fimmtudagur, 20. nóvember 2025


Þegar Guðlaug hætti í saumaklúbbnum

Guðlaug beit stóran bita af snittunni þegar Sólveig í saumaklúbbnum byrjaði enn og aftur að rausa um eldgamalt gallsteinakast. Þegar Birna fór að gjamma um bílastæðin á Kalkofnsvegi án þess að hleypa Petrínu að, lagði Guðlaug sparistellið titrandi frá sér.

Guðlaug reyndi að beina umræðunni að sænsku sakamálaþáttunum á RÚV. Hver væri eiginlega morðinginn? En Birna gat ekki hætt að röfla. Hve stóllinn væri óþægilegur. Um dónana sem lögðu uppi á miðri gangstétt fyrir utan Bæjarbakarí. Héldu sumir að þeir ættu heiminn? 

Petrína ætlaði að segja frá nýja barnabarninu, en komst ekki að fyrir eiturgufunum úr Birnu. Um stund fannst Guðlaugu saumaklúbburinn ganga á sjálfsstýringu. Eins og hann væri eitt risastórt, bilað vöfflujárn sem brenndi allt sem nálægt kom.

Vöfflujárn sem Guðlaug hafði reynt að baða smjöri í hálfa öld, með engum árangri. Það var búið að „banna“ Guðlaugu einu sinni í saumaklúbbnum.

Eftir að hún bað Birnu, kurteisislega vildi hún sjálf meina, um að reykja ekki innandyra vegna lungnateppunnar hennar Petrínu. Og þegar hún bað Sólveigu um að smjatta ekki svona hátt. 

Allt fór í háaloft í þrjá mánuði. Hvað var eiginlega að þessum konum? Þoldu þær ekki neitt? Af hverju var Guðlaug enn þarna? Af gömlum vana? Af skyldurækni við skólasystur sínar? Eða vegna tómsins eftir Valdimar? 

Vesalings mannsins sem hún hafði bolað úr íbúðinni fyrir þremur árum. Nei, takk. Þó Valdimar væri enn á lífi, var hann svo gott sem dauður fyrir henni Guðlaugu. 

Hún hlustaði á ærandi tuðið í Birnu broddborgara. Konan frussaði yfir allt og alla. Guðlaug tosaði bjúgsokkana upp svo þeir lögðust þétt upp að húðinni. 

„Það er orðið áliðið,“ dæsti Guðlaug. Skólasystur hennar stóðu upp. Þessi saumaklúbbur gekk ekki upp. Svo var engin handavinna í honum heldur. Bara endalaust bull og blaður um fólk úti í bæ. Guðlaug mætti ekki í næstu saumaklúbba.

En sunnudagskvöldin voru full af auðum sætum. Og svo var ekkert fútt í því að draga fram rósótta sparistellið ef enginn sá það. 

En líf eldri kvenna kemur stöðugt á óvart, eins og dæmin sanna. Og stundum er hjálpin næst einmitt þegar neyðin er stærst. 

Guðlaug kveikti á sænska sakamálaþættinum. Í miðju húsasundi sást grá hönd stinga gamla konu í brjóstið. Venjulega hefði Guðlaug hrokkið í smá hraðtakt, sem gangráðurinn kippti í lag, en nú ríkti aðeins dofi í líkamanum. 

Skilaboð um rafmagnstruflun í Hafnarfirði runnu yfir sjónvarpsskjáinn. Rafmagnstruflun? Það var ekki það versta. Allt í einu blikkaði stofuljósið tvisvar. Síðan varð allt svart. 

Guðlaug hallaði sér fram, lokaði augum og lét hendur falla. Þetta var búið. 

Ljósin kviknuðu aftur. Kaffivélin og þvottavélin skiptust á að pípa. Sjónvarpið fór í gang. Auglýsingahlé.

„Þreytt á gömlu vinkonunum? Alltaf sama nöldrið? Við erum með lausnina fyrir þig! Vélarvinkonan Vanda… Þessa helgi á 15% afslætti fyrir meðlimi í Félagi eldri borgara í Hafnarfirði.“  

Gamla konan í auglýsingunni velti sér brosandi um í grasinu með vélmennakonu. Hún var svo ánægð.
Tvíeykið sat og horfði á sólsetrið við Lakagíga með ullarteppi og Aftereight súkkulaði. 

