Fyrsti gagnagjafinn
Tara fann ekki fyrir höndunum þegar hún setti upp hjálminn. Hvað ef þetta færi allt úrskeiðis eins og hjá fyrsta simpansahópnum fyrir tveimur árum? Tara mundi enn flöt andlit dýranna. Óétnu bananana.
Davíð, aðalforritari G&G, hafði útskýrt hvernig afkóðun tilfinningalega hlaðinna knippa myndi skapa gríðarlega verðmæta rafmynt. Hvernig lærð mynstur í limbíska kerfinu röðuðust saman í einstaka stafræna miða.
En vissi einhver hvaða tækni G&G hafði í höndum? Hvað hún gerði við fólk? Jú. Tara hafði séð þróunina. Þrotlausa útreikninga og dýratilraunir.
Hún gat þetta. Kvíði hennar var mun hættulegri en sjálf gagnagjöfin. Kvíði sem hafði eyðilagt svo mikið fyrir Töru. Fyrir þeim Hlyni.
Alda hafði komið með sorgarsvip til Töru og sagt „freku kellingarnar í mannauðsdeildinni“ hafa dregið upp nöfn nokkurra starfsmanna sem voru „ekki í arðbæru jafnvægi fyrir reksturinn.“
Stuttu síðar bauð Tara sig fram sem fyrsti gagnagjafinn á sínum eigin vinnustað. Var eitthvað að henni? Já, þess vegna var hún þarna. Eins og Hlynur sagði: „Byrja heima fyrst.“
Hlynur, kærasti hennar til sjö ára, sat í rauðum hægindastól fyrir aftan fjarfundabúnaðinn. Eins gott að hann yrði ekki í mynd, ógreiddur og með akrýlsletturnar í snjáðum stuttermabol.
Akrýlmálningu sem Tara hafði greitt að mestu fyrir síðustu ár, ásamt aðföngum og leigu á vinnustofu, svo Hlynur gæti málað fleiri draumkennda fjallgarða á striga.
Skærhvítur starfsmannafatnaður fundargesta brá óþægilega sterkri birtu inn í svefnherbergið.
Norsku fjárfestarnir sátu við mahóníhringborð í öðrum Teamsglugga. Í þriðja og stærsta glugganum sást upp í nefið á Öldu forstjóra, yfir skínandi merki fyrirtækisins G&G, Gleymt og grafið.
Af hverju hafði Tara samþykkt þessa innrás inn á heimili sitt? Inn í sjálfa sig?
Alda forstjóri sló penna í voldugt rauðvínsglas svo slétt, karrígult hárið rykktist til yfir brúnuðu og gljáandi andlitinu:
„Ég vil þakka ykkur öllum fyrir hversu vel samþætting vinnu og einkalífs Töru okkar hefur gengið. Engin þörf á að stimpla sig inn í dag, Tara.“
Fundargestir hlógu. Stutt truflun á fundarstreyminu gerði hlátur þeirra undarlega skrykkjóttan.
„SKÁL FYRIR TÖRU!“
Tara kinkaði brosandi kolli á meðan hún hélt svo fast í náttborðið að eitthvað small, annaðhvort í borðinu eða í fingrunum.
Tara barðist við löngun til að setjast hjá Hlyni kærasta sínum og gráta. Nei. Þau yrðu að sjá yfirvegun. Tara hafði reynt árangurslaust að fá samþykki þessa hóps, og loksins var sú viðurkenning í sjónmáli.
„Hlynur, ertu ekki stoltur af konunni þinni?“ spurði Alda forstjóri.
Allra augu og eyru voru á Hlyni. Tara óskaði stuðnings hjá kærasta sínum með mildum og vonarríkum svip, en hann svaraði:
„Ég hef eiginlega enga trú á þessu. Ég er kannski gamaldags, en ég myndi bara vilja sjá Töru tjá tilfinningar sínar með samtali eða sköpun.“
Öldu brá greinilega. Vandræðaleg þögn á streyminu. Allt í einu var Tara svo rosalega ein.
„Hlynur…?“ spurði Tara lágt. Hún hafði reynt að opna sig fyrir Hlyni, en hafði einhvern veginn aldrei getað það. Annars færi hann líka.
