Umbreytingin
Högni opnaði bílinn. Leiðin frá þjónustuverinu til heimkeyrslunnar var eini tíminn sem hann heyrði í sjálfum sér. Mínúturnar eftir endalausar kvartanir um biluð raftæki, og áður en hann gat ekki sest niður heima hjá sér, jafnvel þegar allt var í lagi. Nýlega hafði hann setið í auknum mæli á bak við stýrið og hlustað á þögnina eftir þungan skell hurðarinnar. Þögn þar sem enginn bað hann um neitt. Tilfinningin líktist því að hverfa inn í ósýnileg göng.
Áður hafði Högni fundið frið úti í náttúrunni, en ökklameiðslin komu nú í veg fyrir það. Hann hafði reynt en haltraði í marga daga á eftir. Kristján þurfti líka á föður sínum að halda, og Elísa hafði aldrei lært almennilega á hóstavélina. Hún var orðin of máttfarin í höndunum. Hvenær hafði allt farið að síga niður á við? Hann fann hitann á enninu þegar hann hugsaði hve litla þolinmæði hann hafði fyrir kvörtunum Elísu yfir hóstavélinni. Hver myndi ekki kvarta? Af hverju þoldi hann þetta ekki betur?
Högni lokaði augunum, einn á bílastæði lokaða þjónustuversins. Elísa átti nóg með sig. Samt sagði hún kvöldið áður að hann svæfi gagnvart sjálfum sér. Hvað þýddi það? Þetta var enginn svefn, heldur aðstæður sem héldu honum föstum. Elísa virtist þó oft vita betur hvernig honum leið en hann sjálfur. Kannski hafði það dregið hann að henni? Verst að hann gæti ekki sjálfur veitt Kristjáni það sama eftir nokkur ár, þegar...
Högni dró andann djúpt. Eftir smá stund sukku fæturnir niður í gúmmímottuna undir framsætinu. Fæturnir hjálpuðu honum að komast út úr höfðinu á sér, jafnvel þó hann fyndi meira fyrir ökklanum. Högni slakaði á baki og herðum. Fannst hann svífa. Þegar landslag opnaðist undir honum var hann ekki viss hvort hann hefði dottað á bak við stýrið eða væri að vakna inn í sjálfan sig.
Óstöðugt grjótið reyndi á ökklann. Trosnuð liðböndin. Fyrst mætti hann bláum barnagítar. Hann hafði átt hann sjálfur, og ætlunin var alltaf að kenna Kristjáni meira en nokkur grip. Um leið óttaðist hann að klunnalegar hendur Kristjáns myndu skemma gítarinn. Þó lakkið væri sprungið mundu fingurgómarnir kalda áferð núandi strengjanna. Högni renndi yfir þá, en höndin var of stór. Hljómurinn þyrlaði upp fínu ryki af skærum hlátri og nærveru. Hann brosti, en fann svo að hláturinn tilheyrði öðrum en honum sjálfum.
Högni kom auga á tvo dulda strengi. Annar var þykkur og dökkur og titraði hljóðlaus undir grárri slykju, á meðan hinn hertist í stífað, örfínt ljós. Hann snerti þann dökka. Ekkert gerðist, en strengurinn bylgjaðist eins og snúran á hóstavélinni hennar Elísu. Strengurinn náði ekki alla leið og annar endinn hékk í lausu lofti. Ljósi strengurinn minnti á geislann undir lokuðum herbergisdyrum Kristjáns. Óáþreifanlegt bil á milli tveggja lokaðra veralda. Hann hafði staðið við dyr Kristjáns, stundum bankað, stundum ekki.
Armur Högna herptist og öndunin grynnkaði. Hann reyndi að neyða strengina á sinn stað. En hönd hans hreyfðist ekki, heldur einhvers í fjallinu. Vöðvarnir slöknuðu einn af öðrum og þörfin fyrir að laga strengina varð sjálf að nýjum og ósýnilegum streng sem rann eins og lækur í gegnum fingur hans.
Högni gekk að þeim sem stóð á fjallinu. Þetta var stór jötunn sem horfði yfir landið. Jötunninn virtist annaðhvort ekki taka eftir Högna eða sjá hann sem hluta af landslaginu. Jötunninn reis til hálfs upp úr basalthlíðinni en hinn helmingurinn dró sjálfan sig upp úr daufu kalki. Basaltið hlekkjaði hann við jörðina en kalkið var að leysast upp. Högni hlustaði. Lágvær en stöðug upplausn yfir þungri jörð. Vaxandi krampi í ökklanum vildi toga hann í burtu, en hugurinn var þegar haldinn áfram.
