sunnudagur, 1. mars 2015


maður sem heldur á hurð

þegar heimurinn skiptir um dvalarstað
yfirgefur umhverfið um leið þær frásagnir
sem staður og tími geta sveipað bliki atburða

nokkur merki hrynja við umskiptingarnar
svo beinist úr bognu eða grænn verður gulur
er litir og form kasta af sér gervum nafna sinna

og um stund verða göturnar sem rennandi fljót
en veröldin söngur flökkufólks um borð í barkbát
með ungviði sitt reifað í óuppgötvuð tákn og falin

síðan dregur allt hring um verðandi miðpunkt,
fjöll, himinn og haf setjast aftur, færð úr stað,
breytt að lögun sinni og vídd á framandi stólpum

þau innfæddu berja forviða á hinar nýju dyr,
með fréttir og spurnir á ótal framandi tungum
meðan jörðin opnar áður óséð blóm í garðinum

eXTReMe Tracker