sunnudagur, 19. október 2025


Trefillinn

Áður en Unnar hljóp út vafði hann gulum trefli vandlega um hálsinn. Einum af mörgum sem móðir hans hafði prjónað í sama lit. Halla dóttir hans þreyttist ekki á að benda föður sínum á hve fáránlegt væri að hengja sig í þessu snjáða garni allan ársins hring, sama þó sólin skini. „Svo er hann á litinn eins og piss,“ sagði hún.

En þegar Unnar nálgaðist götuna myndaði trefillinn mjúkan skjöld fyrir kunnuglegum, köldum tönnum. „Bílarnir koma úr öllum áttum Unnar minn, eins og skríðandi dýr,“ hafði móðir hans sagt við gangbrautirnar. „Aldrei sleppa hendinni.“

Unnar gekk yfir svarthvíta gangbrautina. Hinum megin götunnar var plakat með mynd af seiðkonu sem Unnar veitti enga eftirtekt. Ef það hefðu fylgt leiðbeiningar með einkadótturinni. Tíu bindi um hvernig ala eigi upp börn.

Samt. Voru það ekki aðrir foreldrar sem þurftu leiðbeiningar? Þessir sem mættu aldrei á foreldrafélagsfundi og leyfðu börnum sínum að valsa um dimm húsasund og góna á drápstölvuleiki fram undir morgun.

En því traustari sem rammi Unnars var, því meira streittist dóttirin á móti. Var kærasti hennar, Andri eða hvað hann hét nú, angi af því sama? Skilaboð í formi gervitöffara með vaxtaræktarvöðva og liðandi snákahúðflúr á hálsinum.

Unnar staðnæmdist við annað rautt ljós. Bílarnir þutu hvæsandi hjá. Hvað sá Halla við þennan dreng? Var þetta eðlilegt mótþróaskeið nítján ára stúlku eða hafði Unnar óafvitandi stýrt dóttur sinni þangað sem hann óttaðist mest?

Unnar leit á rafmagnskassa. Annað plakat af sömu seiðkonu. Fleiri á næstu ljósastaurum. Undir myndinni var texti sem las: „Vandræði með unglinginn? Úlfhildur Brekkan, uppeldiskuklari.“ 

Hvaðan komu þessar auglýsingar? Ef það væri hægt að galdra lélega kærasta í burtu. Tengdasynir áttu að veita öryggi, ekki grafa undan því. Aldrei hefði Unnar ögrað móður sinni með uppreisnargjarnri tengdadóttur. 

Unnar fann smápeningana fleyta kerlingar í leðurpyngjunni þegar hann stökk yfir síðustu götuna. Halla gerði grín að honum fyrir að burðast á milli bæjarhluta með fullan peningaskáp í vasanum. En þegar símarnir og kortin virkuðu ekki? 

Halla var enn of ung. Hún hafði ekki lent í neinu stórvægilegu. En þurfti það endilega að gerast svo hún byrjaði aðeins að gæta sín?

Unnar staðnæmdist fyrir framan leiguíbúðina. Stofuljósin kveikt. Blátt mótorhjól fyrir utan. Tengdasonurinn var greinilega heima. Unnar lokaði augum. Honum fannst hann finna aftur fyrir hörðu gúmmísætinu titra í hægri hendi og köldu járninu í þeirri vinstri.

Unnar herti trefilinn. Hlýtt og ljóst handverkið, prjónað konu eftir konu í gegnum aldirnar til að vernda börnin fyrir bítandi frosti, lagðist þétt upp að sláandi hálsæðunum.

Einn hring um hverfið áður en hann myndi banka. Kannski hyrfi mótorhjólið á meðan fyrir tilstilli töfra. Hókus, pókus, fílí-láttu þig hverfa úr lífi dóttur minnar.

En þegar Unnar gekk fyrir horn feykti miskunnarlaus vindur trosnandi prjónaskapnum upp í loftið. Þvaglitaður trefillinn tókst á loft og bylgjaðist í loftinu. Unnar hljóp á eftir og óskaði sér að allt þetta rugl myndi hætta.

Nístandi kuldi aftan á hálsinum. „Ertu að leita að þessum?“ spurði hvítklædd kona með agnarlítil augu og enn minna nef, sú sama og á auglýsingunum. 

