Hláturinn
Þetta byrjaði allt þegar Auður fann ekki fyrir glerögninni sem hún steig á þegar lampinn brotnaði. Skömmu síðar fór hún að skrópa hjá sjúkraþjálfaranum. Hætti að tala um Viktoríu í bókhaldinu.
Eggert vildi trúa því að þetta væru batamerki. Auður hafði ekki hlegið svona að bröndurum hans í mörg ár. En brátt þurfti enga brandara lengur, og Eggert tók orlofið út óvenju snemma þetta ár.
Kvöldið sem Auður táraðist ekki yfir atriði um einfættan hvolp greip Eggert örvænting. Hann rifjaði upp þegar faðir Viktoríu hafði sagt yfir alla í hléi leiksýningar að Adolf þeirra væri örugglega með sama bullandi ADHD og kvíða og mamma hans. En Auður lokaði bara ruslapokanum og smellti blautum kossi á háls Eggerts.
Þá vék Eggert, aldrei þessu vant, talinu að Viktoríu í bókhaldinu: „Túlípanarnir í garðinum hennar Viktoríu eru miklu fallegri en okkar, og húsið þeirra stærra og dýrara... Og... Og svo hafa mér alltaf þótt lærin á henni flottari en þín.“
Auður draup höfði. Fyrst var Eggerti létt yfir kunnuglegu ekkasogi. Síðan óttaðist hann að þetta væru köfnunarhljóð. „Auður.. ég...“ Hljóðin frá henni minntu á lágvær hróp.
Auður leit snögglega upp. Augun rauð. Síðan fór að skvettast úr brennandi kaffibollanum í hendi hennar undan stjórnlausum hláturrokunum. Eggert horfði á gleðitárin hverfa ofan í galopinn munninn.
Skapgerðarbreytingin var ekki alslæm og Eggert talaði lengi fyrir daufum eyrum annarra. Kannski var hann vandamálið. Hvít og miðaldra pungfýlan. Auður hafði aldrei verið svona vinsæl. Viktoría í bókhaldinu trúði ekki eigin eyrum: „Hvar er þessi þreytta og neikvæða Auður sem við þekktum svo vel?“
Vinnufélagar Auðar kunnu að meta hól hennar um heimaprjónaða peysu Þorgríms og hrós yfir meðalhæfileikum barnanna. Auður var kosin starfsmaður mánaðarins tvisvar í röð. Beðin um að tala í veislum: „Fólk eins og þið gerir þennan heim betri.“
Þegar Ólafur kom niður í mötuneytið í fyrsta sinn eftir skilnaðinn reyndi hún að tárast. En skeifan sneri öfugt, og Gunnar horfði reiðilega á hana þegar tennurnar glömpuðu í sólinni. Auður hljóp frá borðinu til að hlæja ofan í tóma krukku inni á klósetti.
Þegar sonur Viktoríu var dæmdur fyrir fölsunina heyrðist ekkert frá Auði. Um þetta leyti jókst dofinn, ekki sem hún fann, heldur hinn sem grófst undir líkama hennar.
Á furðulegan hátt fjölgaði sorglegum atburðum í kringum Auði. Viktoría fékk slæma sýkingu í brjóstið og Bárður í móttökunni þurfti að svæfa minnsta naggrísinn. Um svipað leyti fór Auður sjálf að skreppa saman. Hló bara og minnkaði þegar hjúkrunarfræðingurinn spurði hvort einhver hefði farið langt yfir mörk hennar.
Eggert keypti töflur sem áttu að gera mann leiðan. Sagði að hann heyrði enn tuð Auðar þarna innst inni. Að hún mætti alveg vera hún sjálf, engum þætti hún kjánaleg eða skrýtin - nema kannski henni sjálfri?
En Auður skrækti bara og klappaði í sólskini stofunnar: „Eggert, það er svo dásamlegt að draga andann á þessari jörð!“ Eggert endaði með því að taka þessar töflur sjálfur.
Daginn sem Auður hvarf fundust óteljandi lokuð ílát undir litlum hlera inni í þvottahúsi. Hvern sunnudag opnaði fjölskyldan eitt ílátanna, og hlustaði á hve æðisleg þau væru öll.
Áður en hláturinn þagnaði voru þau ekki viss um hvort Auður hefði horfið eða hluti af þeim sjálfum. En Auður fannst aldrei, og þau sáu aldrei rakann sem hafði smeygt sér undir stærstu ílátin.