Rottumaðurinn
Krakkarnir í hverfinu kölluðu hann rottumanninn. Af kvikindisskap tróðu þau stundum ostbitum í póstlúguna hans og hlupu í burtu, eins og til að spenna gildru fyrir það sem ljósið snýr sér undan.
Ég þekkti ekki sögu hans, né vissi hvaðan nafnið kom. Kannski var það frammjótt nefið eða gulnaðar, óklipptu neglurnar. Kannski þörfin fyrir að úthýsa því sem minnir óþægilega mikið á okkur sjálf.
Alla daga sat hann í sömu stellingu á skiptistöð strætisvagna. Hann steig aldrei upp í vagn og ég velti fyrir mér eftir hverju hann beið. Það var eins og hann sæti fastur á milli þess sem sést og hverfur.
Snemma vors stóð sætið autt. Ég þóttist viss um að vagn hans hefði loks komið. Fólk ferðaðist áfram í gegnum holrúmið sem hann skildi eftir sig. Sviðinn í lófunum minnti á snertingu við þögult eitur.
Ég leit út um stærsta glugga stöðvarinnar. Nokkur börn skríktu og krítuðu nýjar ófreskjur á stéttina. Handan götunnar liðaðist mjór reykur upp úr ræsinu og gul birtan kastaði ostbitum á járnið.