„Hvað ef tengdabarnið er ekki raunverulega vandamálið?“ bætti hún við. Unnar kom ekki upp orði. Var þetta sölutrix sem hún notaði á alla eða las hún í alvörunni hugsanir? Tengdabarn... Snjallt. Hún gætti sín á að nota hlutlaust orð.

„Ahh... Ég sé að þessi trefill er mikilvægur. Hvað ef hann fengi rödd? Hlýja, styðjandi nærveru, sem enginn heyrir nema þú?“ sagði seiðkonan.

Unnar virti konuna fyrir sér. Augun og nefið voru svo pínulítil að skakkur munnurinn líktist risastórum, botnlausum pytti. Hafði ósk Unnars ræst eða gerði örvæntingin hann ginnkeyptan fyrir einföldum töfralausnum?

Kuldinn gróf sig inn í herðarnar eins og agnarlitlar skrúfur í frosinn trjádrumb. „Geturðu þá látið hann hvísla svona uppeldisráð?“ spurði Unnar. Seiðkonan brosti. 

Unnar valdi því næst mjúka kvenrödd úr hljóðdæmum sem seiðkonan lék fyrir hann af eldgömlu segulbandi. Væri þetta eintómt bull var þetta þó metnaðarfyllsta bull sem hann hafði séð. Unnar hitnaði í framan.

 „Geturðu líka gert hana, hvernig á ég að orða það... svolítið svona... þokkafulla? Með svona þykkt, krullað hár og líka þú veist... eða sko í la-laginu eins og, eða þú veist...“ byrjaði hann.

„Heyrðu góði, ég rek ekki þannig þjónustu,“ svaraði seiðkonan og hvessti pínulitlu augun. Síðan frussaði hún úr hlátri svo gljáandi, klofinn úfur rykktist til og frá yfir ólgandi kokinu.

Unnar mátti ekki blikka auga þegar hún blés í langa og mjóa flautu. Trefillinn hitnaði og hristist á hálsinum við djúpan tón. Síðan fylgdu háir og hraðir tónar og trefilinn tókst mjúklega á loft. Þetta virkaði! Eða?

„Nú þarftu að vera alveg kyrr, allt í lagi?“ varaði seiðkonan við. En þegar laus þráður úr treflinum straukst við nefið á Unnari hnerraði hann á sama augnabliki og seiðkonan blés ákafan lokatóninn.

Fyrst varð allt svart. Síðan var Unnar allt í einu staddur fyrir utan leiguíbúð dóttur sinnar. Trefilinn var horfinn, en samt var enginn kuldi á hálsinum. Aðeins smávægileg þyngd á hægri öxl, næstum eins og.. gler?

Unnar leit varlega til hliðar. Agnarlítil mannvera horfði til baka úr lítilli, opinni krukku. Þetta var snyrtilega klæddur maður með há kollvik og óvenjulega máttugt yfirvaraskegg sem hringaðist yfir báðar kinnar eins og öldur í stormi.

„Hinir veikburða kjósa að kafna í öryggi fortíðarinnar frekar en að horfast í augu við kulda lífsins.“ Maðurinn talaði á þýsku, sem Unnar skildi einhverra hluta vegna allt í einu. Látbragðið var ákveðið en gamaldags.

Hvar hafði Unnar séð þennan mann áður? Augun voru djúp en brunnu af næstum óþægilegri ákefð. Áttu þetta ekki að heita hlý og hughreystandi ráð? Þetta hafði greinilega mislukkast við hnerrann. Hann kíkti í veskið, allir seðlarnir voru horfnir.

Unnar gekk burt frá íbúð dóttur sinnar, í áttina sem seiðkonan hafði birst. Bölvaður svikahrappurinn. Að hann skuli hafa fallið fyrir...

„Heigull!“ hrópaði litli maðurinn.

„Hmpf... þú ert ekki einu sinni raunverulegur,“ tautaði Unnar og hraðaði skrefum.

„Raunverulegur? Eins og úldinn trefill sem móðir þín prjónaði?“ spurði maðurinn hortuglega.

