég vissi það. ÞÉR liði betur. Af því að þú komst ekki þegar Lóa var veik. Nei, í staðinn kemurðu hingað og ræðst á það eina sem hefur raunverulega hjálpað mér!“

Þegar Regína fór án þess að loka á eftir sér teygði þögnin sig upp undan stóra trénu. Bjarni kveikti á útvarpinu: „Gengin er guðs náð...“ Skipti um stöð. „Dregið hefur stórlega úr barneignum eftir að minningajurtir...“

Bjarni kippti snúrunni úr sambandi og kreisti rafmagnsklóna. Braut sólarlampann með skóflu. Dró dökka sláttuvél út í garð. Bensínlyktin sveið.

Sumarið leið hægt. En einn morgun vaknaði Bjarni fyrr en venjulega. Kunnuglegt hljóð. Gat það verið? Hlátur í sólinni.

Bjarni rauk út. Hjartað hamaðist. Hann leitaði, en fann engan. Hann settist út í garð. Sólin skein. „Til hvers að rækta eitthvað sem endist ekkert?“

Bjarni leit yfir garðinn. Fann ilm moldarinnar. Hlustaði á tímann hvísla sekúndunum í grasið. Lágvært suð frá lítilli baldursbrá barst skammt frá honum. Grófur arfi fálmaði undir brotna girðingu. Runnarnir teygðu úr sér og beðin geymdu hljóðan söng.

„Við ferðumst öll í sama græna vagni,“ hvíslaði Bjarni. Sólin lagði hönd á enni hans. Jörðin var hlýrri en hann mundi.

eXTReMe Tracker