sunnudagur, 22. júní 2025


Brunnurinn

Fæturnir þekktu leiðina, en sporin urðu þyngri með hverju skrefi. Ilmur af votu laufi og steinum minnti á nóttina sem hún stakk af. Svona staðir áttu að vekja ónot, ekki anga af sumri. Seytlandi hljóð. Mjó tunglsbirta. Hún vissi að veran beið.

Lófarnir kólnuðu á brúninni. Steinarnir voru alltaf kaldir, jafnvel þegar sólin brenndi garðinn. Hún leit niður. Botninn geymdi ekki spegilmynd hennar, heldur þunga nærveru sem talaði þegar hún sneri sér undan. Hún kallaði – en hrasaði og skall með höfuðið á stein sem losnaði.

Engin svör. Rakinn smaug inn í sárið. Æðaslátturinn minnti á fótatökin nóttina sem hún læddist út í skóginn – og systurinnar sem leitaði hennar enn í skógarmyrkrinu. Nóttina áður en hún átti að fara burt – til frænkunnar með stafinn og reglurnar. Hana sveið í kinnina.

Útlínur sáust á botninum, eins og vatnið vissi meira en það sýndi. Blóðdropi lak niður hálsinn, heitur og hljóður. Duft sáldraðist úr veggnum og teiknaði litla hringi á flötinn. Hún horfði á lausa steininn. Enginn hafði kennt henni að hlaða. Samt hélt veggurinn. Þar til nú.

Hún kastaði steininum í þögnina – en brunnurinn gleypti hann án hljóðs. Hún hlustaði. Sama hrollvekjandi gutl og leitaði hennar í draumum.

Hún lokaði augunum – þetta þýddi ekkert. Þá hreyfðist eitthvað. Hún opnaði augun. Fingur verunnar teygðu sig upp úr vatninu. Augun voru gegnsæ – og snertu trosnaðan hnút sem lá dýpra en hún þekkti.

Kaldur dropi rann eftir upphandleggnum. Hún hélt niðri í sér andanum og horfði á veruna draga eitthvað upp úr gruggugum botninum. Smám saman reis það upp – andlit systurinnar, nóttina sem hún lést við leitina.

Hún losaði næsta stein. Þær kipptust allar við: Hún, systirin, veran. Systirin talaði, en veran átti röddina: „Við vorum aldrei ósýnilegri en þræðirnir sem héldu okkur saman.“ Hvítt ör opnaðist á kinn þeirra beggja.

Þögn. Orð systur hennar opnuðu rás sem hún hafði haldið lokaðri. Ekki til að týna sekt, heldur lifa með henni. Þekkja hinn hlutann af sjálfri sér. En hvað ef steinarnir héldu ekki systur hennar, heldur hennar eigin skugga? Hana svimaði. Horfði á veruna.

Hún sá það núna. Brunnurinn geymdi brotið – en hafði gleymt hver átti það. Hann nærði falskt hjarta á milli þeirra, sem slóst um án líkama. Bjó til veru sem hélt þeim saman með svörtum þráðum. Til að taka á móti – verður fyrst að sleppa. En til að sleppa þarf að halda lengur en líkaminn megnar.

Hún gekk með steininn að trjánum. Hann var þyngri en steinn átti að vera. En hún þekkti þennan þunga, hafði borið hann áður og síðan. Steinninn fölnaði af sýnilegri byrði, en virtist þyngjast með hverju skrefi. Spor hennar urðu dýpri um leið, eins og jörðin sjálf mótmælti verkinu. 

Hún lagði steininn upp við gamalt tré, eins og til að skila honum. Kastaði mæðinni. Það voru svo margir steinar eftir. Sumir voru þyngri en hún sjálf.

Hún leit við. Veran stóð við brunninn. Horfði á gluggann á svefnherbergi hennar, síðan beint á hana. Hún hafði hennar eigin augu. Varirnar hreyfðust en hljóðið minnti á rennandi vatn. Andlitið í brunninum lokaði augum og seig ofan í dýpið.

Veran sneri sér hægt – og hvarf inn á milli trjánna. Í þykkan faðminn sem opnaðist þegar allt hafði sýnst lokað. Sporin hurfu eitt af öðru undir moldugan skugga. Þangað sem hluti af henni hafði alltaf beðið.

Hún gekk að brunninum. Sár en ögn léttari. Hvorki af sekt né sakleysi. Fæturnir þekktu ekki þessa jörð lengur – en augun höfðu beðið. Ilmur af gróðri barst með vindinum. 

Vatnið var tært. Hún skolaði sárið. Himinninn var hvítur – hvorki af nóttu né degi, heldur einhverju ósýnilegu sem hélt þeim saman.

eXTReMe Tracker