sunnudagur, 8. júní 2025


Þú mátt leggja skóna hér

Hann hafði ekki sofið,
stóð og kallaði 
á dimmum
sjúkrahússgangi:

„Þið hlaupið
til að heyra ekki
skref mín.“

Var ég sá
sem skildi ekki?

Blöð óttans opnast:
Í líkamanum,
í umhverfinu.

Reiðin þrýstir
hælum í jörðina
til að finna fótfestu.

Skömmin skríður 
um mygluð göng
og étur eigin skugga.

En hvar dregur lífið
þurra rót
undan sólu?

Hræðumst ei
helgidóm líkamans.

Leyfum altarinu
að vera brotið.  

Garðarnir bíða
undir skorpunni.

Bíða eftir rödd 
sem seytlar
um opið hold:

„Þú hefur þjáðst.

En þér er óhætt –
þú mátt losa reimarnar
og leggja skóna hér.

Grasið man
iljar þínar.“

eXTReMe Tracker