Sagan af Geitastekk
Bjallan hringdi á stofu Elínar. Lóa lagði frá sér glósur um félagsmótun og gerði sig tilbúna að hjálpa Mundu við að snúa Elínu. Í fjarska reis fjallið Skepnir eins og gleymd þjóðsagnavera.
En Elín lá nú þegar á hægri hliðinni, með sama bros og hún stillti upp í tískuverslun í þrjá áratugi.
„Æ, ég þurfti svo ekki aðstoð,“ dæsti Munda en þrýsti þó hendi þétt upp við bakið á sér.
Þegar Lóa gekk með Elínu fram í kvöldmatinn rann Elín upp úr báðum inniskónum. Æðaber hönd hennar tók fast um Lóu.
Augu Elínar titruðu þó munnvikin strengdust upp til hliðanna. Útlínur Skepnis týndust í dökkva himins, eins og eitthvað ósagt væri að hverfa úr glugga heimsins.
Næsta hádegi sat Elín brosandi í matsalnum þrátt fyrir ósamstæð föt. Eftir kaffið sat Úlfar og hlustaði á gangverkið í stóru standklukkunni sinni.
Úlfar hafði klætt sig í svartan jakka frá starfi sínu sem útfararstjóri. En jakkinn hékk laus utan á beinaberum herðunum svo framstykkin féllu yfir gólfið eins og slitnir vængir.
„Það er örugglega hægt að herða hann,“ sagði Lóa og reyndi að dylja efanum. „Hún Pálína getur gert kraftaverk með svona.“
„Kraftaverk? Ég snerti hendur dauðans, Lóa,“ svaraði gamli útfararstjórinn án þess að rétta úr sér. Röddin dró dimman yl inn í herbergið.
Úlfar hélt áfram: „Ég er kannski að tapa sjón, en ég sé þetta skýrt núna. Við stækkum aldrei í raun og veru, Lóa. Við hættum bara að minnka frammi fyrir því óendanlega.“
Almar húsvörður hvessti brúnir í glugganum og renndi fingri eftir sprungnu kíttinu. Að baki færðust gráir taumar yfir tennur Skepnis.
Lóa tók upp glósurnar. Þegar hún las aftur kenninguna hurfu hendur Úlfars upp í ermarnar.
Lóa hratt upp hurðinni hjá Valnýju forstjóra: „Fólkið minnkar!“ Valný andvarpaði og dró fyrir gluggann að Skepni.
„Sjáðu... Við fáum fjármagn fyrir 30, en 60 bíða. Sumir komast aldrei inn. En ef við minnkum plássin, björgum við fleirum. Hvort viljum við að hugsjónin þjáist eða fólkið?“
Þegar Lóa gekk fram stóð Almar á ganginum með sinn eigin tommustokk, tautandi við mann í bláum galla: „Hvernig fær þetta lið út tvo og hálfan? Þetta eru enn þrír metrar.“
Starfsfólk Geitastekkjar var kallað á fund. Valný byrjaði rólega: „Þau vilja bæta við tólf rýmum í viðbót.“
Munda stóð upp svo kertastjakarnir hristust á borðinu: „Tólf?! Og þarf þá ekki fleira starfsfólk? Í hvaða heimi lifir þetta fólk niðurfrá eiginlega?“
Valný svaraði að ráðuneytið sæi bara hjúkrunarþyngd á fermetra: „Þau sögðu að við hefðum mælst með meira rými en áður.“
Valný sagði starfsfólkið þurfa að starfa saman sem ein stór fjölskylda. Stofnunin tæki þátt með hærri greiðslu fyrir aukavaktir. Ef starfsmenn ættu svo notaðar vöggur eða dúkkuföt væri gott að koma þeim í umferð.
Þegar íbúunum fjölgaði, minnkuðu þeir enn hraðar. Lóa fann þunga í maganum þegar hún horfði á Úlfar lúta smækkuðu höfði undir gljáandi stikum.
Lóa sagði Úlfar ekki geta klifrað upp stigann í Playmohúsið lengur. „Það hlýtur að vera erfitt fyrir þig,“ svaraði Valný. „Hvernig getum við unnið með þannig vanmátt?“
Þrír starfsmenn bjuggu til bænahring til að friðþægja Skepni. Valný sagði ekkert nýtt að fólk drægist saman með aldrinum. Almar spurði með krosslagðar hendur hvað yrði um lífeyrissjóðina.
Þrátt fyrir mótmælin varð Munda fyrst til að taka breytingarnar í sátt: „Þú hefur þetta ekki eftir mér Lóa, en þau eru svo krúttleg í þessari stærð!“
Höfuð Valnýjar klauf geisla skjávarpans: „Lyfjakostnaður hefur lækkað um 40% samhliða aðlöguninni. Og sjáið matarkostnaðinn.“ Hún lyfti viðurkenningu fyrir minnsta kolefnissporið á hvern íbúa og sagði Geitastekk aldrei hafa verið stærri.
