Að yfirgefa tungumál
Inni í mér hvíla orð sem leita þagnar. En enginn getur lýst djúpinu án þess að gára flötinn.
Það sem talar hér er aðeins hús sem heimsækir mig þegar óendanleikinn hefur gleymt sér.
Þetta er skel sem vænting skildi eftir. Rofin kalkskurn sem rúmaði aldrei stærð lífsins.
Þegar stráunum er sleppt, tekur engið á móti. Rakinn vefur sér rólega um rætur jarðarinnar.
Fátækt okkar dansar í kringum himinstjörnur. Skriftin á veggjunum opnar nýjar sprungur.
Samt bíður eitthvað ósagt á tungu næturinnar, samt eru hendur morgunsins fullar af korni.
Handan líkamans birtist enginn vegur, aðeins snerting við vota og hrjúfa þögn handan orða.