„Rugl... Það þurfa allir leiðsögn,“ svaraði Unnar.

„Meinarðu þá leiðsögn sem þú vilt heyra?“ sagði maðurinn í krukkunni með starandi augnaráði.

Unnar reyndi að ýta krukkunni af öxlinni en hún var blýföst við hann.

„Heyrðu þú þarna, hver sem þú ert. Ég þarf bara einhvern til að segja mér að hafa ekki áhyggjur. Að ég sé á réttri leið með þetta allt.“

„Með því að labba í burtu frá heimili dóttur þinnar? Af því þú sást hjól kærastans fyrir utan? Hver var það aftur sem kenndi þessari stelpu að hjóla? Heigullinn sjálfur?“

Unnar fann hita vefjast um brjóstholið. Hart gúmmí í hægri hendi, kalt járn rauða barnahjólsins í þeirri vinstri. Hún mátti ekki detta.

Unnar sneri við og bankaði á dyrnar. Fyrst heyrðust raddir, síðan tók við þögn. Andri tengdasonur opnaði dyrnar, ber að ofan og greinilega nývaknaður þó klukkan væri orðin eitt.

„Blessaður, vinur.“

Vinur? Unnar reyndi að leyna ógeðiskenndinni. Hvern var tengdasonurinn að kalla vin? Unnar reyndi að horfa hvorki á snákahúðflúrið á hálsinum né að telja línurnar á skornum kviðnum.

„Hæ, hæ, má ég koma inn?“ sagði Unnar og laumaðist til að þefa eftir vímuefnum af honum og íbúðinni til skiptis. Bara einn hjálmur. Keyrði hann ekki um með Höllu aftan á hjólinu?

Maðurinn á öxlinni spratt upp: „Nei! Ekki biðja um leyfi í þínu eigin lífi! Segðu hvað þú vilt!“ Orðin bergmáluðu innan úr krukkunni svo lítil sprunga myndaðist á botni hennar.

Unnar rétti úr sér. „Ég er kominn til að tala við dóttur mína. Farðu í skyrtu, drengur.“

Andri glotti, steig til hliðar og fór að vefja sér tóbak.

„Pabbi? Hvað er í gangi?“ Rödd dóttur hans innan af klósetti. Hljóð í rennandi vatni. Var hún að fela eitthvað?

„Halla mín,“ sagði Unnar í gegnum baðherbergishurðina. „Ég er hræddur um þig.“

Þögn.

„Sauðir skíta í sama gras og þeir éta,“ hló karlinn í krukkunni. Sprungan á botninum dreifði úr sér með fíngerðum litlum nálum sem stungu sér upp þunna glerveggina.

„Þetta er ekki að hjálpa,“ urraði Unnar yfir öxlina.

Andri hristi höfuðið og stakk tóbakinu undir vörina: „Rólegur, þetta er bara munntóbak. Það er ekki eins og ég sé að taka spítt hérna.“

„Þú ert ekki bara hræddur um dóttur þína,“ heyrðist í fyrirlitlegum tón innan úr titrandi krukkunni. „Þú ert hræddur við að stíga af þessum litla, snjáða bletti sem þú kallar hreiður. En veistu hvað?“

„Hvað?“ spurði Unnar.

„Hvað hvað?“ spurði Andri.

Karlinn í krukkunni fékk sér sæti á sprungunni og sagði rólegar en áður: „Þó snákurinn nái ekki ungum hegrans, svelta þeir ef enginn skreppur á eftir æti.“

Unnar leit á hlykkjótt húðflúr Andra og fannst um stund allur tengdasonurinn hlykkjast um í dáleiðandi, gljáandi hreistri. 

Hann svimaði, settist á trékoll og endurtók í hálfu hljóði: „Snákurinn nær ekki ungunum. Snákurinn nær ekki ungunum.“

„Djúpt... En snákar þurfa samt að borða,“ hló Andri og opnaði hvæsandi Pepsidós svo tengdafaðirinn hrökk við.

Vatnið hætti að renna inni á baði. Dyrnar opnuðust.

Halla horfði spyrjandi á föður sinn og kærastann til skiptis. Hárið svart og blautt. 

„Bíddu pabbi, trefillinn... Hvar er trefillinn þínn?“ spurði Halla.

