föstudagur, 6. júní 2025


Eftir æskuna

Við skrúfuðum nóttina í sundur eins og hillu
og lögðum bernskuna í þunnan kassa.

Strekktum himnu milli vonar og ótta
og drógum rykugan draum af þakinu.

Tókum fuglana niður úr trjánum,
en skildum söngvana eftir í garðinum.

Brátt hurfu fótatökin úr stiganum
og gljáandi iljar gengu undir sápuvatn.

Við settum rýmið í glærar töskur
og stöfluðum þeim á herðarnar.

Áður en við afhentum húsið gömlum konum
máluðum við það með lit úr gleymdum veggjum.

En í hvert sinn sem við áttum leið hjá
horfði sakleysið á okkur úr gluggunum.

eXTReMe Tracker