sunnudagur, 29. júní 2025


Slátturinn

Brotin skóflan dinglaði í hendi Fjólu eins og jörðin hefði gefist upp á henni. Olgeir renndi upp rúðunni þegar hún hvarf niðurlút inn í skúr. Hann þrýsti fingrunum í skarpa bíllyklana á meðan Jens talaði. Eintóna röddin rann undarlega vel saman við vélarhljóðið: „Ég myndi láta hana fara. Ég meina... Þetta er í annað sinn í þessari viku. Þetta eru nýjar skóflur.“

Fjóla kom aftur. Jens sat með þögult orfið. Olgeir leit snöggt á hana á meðan hann sneri sér við til að bakka gætilega með kerruna. Hvað ef hún segði satt? Þeir höfðu ekki hlustað á föður hans. Á sláttinn í höfðinu sem kom nokkrum vikum áður en hann hvarf ofan í moldina. Jens myndi ekki skilja að fleira en verkfæri gat brotnað. Ekki fyrr en of seint.

Jens hafði oft spurt Fjólu. En spurningarnar voru ekki til að heyra, heldur afhjúpa. Til að segja að henni væri bara illt í öxlinni þegar hún þyrfti að vinna. Fjóla sagði að áhöldin molnuðu á einhverju hörðu. Ekki steinn. Ekki klöpp. En aðeins Olgeir mátti heyra að verkurinn í öxlinni væri ekki hennar, heldur einhvers undir grasinu. Olgeir myndi skilja að þetta væri ekki lygi, heldur leið til að lifa áfram.

Olgeir rak niður skófluna án vandræða þegar hún var farin. Hann hætti þegar taktbundin höggin minntu á hraðan púls. Olgeir hafði verið hópstjóri í nokkur sumur. Fólk hafði áður hringt sig inn veikt á mánudögum. En þetta var eitthvað annað.

Hann skildi Fjólu enn minna eftir samtalið þegar Jens mundaði orfið efst í brekkunni. Þegar hún talaði um að lyfta því sem moldin gæti ekki borið. Sem enginn gæti borið nema hún.

Ekki að hann tryði henni. En stundum var trúin ekki jafn mikilvæg og að leyfa fólki að bera uppi sitt eigið líf. Ef þeir hefðu trúað föður hans. Ef við myndum öll trúa hvert öðru. En Jens trúði aðeins á árangur, á framtak. Jens var ekki vondur, hann myndi skilja þetta þegar hans eigin verkfæri brystu.

Þegar Jens hermdi eftir Fjólu kreisti Olgeir fram bros til að hylja herpinginn í kviðnum. Sama herping og þegar faðir hans fór upp í rúm og móðir hans sat þegjandi inni í stofu. Í þögninni sem fylgdi honum út í garð. Þögninni sem hann bar enn uppi.

Olgeir ætlaði að mótmæla þegar Fjólu var sagt upp, en eitthvað annað tók yfir. Jens var ánægður. Áhöldin hættu að brotna, en Olgeiri fannst sköftin ýmist þyngri eða jörðin þéttari. Hann stimplaði eitt sinn inn númerið hennar Fjólu en lagði símann niður þegar Jens slökkti á orfinu.

Þegar nýr starfsmaður spurði hvað lægi eiginlega grafið þarna tók Olgeir ósjálfrátt um öxlina. Jens byrjaði að hlæja. Olgeir heyrði hláturinn renna saman við snúninginn á orfinu, í sömu tíðni og slátturinn í höfði föður hans. Eins veröldin væri að fela það sem enginn gat borið lengur. Eða bara til að breiða yfir þögnina í stofunni.

eXTReMe Tracker