miðvikudagur, 23. júlí 2025


Fjarstýringin

Ylfa sofnaði með heilbrigðu höndina kreppta um fjarstýringuna. Skrifstofudramað minnti á vinnuna. Fund um ársskýrslur. Fólk las til skiptis upp úr lélegu handriti á meðan tíminn lamaðist á illa uppsettum glærum. Svona fundum fylgdi skrýtin tilfinning um að máttlausa höndin héldi á einhverju köldu.

Óraunveruleikakennd Ylfu hafði komið löngu á undan heilablóðfallinu fyrir tveimur árum. Kannski þegar hún vaknaði við að önnur brosandi Ylfa horfði á hana af ljósmynd á náttborðinu. Myndinni frá fyrsta ári í hjúkrun. Ætli þessi Ylfa hefði þorað?

Markaðsdeildin varð ekkert raunverulegri þegar hún hvorki fann fyrir né gat stjórnað sinni eigin hendi. Eins og höndin tilheyrði einhverri annarri. Þeirri Ylfu sem hafði enn skoðanir og ætlaði aldrei í viðskiptafræði.

Þegar Sonja mætti til vinnu breyttist allt. Dagarnir í endurhæfingunni höfðu líka snúist um það eitt hvenær Sonja kæmi næst. Þennan morgun hafði hún hlegið með Sonju yfir rembingi Rögnu yfir glærunum. „Sástu svipinn á henni þegar tölurnar blikkuðu bara?“

Þegar Sonja deildi vonbrigðum sínum með Ylfu að fá ekki stjórnunarstöðuna í hinum enda bæjarins fann Ylfa hjartsláttinn, hnútinn í maganum. Sonja táraðist en Ylfa reyndi að leyna léttinum. Hún væri örugglega ekki mætt aftur til vinnu ef Sonja væri ekki þarna. Einn daginn myndi Ylfa segja Sonju hvaða þýðingu hún hefði. 

Ylfa rankaði við sér í stofusófanum. Sjónvarpið í gangi. Hægri höndin enn læst um fjarstýringuna, en hún leit allt öðruvísi út. Fjarstýringin var ekki svört lengur, heldur föl og fjólublá. Líka lengri og mjórri, eins og einhver hefði teygt úr henni á meðan Ylfa svaf. Allir takkarnir báru sama spóla-áfram merki. 

Ylfa reyndi að sleppa fjarstýringunni en hún var föst við lófann. Titraði og sló eins og lifandi vefur. Voru þetta skilaboð eða bölvun? Ylfa smellti á takka. Tíminn leið á tvöföldum hraða. Hún fylgdist með sjálfri sér standa upp og hafa sig til. Fann lítinn sting í lömuðu hendinni.  

Ýtti á annan takka með sama merki: x4 hraði. Ylfan fyrir framan hana var mætt í vinnuna. Leiðinlegur fundur. Hana hafði alltaf dreymt um að spóla yfir þá. Hún ýtti á takka: x8 hraði. Aftur: x16. Sterkur rafstraumur út í lömuðu vinstri hendina. 

Það var eitthvað frelsandi við að ýta á takkana. Ekki aðeins aukin stjórn, heldur djúp losun á ósýnileika. Fólkið stóð upp. Bíddu. Núna var Sonja að segja henni eitthvað. Það var lítil sprunga á hökunni á Sonju. Var hún að biðja um hjálp?  

Sonja leit í kringum sig og hallaði sér nær Ylfu. Hún var greinilega að segja eitthvað mikilvægt. En hvað? Veikindi? Skilnaður? Nýtt starf? Ylfa ýtti í fáti á takkana í von um að hægja á eina atriðinu sem skipti hana máli. En hver smellur hraðaði öllu enn meir. 

Skrifstofan. Klósettið. Skrifstofan. Kaffistofan. Af hverju stóðu allir inni á kaffistofunni? Var það gott eða slæmt? Sonja horfði beint á Ylfu. Þagði og talaði til skiptis. Þetta var of hratt. En Ylfa gat næstum hreyft allt vinstri hendina aftur, þó því fylgdi kaldur sviði. 

Frammi sá hún sjálfa sig þefa örsnöggt af treflinum hennar Sonju þegar enginn sá til. Hún fann ekki lyktina. Sonja aftur. Hún var komin með aðra sprungu í andlitið. Ylfa ýtti á fleiri takka. Sá ekki lengur sprungurnar á Sonju. Vinstri höndin lifnaði alveg við, greip fjarstýringuna úr þeirri hægri og hamaðist stjórnlaus á tökkunum. 

Á þessum hraða sá hún ekki hvar hún sjálf endaði. Líkami hennar varð að ormi sem teygði sig ekki aðeins í gegnum tíma og rúm, heldur sameinaðist göngunum sjálfum. Veggir skrifstofunnar urðu að dansandi línum og ljósin á skrifstofunni runnu út í óteljandi skæra liti.

Hún reyndi að hrópa en það kom aðeins undarlegur smellur. Gólfið minnti á þykkt hlaup sem sveigðist undir henni. Hún sá stjörnur. Vetrarbrautir þyrluðust yfir óendanlegar glærur Eyvarar um ársskýrslur. Þessu fylgdi skrýtin tilfinning um að tilheyra einhverju stærra en hún sjálf.

Allt svart. Ekki frá tómum skjá, heldur fyrir augum sem horfðu á bak við ljósið. Ylfa reyndi að spóla áfram. Ekkert. Síðan dauft ljós. Skrifstofan, sjúkrahúsið og heimili hennar runnu saman í eitt rými. Tvöföld rödd flutti eitthvað sem minnti á þakkarræðu. Tilfinning um kaldan hlut í hendinni. Höndin seig niður.

Hljóð í öndunarvél rauf þögnina. Þegar Ylfa leit á hendurnar voru fjarstýringar í þeim báðum. Í þeirri vinstri var hvít fjarstýring sem var enn í plastinu. Skynlaus höndin virtist nema örfínan titring. Hún sá glitta í takka til að pása og spóla til baka.

Ylfa reyndi að lyfta fingri, en höndin hreyfðist ekkert. Hún hugsaði um Sonju. Tilfinning um kipp án þess að sjá hreyfingu. Þá gerðist það. Höndin hreyfðist ekki, heldur hvíta fjarstýringin. Færðist nær. Eftir þó nokkra stund tókst henni að ýta á „PLAY“. Andlit Sonju birtist á skjánum. Hún spólaði upp á byrjun.

eXTReMe Tracker