„Manstu þegar ég kenndi þér að hjóla?“ spurði Unnar.

„Hjóla?“ spurði Halla.

„Já. Ég gat ekki sleppt hnakknum, því ég vissi að þú myndir detta,“ sagði Unnar.

„Heppin,“ sagði Andri. „Pabbi minn hélt aldrei.“

„Pabbi, hvað ætlarðu að gera þetta lengi? Þú veður hérna inn og... Það er allt í lagi hérna sko.“ Rödd Höllu sveiflaðist á milli samúðar og pirrings. Hún vafði handklæði um drjúpandi hárið.

Karlinn í krukkunni spenntist upp. Úfið yfirvaraskeggið skall hamslaust á skörpum andlitsdráttunum. Hann hækkaði róminn með hverju orði, uns orðin loguðu: 

„Núna, Unnar, núna! Rístu upp núna... eða endurtaktu sömu úrkynjuðu þvæluna aftur og aftur til eilífðarnóns!“

„Halla,“ sagði Unnar. „Ég hélt svo fast í hjólið að þú dast þegar ég hafði ekki undan hraðanum. En síðan fattaði ég. Ég var ekki að halda fyrir þig, heldur mig. 

„Pabbi....“ sagði Halla.

„Ég sleppti. Þú dast. Byrjaðir aftur. Dast. Ég fann höggin sjálfur. En á leiðinni heim hjólaðir þú á undan mér. Alla leiðina heim,“ sagði Unnar.

„Pabbi, hvað er þetta? Varstu að drekka? Hvar manstu eftir að hafa séð trefilinn síðast?“ Halla fletti upp númeri móður sinnar í farsímanum en fingurnir skoppuðu bara á skjánum.

„Eini trefillinn sem ég þarf er sá sem þú vefur um þig,“ sagði Unnar.

„Það fást treflar hérna í Hagkaup,“ sagði Andri.

„Ég fer núna,“ sagði Unnar og fann hvernig hendurnar slöknuðu.

Dyrnar lokuðust. Andri ranghvolfdi augum. Halla hringdi áhyggjufull í móður sína.

Unnar staðnæmdist við mótorhjól tengdasonarins. Hann snerti hnakkan og stýrið. Gamalkunnur kuldi vafðist um hálsinn. Umferðin virtist æða áfram í bakgrunni.

„Flott. Nú heldur hún að ég sé orðinn klikkaður,“ sagði Unnar yfir molnandi krukkuna.

„Velkominn í hópinn. 150 ár og fólk heldur mig enn klikkaðan,“ heyrðist úr krukkunni. 

Síðan starði litli maðurinn beint á Unnar: „En hún á ekki að skilja þig, heldur sjálfa sig.“

Maðurinn stökk upp úr brotunum og setti upp lítil, kringlótt gleraugu:

„Ungt fólk hlustar á þá sem eru ekki á flótta... líka þegar heimurinn er kaldur og hvæsandi.“

Maðurinn sneri upp á yfirvaraskeggið og leystist síðan hljóðlaust upp í gul og hreistruð form sem vöfðu sér í andartak um háls Unnars og runnu því næst niður göturnar eins og óteljandi hamslaus skriðdýr.

Unnar dustaði ósýnilegt ryk af öxlinni. Hann leit í kringum sig. Plakötin af spákonunni voru horfin af veggjum og staurum. Eftir sátu aðeins þrír daufir punktar og stór, bogin lína í laginu eins og skakkur, brosandi munnur.

Á leiðinni heim fannst Unnari lítið, rautt hjól hverfa á bak við hvert horn. Þó hljóðin í umferðinni væru há og hvell, beit kaldur gusturinn hann ekki lengur.

laugardagur, 11. október 2025


Áhöldin

Mímir strauk yfir fyrstu ljósmyndina af Tryggva. Fingurgómarnir námu ekki lengur slétt yfirborðið. Þessar hendur tilheyrðu einhverjum öðrum. Mímir opnaði hvert nammibréfið á eftir öðru. Bragðið lagði daufa slæðu yfir langan og mjóan ganginn.