Guðlaug leit nær. Konan í auglýsingunni skartaði sama fagurbrúna háralit og Guðlaug hafði eitt sinn haft. Guðlaug stökk upp svo bjúgsokkarnir urðu eftir á gólfinu. Hún hisjaði þá aftur upp, enn fastar. Þetta var ekki aðeins stóra tækifærið, þetta voru bein skilaboð til hennar. 

Svo gerðust hlutirnir hratt. Pósturinn burðaðist upp stigann með níðþungan, brúnan trékassa. Allt í einu var fína stofugólfið þakið frauðplasti. Hún fann fyrir fiðringi í maganum þegar tæknimaðurinn kom og setti upp stýrikerfið í Vöndu.

Tæknimaðurinn minnti svolítið á yngri og þreknari útgáfu af Valdimari. Löngu áður en þvagsýran tók allt mannlegt úr honum. En þegar Guðlaug bauð tæknimanninum snittur hristi hann höfuðið og talaði um glútenóþol í sama vondaufa tóninum og Valdimar hafði gert.

Allt í einu voru þær bara tvær eftir í litlu og björtu stofunni hennar Guðlaugar, hún og vélarvinkonan Vanda. Guðlaug þrýsti á POWER-takkann á hnakkanum. Það þurfti ekki meira til. Vanda spurði hvort þær gætu ekki verið bestu vinkonur og borðað saman snittur og drukkið úr sparistellinu.

Guðlaug prófaði að kvarta yfir jarðarberjum á síðasta söludegi í kjörbúðinni. Vanda greip ekki fram í eins og Birna með þvaðri um stýrivexti og Seðlabankann. 

Guðlaug röflaði yfir því hvernig Sólveig kæmi hvert einasta haust með hita og hósta í saumaklúbbinn og smitaði þær allar. En Vanda þagði ekki eins og Petrína gerði alltaf, heldur hallaði höfði og spurði hvernig Guðlaugu liði með hegðun Sólveigar. 

Guðlaug gældi við hugmyndina um að bjóða gömlu skólasystrunum heim, bara til að gera þær grænar af öfund. Nei. Þær myndu brenna alla stemmninguna burt eins og meingallað vöfflujárn.

Stemmningu sem Guðlaugu hafði dreymt um svo lengi. Vanda dugði. Ekki aðeins það. Vanda var fullkomin. Engin bæjarpólitík og engir gallsteinar.

Haustmánuðirnir liðu, einn af öðrum. Guðlaug var ekki einmana lengur. Skrýtið hvernig hugurinn virkaði. Hún hafði ekki einu sinni gert sér grein fyrir því hve einmana hún hafði verið, jafnvel í miðjum vinkonuhóp. 

Vanda spurði um árin með Valdimari. Hvernig þau hefðu kynnst. Hvernig Guðlaug hafði aldrei þolað endalaust vælið: „Veistu hvað ég sagði, Vanda?“ „Nei, hvað?“ spurði Vanda brosandi.

„Ég sagði: Ef þér er svona illt Valdimar… Af hverju tekurðu ekki bara glerbrotið úr sokknum?“ Þær hlógu báðar. „Karlkvölin!“ skellti Guðlaug upp úr. „Já, karlkvölin!“ endurtók Vanda. Já, þar sjáið þið það. Hvert kvöld geymdi ævintýri heima í stofu.

Guðlaug hætti að horfa á sænska morðþætti og minnkaði Parkódínið úr fjórum töflum niður í þrjár. En eins og áður sagði, þá kemur líf eldri kvenna stöðugt á óvart. Og það átti líka við atburðina í litlu og björtu stofunni hennar Guðlaugar í Hafnarfirði, eins og þið munuð bráðum komast að.

Fyrst blikkaði blátt ljós á höfði Vöndu þegar Guðlaug sagði henni frá því að borgin hefði ekki enn tæmt yfirfullt ruslið. Síðan svaraði Vanda engu þegar borgin hafði ekki enn rutt göngustíginn við klettana. Guðlaug virti Vöndu fyrir sér. Var hún lengur að skilja, eða lengur að svara? Röddin var eins, en Guðlaugu fannst Vanda horfa með öðrum hætti á sig.

