Skattholið
Gamli maðurinn á neðri hæðinni
sýndi mér skattholið:
„Hér geymi ég það
sem rúmaðist aldrei inni í mér.“
Hann strauk yfir lifandi viðinn
eins og vaxtarræktarmaður
sem spennir sig í bilinu
á milli hégóma og vöntunar.
Ég gekk nær
og las vandlega
handskrifaða miða
yfir pínulitlum skúffum:
– „Undrun.“ – „Vanmáttur.“ – „Afbrýðisemi.“ –
„En þarftu ekki að gera þær upp?
Eftir hverju ertu að bíða?“ spurði ég
og rykkti í sprungna skúffu.
Skúffan geymdi aðeins
ryk úr krömdum flugum
og skorpnuðum lirfum.
Hrollur fór um mig,
ég skellti henni ósjálfrátt aftur,
eins og af ótta við að smitast
af einhverju ósýnilegu
úr þögn áratuganna.
Gamli maðurinn brosti hlýlega
án þess að hreyfa andlitið.
„Þá missi ég þær,“ sagði hann.
„Og skítt með mig – þegar ég fer
verða þær eftir hérna,
fyrir fjölskylduna.
Ég hef þegar merkt mér
herbergi í erfðamenginu.“
Ég leit á hann –
og sá ekki gamlan mann,
heldur ungan draug
að fálma eftir líkama.
Við fætur hans
léku hljóðfæri
sem morgunninn
heyrði ekki í lengur.