miðvikudagur, 30. júlí 2025


Konan sem fékk vængi

Haraldur hafði reiknað með miðlífskrísu hjá Lovísu. Taldi hana hafa gott af breytingu. Hann hafði meira að segja stungið upp á nýjum fatastíl eða frönskunámi dagana sem hún var ekki föst niðri í hæstarétti. En Haraldur bjóst aldrei við því að maki hans til tuttugu ára, og starfandi hæstaréttardómari, vaknaði einn morguninn með vængi út úr bakinu. 

Hafði Haraldur ekki verið nógu afgerandi með að hún þyrfti á breytingum að halda? Eða hafði hann skemmt lífrænt ferli með óþolinmæði sinni? Varir hans titruðu. Hann hafði heyrt Lovísu opna verkjalyf inni í eldhúsi kvöld eftir kvöld án þess að segja neitt. Heyrt hana tala um að finna eitthvað á sér varðandi sum mál. Innvortis sannfæringu sem hún gat ekki tengt við rökvísina sem starfið krafðist. 

Haraldur mundi hvað Lovísa hafði sagt, frosin í andliti yfir þriðja hvítvínsglasi. Aftur farin að ræða dæmdu móðurina sem hafði aðeins reynt að vernda börnin sín með þeim leiðum sem hún kunni: „Stundum Halli... Þó það komist skýr lending í málið, klýfur hún mig í tvennt... Eins og helmingurinn fljúgi út úr mér og horfi niður á allt sem á að heita almenn skynsemi.“ Var þetta lýsing á kulnun? Uppgjöf? Ef hann fyndi ekki svona til í bakinu sjálfur hefði hann getað hlustað betur. Afstýrt þessum hræðilega dómi.

Haraldur virti nýsprottna vængina á baki Lovísu fyrir sér með kökk í hálsinum. Lovísa hélt niðri í sér andanum þegar hún breiddi úr vængjunum og hrópaði upp yfir sig. Það var sárt að hreyfa þá, en líka undarlega frelsandi. Fitugar fjaðrirnar gljáðu í daufri eldhússbirtunni og óljós tilfinning sagði henni að þessir vængir hefðu alltaf verið þarna. Vængirnir hennar.

Þetta voru ekki vængir af engli eða djöfli. Heldur eins og af önd sem hafði brotið sér leið inn í réttarsal, og reynt í örvæntingu sinni að takast aftur á loft yfir lagabálkum og villu samborgaranna. Önd sem þráði að kljúfa skýin og finna vindinn leika um fjaðrirnar, en hafði flækst í miskunnarlaust net dóms og laga, með gogginn fastan í sakbitinni steypu daglegs lífs.

Lovísa var líka skelkuð, en var vön að halda slíkum tilfinningum frá Haraldi. Hún þekkti skelfingarsvipinn á Haraldi svo vel. Mátti ekki kynda sjálf undir hann. Hafði margsagt honum að minnka við sig verkefni og fara fyrr að sofa. Hætta í gosinu, snakkinu. Það var þó eitthvað spaugilegt við Harald í þetta sinn, eins og réttarríkið myndi fara á hliðina vegna tveggja lítilla vængja.

En þegar Lovísa ætlaði að hlæja heyrðist ekkert í fyrstu. Síðan blöktu vængirnir og lágvært kvak barst úr brjóstkassanum. Hún horfði frávita til Haralds, þau tókust skjálfandi í hendur. Síðan bárust háværir smellir undan herðablöðum Lovísu. Hún dæsti með létti og sveigði hálsinn lengra en áður. Sumum herpingi man maður fyrst eftir þegar hann slaknar. Hún andaði djúpt. Sleppti Haraldi.

Augu Haralds brunnu af kvíða og spennu. Var þetta merki um að Lovísa væri að vaxa frá honum? Voru vængirnir leið líkamans til að hafna honum? Hafði Lovísa hægt og rólega undirbúið að fljúga frá honum í öll þessi ár? Voru endur farfuglar?

