þriðjudagur, 15. mars 2011


úr minningu alheimsins

hvað er tilvist?; leiftrandi andrá sem myndast inn um tíma eins og blaktandi hlið er opnast í vorþeynum eða mánalýst strönd undir ölvaðri nótt eða stirndur sálmur dreginn upp úr silfruðu djúpi rökkurs og bláma

staður fyrir ljós og vind eða gínandi skuggsjá, leitandi myndar sinnar undir eilífri fyllingu veru og drauma; margstrent mósaík tilfinningar og efnis eða táknum hlaðinn óður rýndur yfir fjöll, vötn og sanda

þessi óljósa tilvísun í faðmi vinds og breytinga, lituð af birtingu umhverfis og innri myndar - þeirrar sem rennur í og úr víðáttunni aftan forms og rýmis, þar sem kölluð er sál; og þú stendur hér, líf þitt, eins og þúsund augnablik úr minningu alheimsins

eXTReMe Tracker