Hann virti jötuninn fyrir sér. Þeir höfðu áður mæst í draumum sem hann hrökk sveittur upp af við annað hóstakast hjá Elísu. En nú var ekki sama myrkur til staðar sem elti hann í gegnum draumana, heldur mun hlutlausari og bjargföst nærvera. Önnur hönd jötunsins læstist um steintöflur, hin var hvít og gegnsæ og sveigðist í gegnum harða skriftina.
Þegar Högni gekk nær lyfti jötunninn hendinni með steintöflunum. Fyrir aftan jötuninn risu bleikir fálmarar sem námu agnir í loftinu og hreyfðu við óþægilegri himnu í grjótinu. Fínn titringur hennar kreisti eitthvað djúpt í Högna sjálfum. Skerandi ýl fylgdi lengi á eftir.
Strengir bláa gítarsins tóku við þegar ýlið þagnaði. Litlar agnir losnuðu af strengjunum, sem bleiku fálmararnir gripu með æsingi. Hvíta himnan nötraði með málmkenndu ískri. Jötunninn fylltist skelfingu, henti steintöflunum beint í ökkla Högna, sneri sér öskrandi við og hjó stórt gat á fjallið með hnefunum svo kalkið spýttist af honum í allar áttir.
Gatið opnaði göng. Högni hélt haltrandi inn. Hljóð í hringjandi símum og hurð að lokast. Þykk spenna læddist upp við veggina. Hann heyrði sína eigin rödd svara: „Ég skil vel að þetta sé pirrandi. Já... Batteríin eiga að endast lengur en í tvo daga. Já, við sendum þér ný - já, já, já, já...“ Ökklinn herptist eins og hann reyndi að renna saman við basaltið undir sér. Kalkagnir svifu inn í augu og munn.
Högni fann enn sterkari vilja til að snúa til við, eins og undan þyngd sem leggst hægt og rólega yfir bringuna. Nei. Áfram. Þetta var svæði sem hann hafði fundið en aldrei snert. Hálfrödduð viðvörun heyrðist. Hljómaði eins og strangur kennari að skamma einhvern. Að baki ómuðu strengirnir af mjúkum trega.
Göngin enduðu. Fyrir framan hann skautuðu andstæðir pólar í eilífa hringi. Sumir pólar báru nöfn en aðrir hrökkluðust undan augum: Einn geymdi stakt lítið ljós, sá næsti geymdi skugga fólks. Annar teiknaði upp fjallið sem hann gat ekki lengur gleymt sér á, sá næsti splundraði því með rauðum og rjúkandi hnefa.
Högni horfði á gangverkið snúast í hringi. Ökklinn strekktist upp eins og strengur. Blái barnagítarinn herti taktinn. Honum fannst líkaminn sjálfur snúast, eða togast í ólíkar áttir. Þetta varð að hætta.
Högni lyfti höndum. Strengirnir þögnuðu inn í sjálfa sig. Jötunninn rétti úr bakinu með skrykkjóttum smellum. Bleiku fálmararnir á bak við hann lögðust máttlausir ofan á bergið og spúðu svartri froðu yfir rifna himnuna. Hósti og vélrænt suð í fjarska mættu ferskum keim af mosa og möl.
Högni leit á ökklann. Steintaflan sem jötunninn hafði kastað lá þétt upp við hann. Á henni stóð einfaldlega: „Leyfðu“. Pólarnir numu staðar, og þrátt fyrir að sameinast ekki, varð til ein og marglaga rödd yfir blágrænni heiði. Ökklinn slaknaði. Óviðbúin þögn fylgdi, eins og hann missti skyndilega jafnvægið. Þögnin rofnaði aðeins til hálfs af hans eigin hjartslætti. Högni leit við. Jötunninn og fjallið mynduðu saman stóran hljómbotn undir strengina. En nú hljómuðu allir í einu, og tónlistin endurómaði úr áður óþekkri dýpt.
Tíminn hafði liðið á undarlegan hátt. Högni opnaði augun, og sá aftur stýrið fyrir framan sig á bílastæði þjónustuversins. Hafði hann sofnað? Það var slökkt á útvarpinu en samt heyrði hann tónlist sem var bæði friðsæl og þung. Hann leit á símann. Elísa hafði hringt tvisvar. Kristján.
Á leiðinni heim fannst Högna einhver standa uppi á fjallinu og horfa yfir landslagið. Heima spurði Elísa hvernig honum liði: „Ég veit það ekki, en það er alls konar.“ Þegar Elísa fór að kvarta yfir hóstavélinni sagði Högni ekkert heldur lagði hönd sína yfir hennar. Hljóð í dyrum að opnast. Hann horfði á staka kalkögn hverfa hægt og rólega í þunnan ljósgeisla frá herbergi Kristjáns.