Ef hann hefði tekið hana oftar í bakaríið. Henni þótti brauðið alltaf svo gott. Nei, hann skyldi finna út úr því hvers vegna þetta gerðist, og snúa ferlinu við. Fólk fékk ekki vængi út af engu. Það hlaut að vera ástæða. Haraldur flýtti sér að draga fyrir gluggana. Ekki aðeins svo enginn sæi inn, heldur til að hylja litla tjörn í einum þeirra.

Allt þetta kom merkilega lítið niður á vinnu Lovísu, því skikkja dómarans var bæði löng og breið. Á daginn dæmdi hún, á kvöldin fannst henni hún leggjast á rúm úr litlum greinum. En brátt versnaði þetta. Þegar verjandinn leit til Lovísu fann hún þörf fyrir að dýfa höfðinu undir yfirborð sem var ekki til staðar. Og þegar niðurstaða komst í erfitt mál, spyrnti hún taktfast í gólfið svo allur salurinn leit undrandi til hennar. En það skrýtnasta var að þegar annar dómari spurði hvort allt væri í lagi fannst henni hún sjá arnarkló stingast undan ermi hans.

Þegar einn sakborningur talaði, sá hún ekki mann í svartri hettupeysu, heldur grimmileg, rauð augu á litlu höfði með loðinn, svartan feld. Hún fékk hroll og kramdi vængina inn í stólinn. Og meðdómarinn sem hún hafði reitt sig á leit til hennar með svip sem þekkir aðeins flótta yfir auðn og heiðar. 

Lögin voru ekki þau sömu heldur. Þegar á reyndi tók eðlishvötin yfir og reyndi að tryggja bæði egg og afkomu. Var hægt að dæma fólk fyrir það eitt að lifa með því litla sem náttúran gaf þeim? Var maðurinn vond skepna, eða voru endur bara betri?

Heima leit Lovísa vorkunnaraugum á Harald, sem reyndi að fela bækling um breytingaskeið kvenna og galdraheimildir frá brennuöld. Þó ekki fyrr en Lovísa hafði örugglega séð þá. Hann sagði: „Ég hefði aldrei átt að sleppa kvakinu. Ég meina takinu. Á okkur. Ég...“ „Halli minn,“ greip Lovísa fram í með snöggum höfuðhreyfingum. „Þetta hefur ekkert með þig að gera. Þetta þarf að komast út. Veistu hvað ég er búin að halda þessum vængjum lengi inni?“ 

Lágvært kvak. Hún horfði út um gluggann. „Heyrðu... viltu ekki bjóða Pétri í bústað um helgina. Fara út að veiða. Bara þið tveir. Það var svo gott bragðið af...“ Síðan mundi Lovísa með hryllingi hvað þeir félagar höfðu veitt síðasta sumar. Hvað hún hafði sjálf eldað og étið á aðfangadagskvöld. Hún kúgaðist.

„Ertu að meina þetta?“ Haraldur leit ekki framan í konuna sína. „Ég er búinn að vaka hérna í þrjá sólarhringa til að finna svör við því hver fjárinn er að gerast og... þetta er það eina sem þú hefur að segja? Hvernig á ég að finna út úr því hvað er í gangi ef þú viðurkennir það ekki einu sinni sjálf?!“ Fuglahópur í oddaflugi flaug hjá glugganum. Lovísa starði í augu Haralds. Þögn.

Lovísa hafði aldrei séð Harald svona reiðan. Hún horfði á manninn sinn. Ósofinn. Úfinn. Næstum grænn í framan. Hún skammaðist sín, en tilburðir hans minntu á... Já. Á söng og dans. Hálsinn gljáði af svita.

Lovísa ætlaði að svara en kvakið var á undan. Og ekki lágt, sjálfsmeðvitað kvak undan felubúningi, heldur hátt og skrækt kvak þess sem hefur losnað eftir þungan dóm. Kvak andar sem hefur borið kennsl á varpland sitt að nýju eftir endalausan vetur.

Þegar Haraldur tók um Lovísu kitluðu fjaðrirnar hann í lófann svo hann komst ekki hjá því að skella upp úr. Kannski var þetta ekki svo slæmt. Hann leit út um gluggann. Sólargeislarnir glitruðu á tjörninni.

eXTReMe Tracker