23 ár í dag síðan Mímir þurfti að hlaupa á hinn enda sjúkrahússins þar sem barnsmóðir hans beið. Brátt stæði Tryggvi sonur hans á sömu skurðstofum og Mímir hafði sjálfur helgað sitt fyrra líf. Tryggvi. Ætlaði sonur hans að hreinsa hendur þeirra beggja? Hann hafði keypt þessa dellu sjálfur.

Mímir rölti inn á bað. Hann reyndi að hugsa ekki um skurðstofuna þegar hann veiddi lítil skæri úr snyrtitöskunni. Ekki hjálpaði daufur keimur af sápu og spritti sem hafði fylgt honum síðan snemma í hjúkrunarnáminu.

Hann sá fyrir sér svip Hákons skurðlæknis á bak við grímuna. Hákon sagði aldrei neitt um málið, sem var eiginlega verra en skammir. Vinaleg þögn Hákons var þyngri en nokkur reiðilestur.

Var þögnin af umhyggju eða sjálfsvörn? Líklega hið síðarnefnda þar sem Hákon hafði aldrei hringt í þessi tvö ár síðan hann var látinn fara. Hákon var líka dreginn inn í þetta. Þeir voru teymi. Hákon vissi um dofann.

Teymi. Nei. Hver maður stendur aleinn í hvítum hönskum yfir skurðinum sem kallaður er líf. Mímir kenndi Tryggva syni sínum að vinna með höndunum. Líka þegar hann hafði sofið lítið eftir langar vaktir. En hann kenndi syni sínum aldrei að leggja hendur á neinn. Þetta voru ekki hans gen.

Þegar þeir Hákon opnuðu sýktan skurðinn aftur viku síðar veiddi Hákon upp slímugan bómullarþráð sem aldrei ætlaði að enda. Ef Mímir hefði talið allt einu sinni enn. Hann klippti neglurnar. Hversu flókið var að telja upp að sjö? Tryggvi gat talið upp að sjö þegar hann var tveggja ára.

Enginn vissi hvort sýkingin tengdist grisjunni, en Mímir var viss um það. Samt. Ein aum grisja. Skárra ef þetta hefði verið heilt áhald. Þá hefði enginn efast. Sjúklingurinn lifði en var bundinn við hjólastól eftir þetta.

Mímir var ekki einu sinni illa sofinn eða þreyttur þegar næsta atvik henti. Hann fann bara ekki hvar skurðhnífurinn var. Atvikunum fjölgaði. Símtöl. Raddir á göngunum. Eftir brottreksturinn hætti Mímir alveg að mæla blóðsykurinn.

Stóri skugginn í baðherbergisspeglinum var ekki hann. Einhver hafði plantað niður eftirlíkingu þar sem áður dafnaði farsæll skurðhjúkrunarfræðingur. Nákvæmar hendur sem gættu sjúklingsins þegar hann gat það ekki sjálfur. Hreinar hendur. Góðar hendur. Hvernig gátu þær tengst slóð alvarlegra atvika?

Sápa, spritt og rennandi vatn. Kunnuglegar hreyfingar við vaskinn. Hákon að ræskja sig og segja eitthvað. Mími fannst hann sjá lítinn hvítan þráð sveiflast til á botninum. Hvað batt föður og son? Sykurmóðan lagðist fyrir augun eins og mjúk grisja. Af hverju hafði hann ekki mælt sykurinn svona lengi? 

Tvær hendur teygðu sig varlega úr móðunni. Unglegar og fimar hendur í mjólkurhvítum hönskum. Hendurnar svifu í hvítu myrkri þar sem brjóstkassinn hefði átt að vera. Önnur hélt á skærum, opnaði þau og lokaði með hægum takti. Hin studdi við stirndan bakka með sex glærum áhöldum.

Þegar hendurnar tóku upp skærin, mundi Mímir eftir þrýstingnum á fingrinum þegar hann klippti á fölan naflastrenginn hans Tryggva fyrir tuttugu árum. Nokkrir fingur sonarins höfðu verið krepptir frá fæðingu, eins og hann héldi sjálfur á ósýnilegum skurðhníf. Hver hafði rétt syninum hnífinn sem skar á þráð bekkjarbróðurins?

