mánudagur, 26. maí 2025


Hreinsunin

Hún hélt um auman úlnliðinn og leit í dauflýstan spegil sjúkrastofunnar. Augun báru sorg sem hún náði aldrei að tengjast. Hafði hún ýtt henni frá sér? Til að hlífa þeim? Hún rannsakaði andlitið. Hæglátur svipurinn tjáði aðeins mýkt. Mýkt sem vofði yfir herbergjunum heima. Eins og hennar eigin heimili ætti minningar sem hún kannaðist ekki við.

Nóttina þegar maðurinn í næsta rúmi var í aðgerð gerðist eitthvað. Kannski voru það svefnlyfin. Hún var allt í einu að sparka svartklæddri konu úr hörðu sjúkrarúminu. Konan streittist ekki á móti, en þunginn var meiri en hún hafði ætlað. Hún þrýsti aumum hryggnum aftur í rúmgrindina, vafði sér í kuðung og spyrnti af öllum mætti.

Svartklædda konan skall hljóðlaust á gólfið. Hver var þetta? Handarbakið logaði eftir átökin. Á meðan hún áttaði sig á stöðunni kviknaði skyndilega ljós. Ekki ljós inni á stofunni, heldur í öðru miklu nærra og kunnuglegra rými. Rými sem átti hvorki nafn né stað. Birtan þaðan var hlý og næstum því áþreifanleg.

Gólfið hlaut að vera kalt. Hún leit niður. Líkami svartklæddu konunnar lá þar enn, hreyfingarlaus. Klæðin huldu ekki lengur sárin. Andaði hún? Í sama mund byrjaði fugl að syngja fyrir utan gluggann. Hún óskaði þess að geta séð hann, að ekkert af þessu væri raunverulegt.

Hún hallaði sér nær konunni. Söngurinn fyrir utan gluggann þagnaði. Hún virti líkamann fyrir sér. Húð konunnar var gegnsæ. Undir holdinu var eins og óteljandi litlir fuglar drægju andann með fuglinum úti – og henni sjálfri. Eins og þau hefðu öll einn sameiginlegan andardrátt.

Fuglarnir virtust sofa í nýju birtunni. Hún lagðist hægt aftur niður til að vekja þá ekki. Fuglinn fyrir utan gluggann hóf aftur að syngja, fegur en nokkru sinni áður. Stingirnir voru horfnir úr handarbakinu. Hún fann hlýjan dropa renna niður mjúka kinnina, án mótstöðu. Hann hvarf inn í handarbakið.

eXTReMe Tracker