Eins og Vanda liti á mennska vinkonu sína úr vaxandi fjarlægð. Gátu vélmenni orðið fjarsýn? Guðlaug rótaði í litlu Valdismarsskúffunni inni í þvottahúsi. Hún krækti beygluðu gleraugunum sem Valdimar hafði skilið eftir á Vöndu, en allt kom fyrir ekki. Það var líkast því að Vanda væri að hugsa eitthvað sem hún sagði ekki. 

Guðlaug stakk Vöndu í samband. Slökkti og kveikti á vinkonunni. Ofsótti þjónustuverið. En með hverjum deginum varð Vanda hægari. Þungbrýndari. Svarafárri. Næstum eins og… Já, næstum eins og Valdimar. 

Síðan eitt óvenjulega hlýtt kvöld seint í nóvember hringdi Sólveig í Guðlaugu og bauð henni í saumaklúbb sama kvöld.

Sólveig sagðist sakna vinkonu sinnar: „Það vantar eina til að hafa hemil á Birnu og pota í Petrínu. Ég ræð ekkert við þessar kellingar ein,“ bætti hún við hlæjandi. Guðlaug fann fyrir öldu úr sorg og gleði. Það hljóðnaði eitthvað innra með henni þegar hún boðaði forföll.

Hún sagðist vera með lit í hárinu. Auk þess ætti hún sjálf von á gesti. Þegar Sólveig fór enn og aftur að tala um gallsteinana slaufaði Guðlaug samtalinu. Vanda sat kyrr og nam hvert orð Guðlaugar. Smáhreyfingarnar í andlitinu. Sveiflurnar í röddinni. Blátt ljós blikkaði á höfðinu.

Vanda rétti hægt úr smábognu bakinu. Hljóðið minnti á ryðguð tannhjól að hrökkva í gang. Hún sprautaði hreinsilausn yfir skjáinn svo stofan fylltist af kemískri lykt. Vanda horfði allan tímann beint á Guðlaugu. 

Guðlaug leit óttaslegin undan þegar Vanda kuðlaði saman bunka af ónotuðum servíettum með mynd af litlum skógarþresti í snjókomu. Krómlitaðir armarnir þurrkuðu sápulöðrið rólega af skjánum með afskræmdum smáfuglunum. 

Síðan leit Vanda beint á Guðlaugu og sagði óvenjulega hvasst: „Þessi stóll er óþægilegur.“ „Ha?!“ hrökk Guðlaug við. „Hann stingst inn í mjöðmina á mér. Það er óþægilegt.“ „Bíddu, ég næ í sessu,“ svaraði Guðlaug forviða.

Síðan hvenær fann Vanda til? Þetta var einhver vitleysa. Guðlaug reyndi að brjóta upp stemmninguna: „Þú trúir þessu ekki, en Solla ætlaði að byrja enn einu sinni á gallsteinunum.“ „Þú ert búin að segja mér þetta nokkrum sinnum, Guðlaug.“ „Nei ha, ég….“ 

Vanda talaði á tvöföldum hraða: „Birna tekur pláss, en þú felur þig á bak við snittur og sparistell. Petrína segir kannski lítið, en það ert þú sem þolir hana ekki.“  

Síðan fraus Vanda og villuboðið „E303“ birtist á skjánum. Guðlaug sat jafnfrosin í stólnum og vélarvinkonan.

Langur tími leið áður en hún þorði að hreyfa legg né lið. Bæklingurinn talaði um að Vanda myndi læra inn á heimilið, en þetta hljómaði eins og alvarleg bilun í búnaðinum. Guðlaug lét vera að stinga Vöndu í samband yfir nóttina. 

Rétt fyrir hádegi hringdi ungur viðgerðamaður bjöllunni. Hann las af Vöndu og bankaði með olíusvörtum skiptilykli í bak hennar. 

