mánudagur, 5. maí 2025


Skondin er sköpunarþörfin

Hvað sem þú gerir – ekki fara
með sköpunarþörfina í sund.

Í fyrsta lagi heldur hún að tímann megi túlka eins og kvæði, svo það er vonlaust að mæla sér mót við nokkurn mann. Nema að það sé merki um hversu djúpt maður skynjar heiminn að gleyma handklæðinu heima?

Þegar sköpunarþörfin kemst loksins eitthvert, tekur hún bergmálsdýptarmælinn sinn með í barnalaugina, og hefur leitina að einhverju listrænu. Hún sér brothætta fegurð í sprungnum sundkút, sem flýtur á milli hamingjusamra fjölskyldna – óséður, misskilinn.

Ef þú vilt stríða henni aðeins, bentu henni þá á að andköfin á milli sundtaka þurfi ekki að endurspegla innri átök við mennskuna. Eða að ferð í gufuna sé ekki þrungin dulrænum merkjum – já, bara venjuleg gufuferð með tjah, aukaskammti af stjórnlausri dramatík.

Æ, samt… Myndi maður ekki sakna hennar aðeins? Hver ætti annars að finna tákn um tilgang lífsins í froðunni við laugarbakkann? Eða að sýna sitt „sanna sjálf“ með stórfurðulegri sundhettu?

Veistu, væri ég ekki svona upptekinn af því að hlusta á hann Guðjón hérna í heita pottinum tala um nýja snjallklósettið sitt, eða hvað bróðir hans Braga gerði af sér í Berlínarferðinni – þá myndi ég örugglega skrifa skapandi texta um þetta allt.

Seinna bara. Heyrðu, nýja snjallsetan hans Guðjóns getur sýnt tilfinningar og sungið veðurfréttir á sjö tungumálum! – Á meðan situr sköpunarþörfin álengdar og þykist ekki heyra neitt af þessu. Smá áhugasöm, smá áhyggjufull.

eXTReMe Tracker