„Ég er bara að hugsa um þig,“ bætti Hlynur við. „Munum að þetta fólk græðir á þessu.“
Þetta fólk? Af hverju þurfti hann að gera þetta fyrir framan alla? Hlynur vissi hve mikilvægt þetta var. Það var hann sem hafði málað Töru út í horn, þó hann neitaði að sjá það, með því að þrýsta á Töru til að vinna meira þegar leigan hækkaði.
Hlynur varð pirraður þegar Tara spurði um málverkin. Hvort hann vildi ekki auglýsa sölu eða sýningu, eða vinna aðeins í heildsölu foreldra hans.
Tara gat aldrei rætt nagandi fjárhagsáhyggjur sínar, eða þá staðreynd að hún væri að ofkeyra sig á vinnu, án þess að líða eins og hún væri að ráðast á Hlyn.
Tara horfði á græna akrýlblettinn á bolnum hans. Hlynur fengi nýja vinnustofu fyrir þetta hættulega verkefni hennar. Þá væri þessi endalausi núningur í sambandinu úr sögunni.
„Þú átt greinilega góðan mann, Tara,“ skaut Alda forstjóri inn í, augnabliksskeifan búin að snúast við. „Jæja… heyra allir vel í mér þarna á Teams?“
Tara gat stundum ekki farið ein út í búð. Hún gat ekki verið ein í tvær klukkustundir án þess að hringja og spyrja hvar Hlynur væri.
Tara skildi að þetta væri þreytandi. En stundum nagaði hana ótti við að Hlynur hyrfi einn daginn eins og faðir Töru hafði gert þegar hún var aðeins fimm ára.
„Tara. Mundu að tengja búnaðinn við Teams svo við sjáum líka, það er bara Bluetooth takkinn á hliðinni, manstu?“ sögðu andavarir á bak við skjá.
Tara leit spyrjandi á Hlyn. Hann dæsti, stóð þunglega upp og rétti fram höndina heilu skrefi frá Töru. Hún steig fram og lagði hjálminn í hönd Hlyns svo hann gæti tengt Bluetooth fyrir hana.
Upphafsskjárinn kviknaði með slagorðum sem Tara hafði sjálf tekið þátt í að búa til á markaðsdeildinni:
„G&G - Slæmar minningar brenndar til verðmætasköpunar.“
Tara lagðist niður með hjálminn. Skvaldur fundargesta. Einhver opnaði gosdós á meðan lífsmörk Töru birtust á skjánum.
Tara minnti sig á það af hverju hún var þarna. Ekki aðeins fyrir draumahúsið og svo Hlynur gæti einbeitt sér að listaferlinum.
Nei, fyrst og fremst til að losna sjálf við þessa nagandi innri rödd. Stöðuga hræðslu sem truflaði bæði vinnu og einkalíf. Tilfinningu um að vera lokuð inni, sama hvar hún var.
Sýndarveruleikinn tók smám saman yfir.
Töru fannst hún standa á litlum, huggulegum skógarstíg. Greinarnar báru ekki lauf heldur litlar myndir úr minningum. Ekki allt minni hennar, heldur það sem tæknideildin kallaði „taggaða hnúta og knippi.“
Margar minningar voru ljóslifandi. Aðrar misskýrar, eins og hún hefði ekki greiðan aðgang að þeim. Ein og ein geymdi aðeins óþægileg hljóð eða dula hreyfingu.
Á einni var Gríma frænka hennar og sjúkraliði að efast um magaverk hinnar átta ára Töru þegar hún vildi ekki grjónagraut með púðursykri. Gríma var einhvern veginn svo stór og ógnandi í minningunni.
Á næstu mynd var systursonur Töru að tæma úr þyngdarstjórnunarpennum ömmu sinnar ofan í fiskabúr Töru, því einn fiskanna væri svo þykkur. Tara gat hlegið að þessu núna.
Þarna var unglings Tara að ljúga því að foreldrum sínum að hafa ekki drukkið áfengi á árshátíð Flensborgar. Tara fann enn fyrir skömm.
Stór mynd af Hlyni kærasta á næsta tré að hrista höfuðið yfir kynningarefni sem Tara vann að fyrir G&G vegna ráðstefnu í Hörpu.
