Snúningsmaðurinn
Úlfar þekkti brakið í liðunum, marrið í vöðvunum: Snúningsmaðurinn. Hann leit ekki við og hélt áfram að teikna, reyndi að heyra ekki hljóðið í beinunum.
Pabbi hans vissi ekki af snúningsmanninum, en hann vissi af Steinari. Sagði honum að slá til baka. En Úlfar vildi ekki slá. Ekki einu sinni Steinar. Að slá Steinar væri að slá sjálfan sig. Steinar hafði misst foreldri líka.
Rödd snúningsmannsins var hás og hvell. Hann sagði myndirnar lélegar. Tilraun til að hylja blöð sem yrðu alltaf auð. Hönd Úlfars staðnæmdist í miðri hreyfingu.
Snúningsmaðurinn hélt áfram: „Þú getur ekkert teiknað, aumingi! Það eina sem þú gerir er að þurrka endalausan skít af þér!“
Úlfar sá snúningsmanninn út undan sér. Fingurnir sneru öfugt og bakið vafðist um skakka hryggarliðina. Úlfar hafði oft meitt sig við að reyna að rétta úr honum.
Þó snúningsmaðurinn væri afmyndaður stamaði hann þó ekki. Hann gat talað. Ólíkt því sem vafðist um tungu Úlfars þegar Steinar nálgaðist.
Snúningsmaðurinn kom alveg upp að skrifborðinu. Olnbogarnir fundu aftur fyrir mölinni á skólalóðinni. Hráka Steinars. Sviðanum eftir spörkin.
Úlfar var vanur að bíða. Steinar hætti alltaf á endanum. Við tók tilfinning sem var bæði þung og létt, og fylgdi honum aftur inn í skólastofuna. Það var auk þess ekki hann, heldur Steinar sem grét.
En í þetta sinn gerðist eitthvað. Úlfar hunsaði hvorki snúningsmanninn né reyndi að stöðva hann. Hann leit beint á hann og rétti honum varlega blað og penna.
Reiðisvipurinn vék fyrir undrun. Þegar snúningsmaðurinn byrjaði að teikna skólalóðina fann Úlfar hvernig herðablöðin fóru að hreyfast. Í fyrsta sinn var hann ekki viss hvor þeirra héldi á pennanum.