þriðjudagur, 27. maí 2025


Litir skugganna

Eitt sinn átti vonin
ómyndaðan líkama.

Dagarnir liðu án vitnis
og nóttin óttaðist ekki.

Síðan varð til heimur
úr holdi og hreyfingum.

Augun tóku ljós og liti
og eyrun rufu þögnina.

En hugurinn sá eldinn
eyða burt árstíðunum.

Og djúpið hræddi hjartað,
því það sá ekki til botns.

Þá mundi líkaminn rödd
sem hvíslaði í tímann.

Hann leitaði vonarinnar
en minnið rataði ekki.

Hann fann aðeins söng
sem hafði týnt röddinni.

Þá laut líkaminn niður
og heimurinn bleytti augun.

En þegar hann gaf upp von
varð hörundið nógu mjúkt.

Því vonin þekkir
aðeins mýktina.

Vonin sýndi líkamanum
hverju lífið hafði gleymt:

Þó jörðin sé köld og hljóð,
nærir hún ræturnar.

Dauðinn á ekkert nafn,
og skuggarnir geyma liti.

Og sárustu vefirnir
halda um sálina.

eXTReMe Tracker