„Átt þú ekki að vakna sjö í fyrramálið?“
„Jú,“ svaraði Tara.
„Klukkan er orðin tvö sko. Stundum held ég að þú sért að gefa þig vinnunni til að þurfa ekki að byrja hérna heima.“
Hlynur hafði rétt fyrir sér. Hún hvíldi sig ekki nóg. Stundum lá hún úrvinda eftir vinnu þegar Hlynur kom þreyttur heim og talaði um að fórna hugsjónum sínum við að koma sér á framfæri. Hlynur skildi aldrei hvað hugsjónir kostuðu, einkum vegna þess að hann þurfti ekki að standa skil af þeim kostnaði sjálfur.
Hér og þar voru myndir sem Tara hafði þegar merkt með rauðu X-i, eins og þegar faðir hennar kom ekki heim eftir ferð til Kýpur en reyndist svo byrjaður með annarri konu.
Tara horfði á myndirnar þurrkast út í vélinni. Átti hún að finna fyrir einhverju strax?
Hún heyrði rödd Davíðs forritara stingast úr löngu og mjóu heyrnartólinu í hjálminum.
„Tara… Davíð hér. Þú átt bara að merkja mikilvæg knippi. Ef við tökum of mikið í einu endarðu eins og simpansarnir, manstu?“
„Já, geturðu samt leitt mig aftur í gegnum þetta?“
„Sjáðu kóðana undir myndunum. Þú átt að fara yfir þessa: 35,2: Vald sem brást, og 35,9: Vanmáttur eða önnur tilfinningaviðbrögð gagnvart ráðandi afli,“ sagði Davíð.
„Já. Já. Bara merkja þá,“ sagði Tara.
„Allur núningur í nánum samböndum gaf mikið hjá simpönsunum,“ bætti Davíð við fyrir fjárfestana. „Því þyngri reynsla, því fleiri gagnapunktar.“
Tara gekk inn í skóginn. Hún stirnaði upp við hljóð skammt frá sér. Barnsrödd. Hennar eigin.
Gömul minning um níu ára Töru að biðja bæn. Falleg birtan á myndinni. Greipar spenntar yfir koddanum. Hvenær hafði hún aftur hætt að biðja, um 17 ára aldurinn?
Allt í kringum hana var óþægileg og ágeng reynsla, hangandi á trjám eins og forboðin epli.
Tara hlustaði á saklausa röddina í minningunni. Hvaða skilning hafði hún öðlast síðan? Hún leit á gervijörðina undir fótum sér. Á gervitrén, gervihimininn. Á alvöru minningar, sumar að hverfa.
Tara sá allt í einu hvernig punktarnir tengdust. Óttinn, gróðinn, gleymskan, gervitrén, bænin, simpansarnir, faðir hennar, Hlynur og höktandi andlitin á Microsoft Teams.
Heill skógur fyrir framan hana. Þetta var yfirsýn sem Tara hafði aldrei haft. Síðan gerðist eitthvað, án þess að hún áttaði sig almennilega á því hvort það væri innra með henni sjálfri eða í þessum gerviheimi. Myndirnar lyftust um stund og hvítar, gegnsæjar línur tengdu þær allar.
Allt small saman í undurfagran kristal sem sveif yfir Töru. Hvað var að gerast? Var þetta hennar eigin skilningur eða einhver villa í gagnaferlinu?
Tara snerti kristalinn. Það var eins og hann kæmi frá mörgum stöðum í einu. Geislar úr óteljandi litum léku um opna lófa hennar. Lágvær, friðsæll hljómur virtist koma frá hálfgegnsæju yfirborðinu.
„Tara, ekki koma við þetta!“ hrópaði Davíð áhyggjufullur. Þetta hafði aldrei gerst hjá simpönsunum. „Við vitum ekki hvað þetta er. Alda, við erum komin upp í 800 einingar... eigum við ekki að hætta?“
Alda svaraði ekki, heldur horfði dolfallin á þetta furðuverk snúast í miðjum sýndarheimi.
Tara var ekki viss lengur hvar líkami hennar endaði og allt annað byrjaði. Það var aðeins þessi djúpa, óþekkta en kunnuglega ró.
