þriðjudagur, 29. apríl 2025


Draumurinn

Þegar ég vaknaði var tígrisdýr á heimilinu. Í fyrstu hafði ég áhyggjur en með tímanum varð nærvera þess kunnugleg, næstum eðlileg. Þungt þrammið á flísunum, stöku urrið og lyktin sem minnti á rakan skógarbotn - allt vandist þetta merkilega fljótt. 

En dag einn færði dýrið sig upp á skaftið, stökk upp í sófa til mín með háværu mali og lagði risavaxna loppu yfir brjóstkassann á mér. Ég fann minn eigin hjartslátt undir klóm dýrsins, og því fylgdi skrýtin tilfinning, blanda af vernd og skelfingu.

Var dýrið smátt og smátt að taka yfir? Ég flýtti mér inn á skrifstofu til að lesa mér til um sjúkdóma og sýkingar sem fylgja villtum dýrum. En þegar ég mændi á skjáinn gekk óvænt inn annað stórt kattardýr: Grannvaxinn, tignarlegur blettatígur, með dimm og dularfull augu. Einhverra hluta vegna virtist mér stafa mun meiri ógn af þessu dýri, og ég velti meira að segja fyrir mér hvort ég ætti að kalla á eftir tígrinum.

Blettatígurinn nálgaðist hægt og hljóðalaust. Ég man ég hugði of seint að flýja. Dýrið færði sig fyrir aftan mig og þefaði varlega í bæði eyrun á mér. Mjúkur og rannsakandi andardráttur þess fyllti hlustirnar. Ég lokaði augum. Það var eins og dýrið væri að miðla til mín einhverju frumstæðu, um að óttast ekki hið hráa og óræða.

Þegar ég opnaði augun aftur voru bæði dýrin horfin. Í loftinu hékk enn lykt af rökum skógarbotni. Nokkrar djúpar rispur skreyttu parketið. En innra með mér var ákafur en óræður friður sem ég gat ekki alveg útskýrt.

eXTReMe Tracker