Þegar Almar spurði hvort þetta gerði ekki lítið úr íbúunum, svaraði Valný: „Þau verða að minnka svo allir komist að, skilurðu það ekki? Svo tölum við ekki um íbúa lengur Almar, heldur persónurýmd.“
Lóa spurði Mundu hvort gallinn sem hún prjónaði væri ekki of lítill á Úlfar. Munda beyglaði varirnar: „Hann passar á morgun, ef hann heldur áfram að þrjóskast svona við.“
Þegar Lóa kom með námsbækurnar fnæsti Munda: „Bækur mata ekki fólkið.“ Almar hristi höfuðið líka og sagði stríðnislega að fíflið væri enn þá fífl þó spekin yrði önnur.
Augu Mundu blikuðu þegar hún rétti Elínu agnarlítinn pakka. Elín barðist við munnvikin þegar hún dró upp nýjan og glansandi barbígalla.
Í andartak var eins og Elín hefði stækkað. En síðan setti Munda karlkyns dúkku í beyglaðan plaststól við hlið Elínar og sagði að hann væri kominn heim úr vinnunni. Almar sagði þennan skrípaleik vera algjört virðingarleysi við aldraða.
Lóa leit varlega undir skóna áður en hún lauk vakt. Þegar hún fletti bókunum andaði djúp þögn á milli blaðsíðna þegar fjallaloftið barst inn í húsið.
Næsta morgun kom Lóa að Mundu sofandi á dýnu innan um skilrúm úr legókubbum. Úlfar lá í bleiku plastrúmi í þvölum náttbol sem þrengdi að brjóstkassanum.
Þegar Valný kom hlaupandi sneri Úlfar augunum hægt út að fjallinu, og hætti að anda.
Valný hélt léttum líkamanum þétt upp að sér. Skuggi Skepnis féll á hendur hennar.
Munda kveikti á ilmkerti og sagði Harald litla verða ánægðan í plássinu hans Úlfars. Almar hvessti brúnir og sagði þetta afleiðingu þess að ráðuneytið kynni ekki að fara með tölur.
Aðstandendur Úlfars ánöfnuðu Geitastekk stóru standklukkunni. Klukkunni var fundinn staður við lítinn glugga, þar sem oxaður kólfurinn slóst á milli eilífða.
Þegar Úlfar var horfinn fannst Lóu allt verða óskýrt. Veggirnir sveigðust undan ómældum þéttleika. Orðin í námsefninu stóðu í stað, á milli þeirra flöktandi tómið eftir Úlfar. Það stóð ekkert í bókunum um neyð í skókassa, né ónotakenndina við að sjá nýjan íbúa minnka ofan í plastrúmið hans Úlfars.
Lóa hafði reynt, en Úlfar hvarf samt. Hún vöðlaði glósunum saman og lamdi niður stikur úr loftinu. Síðan settist hún hjá Elínu. En Lóa sá ekki lengur gamla konu minnka undan fjólubláu gerviefni af barbídúkku.
Lóa hvíslaði: „Þú ert stærri en þetta, Elín.“
Munda og Almar hlupu inn þegar Lóa hringdi neyðarbjöllunni. Glitrandi samfestingur úr pólýesteri og næloni rifnaði undan búk Elínar sem bólgnaði í átt að Skepni.
Elín hrópaði og kipptist til. Fyrst stækkaði hægri höndin með nagandi hljóðum.
Munda kastaði sér aftur svo dúkkustólarnir ultu um koll: „Nei, Elín! Þú rífur nýju fínu fötin þín!“
En Elín sneri undan Mundu. Vinstri síðan skall upp að herðablaðinu eins og flekahreyfing á hraðspólun.
Þegar Almar þreif í málbandið, brotnaði endakrókurinn af og stálbandið skaust til baka, þar sem talnarunan snerist eins og lítil þyrla í svörtu plasthúsinu. „Ég… ég skil ekki,“ spýtti hann úr sér.
Bogið bak Elínar lyftist, svo hryggjartindarnir spruttu aftur í gnýjandi brestum. Vinstra augað stækkaði og hæðótt bringan fylgdi á eftir.
Hnúar Almars hvítnuðu um handfang verkfærakassans, eins og hann héngi yfir ókunnu dýpi. Rifin barbíklæðin titruðu í höndum Mundu: „Ánægð núna?“
Lóa sagði: „Fólk stækkar aldrei. Það hættir bara að minnka frammi fyrir okkur.“
Takturinn í klukku Úlfars minnti á gangandi skepnu. Í glugganum reis fjallið á milli hljóðs og þagnar, yfir ómerktar stikur skýjanna. Dyrnar skelltust aftur og Elín tók andköf með gegnumtrekknum. Síðan roðnaði fölgrá húðin.
Elín sneri frá Almari og Mundu. Valný opnaði dyrnar og spurði másandi hvernig þau ætluðu að útskýra þetta fyrir ráðuneytinu.
„Krakkar…“ heyrðist í Elínu. Starfsfólkið sneri sér við í dyrunum. Elín sat enn á miðju gólfi. „Gætuð þið kannski hjálpað mér aftur upp í rúm?“