Sterk og traust tilfinning um að það þyrfti ekki að bregðast við neinu. Eins og allt væri eitt og hreyfðist í einu samfelldu flæði. Eins og Tara væri snúin heim eftir langt ferðalag.
Hjartslátturinn hægði á sér. Vöðvarnir slöknuðu einn af öðrum. Tara sneri sér í hring og horfði upp í himininn. Hún fann ekki fyrir höndunum. Hér var hún ómenguð kjarnavera.
Tara leit á allt fólkið á Microsoft Teams og á Hlyn sem birtist í öðrum glugga, en hún fann ekki sama tog innra með sér lengur. Enga yfirþyrmandi þörf fyrir staðfestingu á hugsunum sinni og líðan.
Þessa ótrúlegu tækni mátti nýta í meira en gróða. Til þess að heila. Til þess að vera. Ferlið snerist ekki um að gleyma, heldur að læra upp á nýtt.
Í fyrsta sinn þrýstu spurningarnar ekki á svör heldur fengu sitt rými í stórbrotnu gangverki. Innsæi. Traust. Flæði. Heild. Kyrrð.
Var Tara laus við óttann? Hún brosti.
Þessi skilningur gæti fært heiminum nýjan frið. Leyft fólki, ekki aðeins að skilja, heldur að finna. Þrátt fyrir ólíkar áherslur og sjónarmið. Þrátt fyrir togstreitu og mótsagnir. Þrátt fyrir ágreining og þjáningu sögunnar.
Hlynur iðaði í stólnum. Ef hann gæti málað mynd af þessari uppljómun, myndi fólk sjá hæfileika hans.
Alda leit á Davíð, sem yppti öxlum. Enginn hafði talað um neinn kristal. Hve fallegur og skínandi… Hve verðmætur.
„Taktu hann, Davíð.“ Frekjuleg rödd Öldu gall úr Teamsglugganum og rauf dulmagnaða þögnina. Orðin virtust bergmála í sinni eigin vigt.
Tara spenntist upp. Lífsmörkin breyttust. Kristallinn blikkaði. Lítil rifa kom á himininn.
„En Alda, við vitum ekkert hvort...“ byrjaði Davíð.
„Davíð, núna! Taktu kristalinn!“ hrópaði Alda.
Skruðningar í hljóðrásinni, síðan fór hljóðið alveg af. Slökktu þau á því? Við tók löng, grunsamleg þögn.
Allt í einu hristist jörðin. Sprungan á himninum stækkaði. Skömmu síðar hófst skyndilegur vélargnýr og stórir, gráir armar liðuðust upp úr sýndarskóginum. Hver armur endaði í hvössum, málmkenndum pinnum sem stungust út í allar áttir.
„Nei!“ hrópaði Tara. Hún reyndi að skýla kristalnum frá örmunum en þeir hrintu henni niður í jörðina.
Pinnarnir á örmunum læstust kröftuglega um kristalinn og boruðu sig inn í hliðar hans með ærandi hvellum. Teamsglugginn dökknaði svo aðeins útlínur Öldu og hinna sáust á meðan. Þegar Tara stóð aftur upp rykktu armarnir kristalnum upp í stækkandi gatið á himninum.
Tara sá stakt brot falla úr kristalnum, og lenda á milli trjátoppana. Myndirnar á greinunum glitruðu í augnablik.
Síðan tók aðeins við stafræn þögn á milli hjartslátta, grafin í aðra, raunverulegri þögn.
Eitthvað mikilvægt var horfið. Tekið frá henni. Ekki aðeins minning, heldur áttaviti. Tara starði á gatið á himninum. Stórt, ágengt gat sem hafði ekki einungis gleypt fortíðina, heldur framtíð hennar líka.
Sýndartrén virtust dekkri og sveigðari, næstum því lifandi. Myndirnar voru daufari, lokaðri. Hvíslið á Teams virtist koma í gegnum þykkan hjúp.
Töru fannst hún snúast í kringum botnlaust tóm. Tilfinningin var eins og líkami hennar teygðist í allar áttir í einu, þvingaðist á milli óteljandi sjónarmiða eins og dofinn og skutlandi pendúll, án þess að geta nokkurn tímann lent. Þessi heimur var orðinn jafn raunverulegur og sá sem hún reyndi að flýja.