Mímir hafði sannfært sig um að allar aukavaktirnar hefðu verið fyrir þau. Hann sá það ekki þá, en skurðstofan varð að skjóli. Stað þar sem hvert handtak skipti máli, ólíkt óreiðunni handan litla gluggans. Óreiðunni eftir vakt. Hliðarmynd hans fyrrverandi sem þeysti um gólf og sagði hvernig Mímir ætti að ala upp son sinn. Son sem átti að hafa verið gerandi í einhverju eineltismáli. Mímir herti takið um skærin. Í hvaða vef hafði hann flækt hendur sínar? Gerði Tryggvi þetta í alvöru?

Mímir reif upp nýjan kleinuhringjapakka af klunnalegum ákafa. Glær þoka færðist yfir myndirnar á veggjunum. Guðsgafflarnir hurfu inn í sykrað ský sem tók á sig útlínur konu. Því fylgdi ákveðin nautn þegar allt raknaði upp í rennandi hvítar rákir. Þegar ekkert bast engu og eilífðin flaut á milli fingranna.

Mímir leit aftur í spegilinn inni á baði. Meiri þoka en áður. Skærin voru hulin en nú sást þráðurinn. Ljós strengurinn vafðist um sjálfan sig. Titringur í lófanum. Hafði einhver lagt skærin í hendur Mímis, eða hélt hann á þeim allan tímann? Hann mætti alhvítum augum yfir stórum gráum sloppi í speglinum.

Kunnuglegur þrýstingur á baugfingur þegar hann glennti skarpar brúnirnar í sundur. Hljóðið í soginu. Hanskarnir í speglinum drógu upp fölan, slímugan þráð. Var þetta naflastrengur eða raknandi bómullargrisja?

Mímir lagði skærin upp að þræðinum. Málmurinn dansaði við sláttinn í strengnum. Grímuklætt andlitið í speglinum kinkaði kolli. Hver maður var einn í sinni aðgerð. Klippa.

Þráðurinn titraði undan hvössu áhaldinu, eða voru það hendurnar sem hristust? Móðan þykknaði. Mímir sá fyrir sér þegar hann skráði sig í hjúkrun. Kvöldin sem geymdu loforð. Tryggva að læra að reima. Þreytulegan skólastjórann að líta upp frá skjalinu. Hákon að tala við nemana.

Voru þetta stakir þræðir eða ófst allt í einn risastóran vef sem var stærri en nokkur gat séð? Var hægt að klippa einn þráð án þess að rekja upp aðra? Hafði Mímir hvítu hanska, eða lá hann opinn uppi á borðinu?

Tryggvi. Mímir stöðvaði hreyfinguna. Skærin duttu hljóðlaust í vaskinn. Sumt var ekki hægt að klippa burt. Sláttur og þagnir á víxl. Saltir vefir víkkuðu og drógust saman.

Mímir reikaði inn í stofu. Hann fann ekki fyrir símanum í hendinni, fyrir utan smá þrýsting á baugfingur eins og undan augum skæranna.

Fingurnir krepptust. Tilfinning um að halda á einhverju hörðu. Mímir þurfti að losa takið með hinni hendinni. Þegar lófinn opnaðist heyrðist fjarlægur skellur.

Mímir var ekki viss hvort hann hafði í raun komið við skjáinn og stimplað inn tölurnar. Þangað til rödd Tryggva heyrðist: „Halló... Pabbi? Ég er á vakt. Ég hringi á eftir, ókei?“ Tryggvi lagði á.

Mími fannst hann anda í gegnum þrönga slöngu. Hann tók upp rykugan blóðsykursmælinn. Honum fannst hann sjá Hákoni bregða fyrir í litla stofuglugganum. Sjö nóvemberstjörnur loguðu á himni.

Þó Mímir fyndi ekki fyrir stungunni var eins og hendurnar svifu yfir óendanlegu skurðarborði. Hann kveikti á lampanum. Hrein áhöld á glitrandi silfurbakka. Svæfingin settist við tækið. Mímir heyrði dyrnar opnast þegar sjúklingurinn rúllaði inn.

sunnudagur, 5. október 2025


Hórus fer í Bónus

Það gerist ekki á hverjum degi að fornegypskur guð ranki allt í einu við sér á miðju gólfi íslenskrar lágvöruverðsverslunar, en þannig var það með hann Hórus í Bónus á Egilsstöðum.

