sunnudagur, 13. júlí 2025


Reiknivélin

Elfríð roðnaði þegar Magnús dró aftur upp reiknivélina í matarboði Mánasteð hjónanna. Magnús stimplaði hugsi inn tölurnar, og það yfir bananakökunni sem Elfríð hafði bakað fram á nótt. Kökunni sem átti bragðast af eðlilegu sambandi. Mánasteð hjónin brostu með blöndu af forvitni og yfirlæti.

Elfríð andaði kökuilminum að sér. Kanillinn þrykkti sér í gegnum þéttan keim úr vanillu og banönum. Hún fékk sér bita. Gyllt brúnin splundraðist á hörðum glerungnum. Einu sinni hafði þetta verið uppáhalds kakan hans Magnúsar. Þegar hann virtist ósigrandi og gerði grín að þeim sem gátu ekki reiknað í huganum. En núna, með hverju pikki hans á litlu plasttakka vélarinnar, fannst Elfríði maðurinn sinn éta upp aðra og kaldari köku innan úr henni sjálfri.

Það var Elfríð sem hafði gefið honum þessa reiknivél. Hún sagði öðrum, og aðallega sjálfri sér, að hún sæi talnasnilli hans. Að hún skildi hungrið fyrir formúlum. En innst inni reiknaði Elfríð með því að andlit hennar myndi dag einn birtast í litla græna glugganum. Í staðinn leið henni eins og „ERROR“ skilaboði sem Magnús þurrkaði út með ósýnilegri servíettu af þurrum og snjáðum tökkunum.

„Magnús, viltu köku?“ Ekkert svar, bara lágvært suðið úr reiknivélinni. Heyrðu Mánasteð hjónin þetta suð líka, eða kom það frá hennar eigin skömm? Þetta var eins og hljóð í útvarpi sem hamaðist við að finna aftur lagið þeirra á meðan hún bakaði.

Elfríð horfði afsakandi til Mánasteð hjónanna, síðan á rándýra handtösku frú Mánasteð. Hún sá útundan sér þegar frú Mánasteð leit laumulega til eiginmannsins. Þau vissu meira en þau sögðu, enda unnu þau bæði hjá Numerus. „Jæja, stemmir þetta allt Magnús? Ingvar þarf að fara að borga þér fyrir alla þessa vinnu!“ grínaðist herra Mánasteð. Magnús horfði flóttalega frá skjánum, muldraði eitthvað ógreinilegt um samlagningu og frádrátt, og fór svo aftur að pikka inn tölur.

„Hann reiknar fyrir okkur bæði“ hló Elfríð vandræðalega og færði upphandleggina þéttar að sér svo frú Mánasteð sæi ekki stækkandi svitablettina. Suðið hækkaði þegar hún horfði á herra Mánasteð taka allt of stóran kökubita upp í sig, líklega til að skýla sjálfum sér frá því að telja upp það sem hann vissi um þau Ingvar. Samt sló herra Mánasteð greinilega inn tölurnar með augunum.

Magnús hafði ekki alltaf verið svona. Einu sinni blés hann af öllu afli á rjúkandi bananakökuna til að brenna sig ekki. Þá var ekkert suð, aðeins ánægjulegt smjatt, og engin hönd sem reyndi stöðugt að reikna sig til baka yfir sveitt og lyktarlaust plastið.

Síðan breyttist eitthvað. Elfríð vissi ekki hvað, en hún vissi hvenær. Þegar Magnús klúðraði ársuppgjörinu hjá Numerus. Hafði hún bakað eitraða köku með því að taka undir að bókhaldsskekkjurnar væru sök Ingvars og mannauðssviðsins eins og það lagði sig? Vildi hún trúa því sjálf? Hún horfði á ístru Magnúsar. Ingvar var grennri og stæltari. Ingvar borðaði kökuna áður en hún kynntist Magnúsi, en Magnús vissi það aldrei. Saknaði Ingvar bananakökunnar?

Um svipað leyti og reiknivélin kom til sögunnar fór Elfríð að nema hverfandi skilaboð á baðherbergisspeglinum, þegar Magnús gekk út eftir sturtu. Hún fór að flýta sér inn eftir að hann hafði verið þar. Fór jafnvel að tala um fýluna af honum til að reka á eftir böðun. Móðan inni á baðspeglinum geymdi ekki formúlur heldur andvörp einhvers sem skildi aldrei tilganginn með því að taka út fyrir sviga. Var þetta Ingvar? Elfríð tók fyrir eyrun. Heyrðu Mánasteð hjónin ekki þetta suð?

Hún datt aftur inn í matarboðið eins og útvarp sem hrekkur skyndilega inn á rétta tíðni. Elfríð horfði á ósnerta sneiðina á disk Magnúsar og gaf honum olnbogaskot. „Ing... ég meina Magnús..“ Mánasteð hjónin klufu Elfríð í sundur með augunum eins og brennandi kökusneið. Þau ranghvolfdu augum eins og hákarlar á eftir bráð.

Magnús hikstaði í augnablik eins og hann hefði slegið inn vitlausa tölu. Leit upp og kom við skeiðina eins og hann vissi ekki hvernig ætti að halda á henni. „Já svona, Magnús minn, kakan“ hugsaði Elfríð. Suðið dofnaði og Magnús byrjaði að flauta lagið þeirra. En síðan var eins og eitthvað slægi hann í höfuðið og hann leit aftur á vélina. Græn birtan lýsti upp andlit hans.

Elfríð leit ósjálfrátt á skjáinn og fannst standa þar „INGVAR“. Ingvar elskaði bananakökuna. Og elskaði hana örugglega enn. Hún ætlaði að telja rólega upp að fimm í huganum en byrjaði að skjálfa þegar hún komst upp í þrjá. Hún dró einn frá. Suðið kom aftur. Hana langaði bara til að baka. Ingvar, Ingvar, Ingvar hvar ertu?!

Elfríð ímyndaði sér að undir skelfdum hérasvipnum væri enn sami Magnús og hafði beðið um meiri bananaköku fyrir tuttugu árum. Maður reiknar ekki út bragðið af kökunni. Elfríð fann allt í einu plastbragð. Gleypti kökubitann og hrifsaði reiknivélina af Magnúsi. Fór að segja frá endurtekna draumnum.

Í draumnum var ekkert lok yfir rafhlöðunum og tölurnar ilmuðu eins og nýbökuð kaka. Þær svifu um loftið og settust svo á spegilinn inni á baði. Einhver hafði teiknað hjarta í þær með fingrinum, eða var þetta kaka? Draumurinn endaði alltaf á því að hún strauk yfir spegilinn og sá bananakökuna hverfa inn í ofninn. Ingvar brosti í stofunni. Þegar hún vaknaði fann hún slakann í lófunum og hveitiagnir á milli fingranna.

Þögn við matarborðið. Hvorki heyrðist suð né smjatt. Magnús stakk upp í sig kökumylsnu þegar Elfríð sagði Ingvar og mannauðssvið Numerus alltaf hafa staðið sig vel. Magnús ætlaði að telja eitthvað á fingrum sér, en hætti við og stakk fingrinum í kökuna. Henni fannst suðið allt í einu koma frá Mánasteð hjónunum. Þegar þau komu heim var enn móða á speglinum. Magnús renndi fingrinum eftir speglinum. Smá kökufeiti fylgdi með þegar hann sló skjálfandi inn: „3-1“.

eXTReMe Tracker