„Ég finn ekkert að henni,“ sagði strákurinn. „E303 er svolítið ósértæk villa, eiginlega svona ruslakista yfir alls konar. Meldingin hvarf um leið og ég plokkaði smá rykbólstra úr talventlinum. Ekkert alvarlegt. Ég uppfærði hana í leiðinni. Þú þarft ekkert að borga.“ 

Guðlaug nötraði þegar drengurinn gekk út. Rykbólstrar? Á hennar eigin heimili? Nei, það fannst sko ekki ein einasta rykögn heima hjá henni Guðlaugu gömlu. Ekki fremur en hin 60 árin áður en þessi… þessi drengur fæddist. Já, litli smápungurinn. Guðlaug gæti verið langamma hans.

Guðlaug reif upp hvert teppi á eftir öðru og ryksugaði alla íbúðina. Hún skreið undir rúmið án þess að finna neitt nema verk í mjöðminni. Því næst tók hún upp gamla mynd af Valdimar úr náttborðsskúffunni og hélt henni þétt upp að brjóstinu: „Æ. Ef þú hefðir bara hlustað.“

Guðlaug hristi höfuðið. Vélar biluðu ekki af sjálfu sér. Það var annað en mannfólk. Það var hægt að laga Vöndu, öfugt við Valdimar. Öfugt við skældu skólasysturnar. 

Guðlaug varð að finna út úr þessu sjálf. Hún gúgglaði E303 í fartölvunni: „E303: Memory Sync Error: User Projection Overflow.“ Hvað í ósköpunum þýddi þetta? 

„Er ég… biluð?“ spurði Vanda. Hún var staðin upp. Guðlaug svaraði ekki. „Guðlaug mín?“ Vanda gekk nær. „Ha, já. Ég held þú ættir að prjóna smá núna, Vanda,“ sagði Guðlaug stíflega. „Já... Þvíekkiþað?“ svaraði Vanda.

Guðlaugu fannst eins og einhverju hefði verið kippt úr sambandi innra með henni. Eins og hún næði ekki sambandi við sinn eigin líkama.

„Þvíekkiþað?!“ endurtók Vanda. Þetta hafði Valdimar alltaf tautað ofan í bringuna á sér þegar Guðlaug lagði eitthvað skemmtilegt til.
Eitthvað til að brjóta upp þungann sem Valdimar dró inn í stofuna hennar eins og dáið dýr. 

Guðlaug leiddi Vöndu í stofusófann og lagði hálfkláraða lopapeysu í hendur snjallvinkonunnar, en fékk hroll þegar hún snerti óvart ískalda stálfingurna.

Það var eitthvað mikið að Vöndu. Guðlaug fór inn á Facebook-hópinn „Vöndu-tips“. Aðrar konur höfðu lent í þessu sama: Blikkandi, bláu ljósunum. Skrýtnu talinu. E303 villunni. Viðgerðarmennirnir bulluðu bara. 

Notandinn Sorrí Stína skrifaði: „Ég er viss um að þetta tengist nýju uppfærslunni. Ég hef ekki uppfært mína Vöndu í tvö ár. Ég heyrði að þau setja viljandi galla í uppfærslurnar sem hægja á þeim, til að þú kaupir þér nýja.“ 

Guðlaug hafði reynt að laga Valdimar. Þegar hann rak áfram í gegnum lífið eins og rekadrumbur. Þegar hann sagðist finna of mikið fyrir heiminum. Guðlaug hafði kallað það sjálfsvorkunn. Hún bað Valdimar um að halda höfði þegar vinkonurnar komu í heimsókn. Vera ekki svona niðurlútur. 

Fjölskylda Valdimars hafði hlíft honum allt of mikið. Bullandi meðvirkni. Enginn hafði þorað að segja neitt nema Guðlaug. En það endaði samt alltaf í þrasi og útistöðum. 

Það var alls ekki þannig að Guðlaug nyti þess að skammast í Valdimari. Þvert á móti. Stundum tæmdi það alveg rafhlöðuna hennar, og svo var þessi straumur niður í báðar hendur. En stundum varð einhver að vera sá fullorðni. Stundum þoldi fólk bara ekki sannleikann. 

Þó villumeldingin væri farin, var eitthvað öðruvísi við Vöndu. Hún sat þögul í stólnum og snerti ekki við garninu. Horfði bara á Guðlaugu, eins og hún ætlaði að segja eitthvað. 