Gylltur sandurinn hrundi af öxlum guðsins þegar ljómandi fálkahöfuðið rakst utan í kexrekkana með háværum skelli. Hórus gargaði.

„Var þetta vont?“ Hórus leit við. Lítil stúlka með hvítan bangsa í hönd. Hórus skildi hana ekki og reif upp hart bananatré með rótum til að fæla hana á brott. 

En stúlkan skríkti aðeins þegar bananarnir hrundu yfir Hórus af hvítum standinum og rétti honum bangsann sinn. Var himnaguðinn valdlaus í þessu undarlega ljóshofi?

Hórus leit í kringum sig. Hvar var hann? Hann sá aðeins endurtekið myndletur af sama bleika grísnum. Hafði föðurbani hans Set tekið á sig svínsham og hrakið Hórus til eilífrar útlegðar?

Eða, það sem Hórus óttaðist innst inni, hafði hann, himnaguðinn sjálfur, sofið alla eyðimörk og konungdóma af sér af eintómum klaufaskap frammi fyrir undarlega bleikum grísaguði?

Hórus gekk óséður fram hjá morgunkornspökkum og litríkum snakkpokum. Hann skipaði ungu pari fyrir, en þau hlógu bara og beindu logandi flötum olíulömpum að honum. Skammt frá safnaði gamall maður dýrafórnum úr hvítri, lýsandi vök. Var þetta æðstipresturinn?

„Hvar áttu heima?“ Litla stúlkan aftur. Hórus hafði ekki tíma fyrir þetta. Hann reyndi að hvessa augu sólar og mána en gat það ekki. Það var eins og eitthvað annað tæki yfir. Litla stúlkan virtist ekki aðeins sjá í gegnum guðdóminn, heldur neyða hinn mikla Hórus til að gera slíkt hið sama.

Hann tók upp þvottaefnispakka og þefaði af honum. Hórus gretti sig og henti honum á gólfið. Hvaða viðbjóður var þetta? Unglingur í svörtum hálfkufli merktum grísaguðinum gekk hjá en lét sig hverfa þegar hann mætti risavöxnum guði bíta í grænt ilmkerti og hrækja því svo á gólfið.

Í þessu hofi staflaði fólk ekki sandklumpum upp í pýramída heldur þunnum pökkum í litlar járnkörfur. Hann hló. Hvort myndi endast lengur?

En hvers vegna var Hórus þarna? Sjálfur Hórus, sonur Ósíriss, andi faraóa og verndari hins sameinaða Egyptalands. Var þetta refsing? Hafði grísaguðinn slátrað hinum máttugu guðum Nílar í himneskum bardaga á meðan Hórus lokaði auga?

Hator. Hvar var konan hans, Hator? Var hún... Hvaða tilfinning var þetta? Ekki guðleg reiði, heldur... skömm? Máttu guðir finna fyrir sorg og skömm? Hórus leit upp en mætti ekki hlýjum geislum Ra heldur flöktandi og kaldri flúrskímu sem risti sig inn í höfuð hans.

Hórus þurfti að styðja sig við hillu með bökunarvörum, svo nokkrir hveitipakkar hrundu á gólfið og þyrluðu upp þykku, hvítu skýi. Voru konungar Nílar orðnir að dufti?

Litla stúlkan datt við lætin, hruflaði sig á öðru hnénu og fór að gráta. Saklausu blóði var spillt. Hórus mundi hlutverk sitt sem verndari mannkyns.

Hórus ætlaði til stúlkunnar en maður, sem spratt úr mjólkurkælinum, gaf honum illt auga svo hann hrökklaðist í burt og þóttist skoða vítamínin í horninu. Hafði Hórus verið of upptekinn af sjálfum sér?

Hvað voru þúsundir dýrkenda þegar það eina sem hann þráði voru alvöru tengsl? Guðirnir voru líka helteknir af ímynd sinni hjá mönnum. Allt snerist um einhverjar myndir á vegg. Litla stúlkan sá ekki guð, heldur nýjan leikfélaga.