„Tara... Þessi var stór, vinan,“ heyrðist í Öldu.
Tara leit á Teams. Hvað höfðu þau gert? Hún horfði á litla kristalsbrotið sem hafði fallið við minninguna af biðjandi stúlkunni. Einu leifarnar af þessum brotna djúplykli. Stúlkan spennti greipar yfir koddanum, en Tara heyrði ekki lengur í henni.
„Tara mín, er allt í lagi?“ heyrðist í Öldu, mýkra en áður.
Þetta fólk hafði notfært sér hana. Þau höfðu ekki aðeins tekið af henni slæma reynslu, þau höfðu rænt af henni eina möguleikanum á bata.
Tara vissi ekki fyrir hvern hún var þarna lengur. Hvernig hún átti að taka ákvarðanir. Það sem áður geymdi þörf á stöðugri viðurkenningu hýsti nú nýja tegund af stefnuleysi. Hylki án innihalds.
Átti Tara að snúa aftur til sama lífs eða halda áfram að fletta ofan af því hver hún var í raun og veru? Hvað gat komið í stað hreyfils úr ótta?
Hún gekk áfram, myndirnar voru óskýrari en áður. Þó kunnuglegt akkeri væri horfið, fann hún að hugsunin hafði aldrei verið skýrari. Hraðari. Sjálfstæðari. Afkastameiri.
Það voru tækifæri í þessari stöðu. Ef heimurinn var aðeins markaður, var komið að skuldadögum. Stundum þurfti að brenna til að skapa ný verðmæti.
Þarna var mynd merkt: „11,2: Óvænt rof eða sundrun á nánu vináttusambandi á mótunarárum.“
Teamsliðið glennti upp augun. Enn fleiri einingar? Hlynur leit glottandi út um stofugluggann. Síðan aftur á skjáinn. Það sem hann gæti málað fyrir peninginn.
Tara dró andann djúpt og um leið varð myndin fyrir framan hana skýr.
Viktoría, fyrsta og eina vinkona Töru í grunnskóla. Minningin var frá deginum sem Tara heyrði óvart Viktoríu segja fimleikastelpunum að Tara væri „skíthrædd við allt,“ og hermdi síðan eftir Töru þegar stóru stelpurnar læstu hana inni á litla klósettinu.
Hve niðurlægjandi. Hálsinn þrengdist, hún fann ekki fyrir fótunum.
„Svo á hún enga vini,“ bætti Viktoría við áður en myndin hvarf undir móðu.
Viktoría hékk eftir þetta með fimleikastelpunum í frímínútum. Hún sagðist vera upptekin eftir skóla. Tara var mikið ein. Jafnvel þó hún segði Viktoríu aldrei frá því að hafa heyrt samtalið.
Tara horfði á Teamsgluggann, þar sem norsku fjárfestarnir kinkuðu kolli. Hvaða einingaverð fylgdi tilfinningu um að vera einskis virði?
Hlynur. Vafði hann henni um fingur sér líka? Á sama tíma og hann sagðist fyrirlíta viðskipti og talaði niður gráðu hennar í markaðsfræðum, héldu hennar laun þeim báðum uppi.
Hún horfði á minninguna eyðast. Tara reyndi að muna eftir tilfinningunni sem hafði fylgt kristalnum, en hún kom ekki. Aðeins löng, hol hreyfing sem geymdi hvorki von né ótta.
Fólk hafði sagt Töru að hætta að hafa áhyggjur, en enginn gat sagt henni hvernig.
Tara sótti fram, leitandi að kvöldi sem hafði verið á stöðugri endurspilun síðan hún var 17 ára.
Þarna.
Vinnufélagar Töru á Teams litu undan, og einn norsku fjárfestanna féll í yfirlið ofan á mitt mahóníborðið. Alda sjálf klökknaði og lagði lófann á skjáinn.
Tara ein vissi hvaða áhrif atvikið hafði haft á traust hennar. Á hvernig hún talaði. Hvernig hún leit í kringum sig þegar hún fór út. Minnkaði.