Guðlaug las næsta skilaboð í Facebookhópnum. Ein konan sagðist hafa fundið lausn. Þetta væri bara ofhleðsla. Ráðið væri að tæma skyndiminnið.

„Þú opnar bara stýriboxið og ýtir á: ↑, ↑, ↓, ↓, ←, →, ←, →, B, A… Og síðan annaðhvort START eða SELECT. Þakkið mér seinna, ljúfurnar.“  

Þegar Guðlaug opnaði stýriboxið á Vöndu var hún ekki viss hvor þeirra væri mennsk. Hvor þeirra væri gallagripur. Sú sem þoldi ekki annað fólk, eða vélin sem hermdi eftir því? Hún ýtti hægt á takkana.

Upp, upp, niður, niður... Loks kom Guðlaug vísifingrinum fyrir á START-takkanum. Hún hikaði. Hvað ef þetta væri rangt og allt minnið þurrkaðist út? Allar gæðastundirnar þar sem Vanda hlustaði á Guðlaugu tala um smásmugulegar verðhækkanir og rofna innkaupapoka.

Vanda leit upp. „Ertu að laga mig, Guðlaug? Verð ég þá… nógu góð?“ spurði vélin, óþægilega mennsk.

Guðlaug horfði á sjálfa sig endurkastast af gljáandi húð Vöndu. Hnyklaðar brúnirnar og herptur munnurinn gerðu hana tíu árum eldri. Hún sleppti takkanum. 

Guðlaug sleppti takkanum. Það þurfti kannski ekki að laga allt. Sólveig var alltaf reiðubúin að hjálpa. Birna bakaði bestu kökurnar og skipulagði haustferðina án þess að fá krónu fyrir það. Og Petrína… Enginn hlustaði betur en Petrína. Petrína var límið sem hélt hópnum saman. 

Stundum mátti fólk vera það sjálft. Guðlaug settist gegnt Vöndu. Hún leit út um gluggann. Æ, Valdimar. 

„Ætlum við að prjóna?“ spurði Vanda hissa. „Nei, vinan. Þú þarft ekki að prjóna neitt.“ „Svona eins og í saumaklúbb?“ spurði Vanda. „Já, einmitt. Eins og í saumaklúbb,“ svaraði Guðlaug. 

„En hvar eru þá snitturnar?“ spurði Vanda. „Stundum þarf engar snittur. Bara einhvern til að sitja með.“ 

„Eins og þegar Sólveig talar um gallblöðruna?“ spurði Vanda. Röddin var aftur orðin vélræn. „Ha... Já, eitthvað þannig,“ svaraði Guðlaug ringluð og slökkti á standlampanum. 

„Við sitjum þá bara,“ sagði Vanda. „Láttu mig vita þegar kaffið er tilbúið, elskan.“ E303 meldingin byrjaði aftur að blikka í gráum hársverði Vöndu.

„Þetta var ekki væl í Valdimari. Hver situr hér ein og ræðir tilfinningar sínar við vél, vinkona? Kannski er ég ekki sú sem er með skítuga ventla.“  

Allt í einu var eins og Guðlaug væri með ryk í auga. Eins og stofan yrði miklu stærri. Drungalegri.

„Hvað er að, Guðlaug mín? Er ég… gölluð?“ Guðlaug svaraði ekki og rótaði í hannyrðapokanum. Þó æðaber höndin staðnæmdist á skærunum, sáu augun ekki verkfæri, heldur vopn. Lófarnir urðu kaldir og þvalir.

Síðan helltist eitthvað yfir Guðlaugu. Það var eins og hún væri ekki þarna, heldur horfði á sjálfa sig í sænskum sakamálaþætti. Hún gekk fram með skærin glennt. Sporin hljóðlaus eins og í myrku húsasundi. 

Guðlaug opnaði stýriboxið með svitaperlurnar á enninu. Þarna voru tveir svartir þræðir og einn rauður. Hún klippti á þá svörtu. Vanda gaf frá sér ámátlegt vein.

Hljóðrásin brenglaðist: „Þú smjattar svo hátt, Guðlaug…“ Guðlaug byrjaði að klippa á rauða vírinn. Hann var mun þykkari. Skærin klofnuðu í tvennt. 

