Nafnið
Ég mætti dauðunum
við dyr að týndu húsi.
Þeir spurðu mig til vegar,
en ég rataði ekki sjálfur.
Ég veit ekki hvort þeir
sáu í gegnum mig
eða höfðu bara sofið lítið.
Þeir taka langar vaktir —
og mér var kennt
að hringja ekki í þá
nema að ég væri að deyja.
Biðin er víst orðin
heil mannsævi.
En þeir voru ekki pirraðir
yfir ratleysi mínu,
heldur andvörpuðu
úr eigin botnleysi.
Og með andvarpinu
kom þessi
óþekkta hlýja:
„Vegurinn hverfur ekki
þó þokan leggist yfir
og hendur myrkurs
týni útlínum fjallanna.
Við tökum ekkert,
heldur skilum
kjarnanum.
Við köllum ykkur
nafni sem þið
hafið gleymt.“
Síðan tók ljóðið
við samtalinu.
Vindurinn
teiknaði myndir
af öllu sem ég
gat aldrei
horfst í augu við.
Ég kinkaði kolli
eins og ég skildi —
og um stund
mundi ég ekki
hvað ég hét.
Endanleikinn
þekkir mig
ekki lengur
en ég faðma hann —
eins og minn
eigin son.