Þegar myndin eyddist sveigðist flöturinn í ógreinilega, svarta grind. Skuggi mannsins á myndinni rann saman við sortann sem bruninn skildi eftir sig.
Tara mundi ekki lengur eftir röddinni. Lyktinni. Þéttu handtakinu.
Þar sem árum saman höfðu setið skömm og sjálfsásökun, hreiðraði nú um sig hol og hreinsuð skynjun, sem hvorki var né var ekki, eins og sýndarskógurinn fyrir framan hana.
Tara reyndi að muna hvað hafði verið á myndinni. Örugglega eitthvað slæmt miðað við fagnaðarlætin á Teams. Klappinu fyrir henni. Óteljandi einingunum. Árangrinum.
„Tara, þú verður starfsmaður ársins með þessu áframhaldi,“ sagði Alda björt og brosandi.
Hvöss rödd Hlyns barst af næsta tré. Minning frá 35 ára afmæli Töru um daginn:
„Þú ert ekkert að gera þetta fyrir peninga. Þú ert að gera þetta fyrir öryggi sem þú hefur aldrei fundið. Sem þú finnur aldrei, og þú veist það. Nema hjá mér.“
Aldrei fundið? Hún hafði einmitt fundið öryggið. Það var enginn ótti eftir.
Þrusk. Hún leit við.
Hlynur að tala um litinn á móbergsstöpunum á málverki í vinnslu. Hvaða skynhrif hann vildi vekja í hugum fólks. Það var þessi Hlynur sem hún hafð fallið fyrir, sá sem ætlaði að snerta litina innra með fólki. Eins og hann hafði snert við einhverju í henni, sem hún hafði sjálf ekki aðgang að.
Tara reyndi, en hún fann ekki þessa hrifningu lengur. Hafði vélin rænt henni, eða Hlynur séð um það sjálfur? Með því að láta allt snúast í kringum sjálfan sig. Suma daga kom hann engu í verk. Hann þurfti peningana hennar.
Önnur minning. Hlynur að selja frænda sínum fjallamynd með miklum afslætti en kvarta svo undan tilætlunarsemi fólks þegar frændinn var farinn.
Tara hrökk við. Þessi setning Hlyns um tilætlunarsemi geymdi svarið. Aðferð Hlyns var marglaga. Tara sá nú í gegnum svo mörg samtöl þeirra. Persónuleg fórn og umhyggja voru aðeins á yfirborðinu. Undir niðri var stöðugur flótti frá ábyrgð. Vörpun á hans eigin óöryggi yfir á aðra. Yfir á hana.
Þetta var ekki tilfinningasemi, heldur stjórntæki. Vél sem hafði nýtt sér hana. Hlynur og G&G höfðu beitt Töru sömu brögðum.
Samkvæmt Hlyni átti Tara að hætta flóttanum. Ytri lausnir myndu aldrei veita skjól gagnvart storminum að innan. Um leið átti hún samt að finna þetta skjól í honum.
Tara horfði á myndirnar eyðast. 4000 einingar.
Rödd Hlyns enn og aftur, en ekki úr neinni minningu:
„Tara! Tara! Ertu þarna? Þetta er búið.“
Hún datt niður. Opnaði augun. Trjágreinarnar sveifluðust undarlega hægt yfir henni. Litlar, dansandi myndir og svartir blettir á víxl í dáleiðandi mynstri sem dofnaði og hvarf.
Smám saman fann Tara fyrir rúminu aftur. Alda og aðrir fundargestir horfðu á stóran skjá með endalausum talnarunum sem frusu og blikkuðu á víxl. Síðan kom stakur, vélrænn tónn og talnarunan stöðvaðist.
Alda hnyklaði brúnir og Davíð steig tvö skref aftur. Hinir þögðu.
Tölurnar tóku aftur við sér, svo Alda hrópaði í Teamsglugganum:
„Sjáið! Ha,ha! 10.000 einingar í hverju knippi! Tara, þú ert snillingur! Tara, er allt í lagi með þig? Þú varst æði, ég er svo ánægð með þig.“
„Mér er létt en samt svolítið dösuð einhvern veginn,“ sagði Tara.