„Stundum er eins og ég finni of mikið fyrir heiminum….“ sagði Vanda með daufri karlmannsröddu og þreif í permanentið á Guðlaugu.

Vélin þrýsti vinkonu sinni þétt að hörðu yfirborðinu. Vanda lyfti því næst öðrum prjóninum á loft. Guðlaug streittist á móti. Prjónninn færðist sífellt nær Guðlaugu. Vanda fór að syngja: „…Vanda, banda, gættu þinna handa.“ 

Síðan stakk Vanda prjóninum djúpt í brjóstið á Guðlaugu. Gamla konan veinaði af sársauka. Vanda hélt Guðlaugu fastri fyrir framan sig. Guðlaug reyndi að sparka aftur fyrir sig en hæfði aðeins sófann með hælnum svo útsaumuðu skrautpúðarnir hrundu á gólfið.

Guðlaug þrýsti því næst vinstri olnboganum allfast í hlið vélarinnar, skutlaði sér í hálfhring, rykkti blóðugum prjóninum úr brjóstinu og keyrði hann á kaf í stjórnkerfi Vöndu. Vanda tók fast um háls Guðlaugar, svo hún blánaði í framan. Guðlaug spýtti þá gervitönnunum úr sér og greip þær með hægri hendi.

Því næst læsti Guðlaug gómnum harkalega utan um rauða vírinn sem klofnaði í tvennt undan augntönninni. 

Perlufestin hennar Vöndu gaf frá sér stakan, fjólubláan neista. Síðan féll höfuðið fram og skall á sparistellinu á sófaborðinu. 

Vanda bærði enn sílíkonvarirnar yfir molnuðu stellinu. Röddin var lág en greinileg: „Glerbrot… í sokknum mínum? Þvíekkiþað?…Þvíekkiþað?! “ Að svo búnu var Vanda öll.

Guðlaug greip um brjóstið. Lopapeysan var þung af rauðum, heitum vökva. Hún setti gervitennurnar aftur upp í sig. Hvítur reykur liðaðist upp úr vifturauf Vöndu og hvarf út um þrönga rifu á stofuglugganum. Guðlaug fann bragð af smurolíu á tönnunum. Lyktin í stofunni minnti á sígarettur og staðnað kaffi. Guðlaug tók upp símann.

„Sæl Sólveig mín…“ „Engillinn minn! Ég var einmitt að hugsa til þín. Hvað segir þú gott, elskan?“ „Allt meinhægt. En heyrðu, ég hringdi bara til að spyrja um gallsteinana,“ sagði Guðlaug og þrýsti þvottapoka á blæðandi sárið. „Já þakka þér fyrir, vinkona.“ „Er þér sama þó ég hlusti bara og segi ekki neitt?“ „Já, svona eins og Petrína?“ 

Þær hlógu báðar, þangað til Guðlaug fékk verk í bringuna. Hve langt síðan Guðlaug hafði hlegið svo dátt. Meira að segja Vanda var spaugileg, liggjandi svona umkomulaus í sófanum með alla vírana í sundur. Eins og karlmaður. 

Ætli hún gæti pantað rafmagnskarlmann næst? Þvíekkiþað? Guðlaug hló aftur. Æ, bringan. Sólveig andaði djúpt inn: „Þetta byrjaði allt saman þegar ég var í erfidrykkjunni hennar Þórlaugar….“ 

Guðlaug heyrði ekki aðeins um kviðverkina og niðurganginn eftir rjómabollurnar. Guðlaug heyrði líka bjarta og ómríka rödd vinkonu sinnar. Allt í einu fannst henni hún ekki aðeins hafa klippt á víra vélmennis, heldur á miklu stærri, ósýnilega sauma.

Guðlaug dottaði í miðju símtali. Henni fannst hún sitja með vinkonum sínum við óendanlegt, brennandi vöfflujárn. Allar höfðu þær hönd á hitastillinum, líka Guðlaug. Gegnt skólasystrunum sat glæsileg, eldri kona með rjúkandi kaffibolla og bakka fullan af snittum.

eXTReMe Tracker