Hundurinn
Áður en nokkurn grunaði hafði konan í langa húsinu tekið að sér hund. Ekki að eigin frumkvæði, þó enginn þekkti raunverulegu ástæðuna. Hún sem hafði alltaf verið smeyk við svona dýr.
Fyrst um sinn fór hún aðeins út með hann þegar enginn var á ferli. Ef einhver birtist í fjarska, skaust hún niður næstu hliðargötu – með kaldan svita og barning í brjóstinu.
Stundum togaði hundurinn í bandið. Stundum dróst hann svo langt aftur úr að hún varð að kippa í spottann, bara til að gá hvort hann væri enn þarna. Jú, það fór ekki á milli mála.
Á einhvern undarlegan hátt veitti það henni öryggi að hundurinn væri aldrei langt undan. Taumurinn gaf henni líka tilfinningu um vald. Stundum hélt hún bandinu lausu, stundum allt of stuttu – bara til að sýna hver réði.
Í raun veitti þetta henni öryggi sem var erfitt að finna annars staðar. Og um leið dálitla fjarlægð frá ósýnilegu afli sem vildi stundum þrengja að hennar eigin hálsi, eins og stífluð súrefnisgríma.
Þessi litli, skjálfandi rakki gat jafnvel verið dálítið sætur, eftir allt saman. Lítið kvikindi sem hún gat bæði teymt og skammað.
Eftir því sem henni leið betur, fór hún aðallega út að ganga fyrir hundinn. Kannski mildaði það líka eitthvað í ætt við samviskubit.
Hún fór að brosa hlýlega til fólks sem hún mætti. Fólks sem eflaust dró sína eigin tauma á eftir sér.