Hlynur brosti: „Núna líður þér betur, elskan. Núna geturðu komið aftur til mín.“
Líður betur? Tara hugsaði um staka brotið sem hafði fallið af kristalnum. Henni fannst hún horfa á Hlyn í gegnum það. En brotið geymdi ekki heildarmyndina sem kristallinn hafði sýnt henni. Í staðinn sá hún aðeins afmarkað, aftengt sjónarhorn.
Rödd Hlyns hljómaði á annan hátt. Það sem áður hafði bæði togað og ýtt, gerði nú hvorugt.
Hver var arðurinn af þessu 7 ára sambandi? Ef hún hefði getað staðið oftar með sjálfri sér og tekið sínar eigin ákvarðanir hefði gróðinn orðið meiri.
Andlitin á Teams geisluðu. Meira að segja Alda. Tara hafði ekki séð það áður. Maturinn á borðinu fyrir framan þau stóð ósnertur. Eldri kona hrósaði Töru fyrir hugrekkið.
Tara mundi eftir risastórum kristal sem glitraði í loftinu áður en vélin tók hann. Eftir þögninni sem hann skildi eftir. En skipti það máli? Tara var hér. Hún var til. Þau sáu hana.
Um kvöldið sat kærustuparið við eldhúsborðið. Hlynur sagðist skilja hve mikilvægt þetta ferli hefði verið fyrir Töru.
Fyrir hana? Hún var að gera þetta fyrir þau bæði. Gera það sem Hlynur gat ekki gert sjálfur. Hve mikillar rafmyntar virði var allt ruglið sem hann hafði sagt við hana síðustu sjö árin?
Tara leit vandlega á Hlyn. Um stund var hún ekki viss hvort þeirra hafði farið í vélina. Röddin var óbreytt en hljómaði þó öðruvísi, eins og það væri hola í henni miðri.
Tara gat ekkert að því gert, Hlynur var ekki sami maðurinn. Hann hljómaði yfirlætislega:
„Ég veit hvað það er að gefa hluta af sjálfum mér í vinnuna, Tara. En ég hef samt aldrei fundið mig í því að selja það hver ég er, eins og þú gerðir í dag.“
Tara nam orð Hlyns án þess að finna neitt. Átti hún að hlæja? Finna fyrir óöryggi? Rífa sig niður? Hún fann ekki lengur þennan kunnuglega ótta við að vera skilin eftir. Svikin. Smáð. Yfirgefin. Ein.
„Ég vona að þú sért ánægð með árangurinn. Ég sé alla vega engan mun á þér.“
Þetta var dýrt. Tara skynjaði nýtt lag undir orðunum. Þetta var leið til að halda stjórn. Hlynur myndi ekki passa inn í veislu viðskiptaheimsins.
Töru fannst hún aldrei hafa hugsað svona skýrt áður. Hlynur vildi hafa hana næma. Til að geta notfært sér snöggan blett þegar hans eigið óöryggi tók yfir.
Þetta var ekki ást. Þetta var aðferð til að mynda 35,9, vanmátt eða önnur tilfinningaviðbrögð gagnvart ráðandi afli. Hlynur varð að fara. Tara myndi segja honum upp í fyrramálið.
Bíddu nú við… Ný hreyfing innra með henni. Sjö ára sambandið við Hlyn var sami sýndarveruleiki og G&G hafði búið til. Samansafn af tilfinningalega hlöðnum gagnapunktum.
Áralöng gremja, vangoldnar skuldir og tilfinningaleg kúgun... Hve margar einingar myndi það gefa hjá G&G? Af hverju að streitast á móti kerfi, þegar það mátti ná stjórn á því? Enginn kvíði - engin takmörk.
Tara hló svo Hlynur leit á hana eins og hún hefði misst vitið. Hláturinn var flatur og skrykkjóttur, eins og truflun í streymisveitu.
Hlynur var gullnáma. Að hugsa sér hvað Tara gæti grætt mikið á sambandi þeirra um ókomin ár. Nýjar og nýjar minningar fyrir vélina.
Tara fór að skrifa niður leiðir til að bæta upplifunina hjá G&G. Síðan hugmyndir að skemmtilegum vinnuhittingi.
Á meðan hrærði Hlynur í sósunni og hélt áfram að segja Töru hvað henni fannst um þetta allt í raun og veru.