Ef hann hefði fengið að spila Mehen eins og venjuleg börn fyrir þúsundum ára. Börn sem voru löngu horfin. Það var ekki eins og Hórus hefði valið sér eilíft líf í goðsögn um föðurhefnd. Fólkið vildi átök. Hefnd. Stríð.

Var það ekki annars? Hann virti fyrir sér unga parið. Svona höfðu þau Hator verið áður en Set náði úr honum auga, Hórus gelti Set og allt fór fjandans til. Þegar Hator var bara venjuleg kona með kúahorn og drauma. 

Af hverju hafði hann samþykkt þetta blóðuga hlutverk? Fyrir mannkynið, eða til þess að trúa á sjálfan sig? Og nú var allt horfið.

Þetta múmíustand var líka þreytt. Fjarlæg, súr líkamslykt í bland við natron, léreft og gips. Lykt sem hékk í nösunum eins og þúsund ára bænasöngur. Hórus fitjaði upp á nefið. Hann sagði aldrei neinum frá útbrotunum og kláðanum sem hann fékk af þessu.

Guðdómi fylgdi djúp einsemd. Þurftu guðir að falla til að finna fyrir jörðinni? Máttu himneskar verur ekki ganga örna sinna án þess að einhver asninn þrykkti því á leirker? Hvenær vék dýrkun fyrir hreinni kúgun?

Hórusi varð óglatt. En hvað yrði heimurinn án Hórusar, guðs himneskrar verndar? Ískrandi, bilað hjól á kerru æðstaprestsins rauf guðlega einbeitinguna. Hjól? Þetta magnaða snúningsverk hefði getað sparað svolitla vinnu við að draga alla sandklumpana.

Stúlkan veifaði Hórusi í fangi föður síns. Unga parið beindi lampanum að Hórusi og hló sig máttlaust. Æðstipresturinn brosti og sagði eitthvað óskiljanlegt sem hljómaði eins og verndarbæn fyrir Hórus.

Þetta var augljóslega helgistaður þar sem fólk hittist til að deila einhverri djúpri samkennd. Ekki til að þræla af sér skinnið frammi fyrir brennandi auga Ras. Kannski var þessi nýja svínaveröld ekki svo vitlaus?

Augu Hórusar ljómuðu. Ef enginn vissi hver hann var þurfti hann ekki að hefna neins! Hórus fann hlýjan innvortis straum flæða yfir bakka sína. Það var hægt að taka Hórus frá Níl, en enginn gat náð Nílinni úr Hórusi.

Hórus smeygði sér út á milli talandi sjálfsafgreiðslukassa. Mynd hans brá fyrir á glærum fleti. En Hórus sá ekki guð, heldur fanga í fuglabúningi. Eitt risastórt, starandi fífl í bjánalegum fálkabúningi. Blóðhefnd guða og manna hafði ekki aðeins verið uppátækjasöm ástríða, heldur skilgreint hver hann var.

Nei! Ekki lengur. Hórus kastaði klæðum og gekk nakinn út í haustmyrkrið. Maður á stéttinni með glóandi reykelsi í munninum rak upp stór augu.

Grísaguðinn glotti á gulum og sléttum sandvegg. Þetta var ekki Set, heldur verndari nýs menningarsamfélags. Samfélags þar sem hver og einn gat ekki aðeins valið á milli tuttugu tegunda af súrnaðri mjólk, heldur einnig hver hann var.

„Vel spilað grís, vel spilað,“ muldraði Hórus.

Hórus sneri sér við og beygði sig inn í næsta hof, sem hafði volduga, rauða stafi: „LINDEX“.

Hórus tók upp hálfgegnsæja lendaskýlu með hlébarðamynstri. Skýlan teygðist á milli fingra hans án goðsögulegs þunga og fyrirheits um eilíft líf. Efnið var létt og teygjanlegt, ólíkt skerandi þykku líni múmíanna.

Stakur sólargeisli féll inn um gluggann. Þetta var ekki sól hins almáttuga og dæmandi Ras, heldur hlýtt ljós á himni. Ljós sem eitt sinn geymdi guðdóm, féll nú á brjóst hins frjálsa neytanda.

eXTReMe Tracker