Heimspekistríðið í JYSK
Tjaldið opnast.
Stólókles veður gegnsósa af vætu inn í JYSK á Norðurtorgi á Akureyri, í blárri regnkápu með skeggið grafið ofan í skyrtuna. Hann grípur um síðasta bláa sturtuhengið á sama tíma og Fornfúsíus öldungur læsir í það beinaberri krumlu.
STÓLÓKLES: Afsakið háttvirtur Fornfúsíus. Mér ferst að ónáða samborgara mína í vinsælum rúmfataverslunum. Á stað þar sem almennir borgarar ýta blárri innkaupakerru á milli tekks og tilboða, ganga náungar eins og ég og þú um í eilífri sannleiksleit. En þetta bláa sturtuhengi er mitt.
FORNFÚSÍUS: Ah, Stólókles. Við mætumst aftur yfir baðvöru sem við þörfnumst báðir. En kæri vinur, hvor okkar á eignarétt á því sem hefur ekki enn verið keypt? Sá sem fyrstur hugsar, sér eða snertir? Við hljótum að geta rökrætt okkur úr þessari klemmu.
STÓLÓKLES (slakar á takinu): Ég tek áskorun þinni. Réttlætið fer ekki í matarhlé eins og starfsfólk JYSK. Því hvað er maður og hvað skepna, fái rökin ekki að ráða!
FORNFÚSÍUS: Ég þarf þetta sturtuhengi meir en þú. Brottrekstur minn úr akademíunni í fyrra hefur leikið fjárhaginn grátt síðustu mánuði. Og konan er komin með svo hátt upp í kok af frumspeki, að hún hefur hótað mér sófanum, snúi ég heim án þessa vesæla sturtuhengis. Þetta er því ekki aðeins spurning um ógreinilegt skeljamynstur á gerviefni, heldur síðasta hálmstrá mitt við veruleikann - sjálft hjónabandið!
STÓLÓKLES: Leitt með atvinnumissinn, kæri Fornfúsíus. En þyngri er mín raun en að gera sófann mér að góðu. Gamla sturtuhengið mitt var gegnsætt, og sáust því mín helgustu vé út um baðgluggann gegn minni betri vitund. Nú hefur húsfélagið hótað mér lögreglunni, skýli ég ekki nekt minni fyrir gestum og gangandi! Þetta snýst því ekki um enn eina hagkvæma heimilisvöru, heldur sjálfan rétt minn til einkalífs og frelsis frá yfirgangi valdhafa!
FORNFÚSÍUS: Þvættingur, Stólókles. Þú lyktar eins og blóm á engi! Og hvaða máli skiptir liturinn þig? Þetta hengi er líka til í sefgrænu.
STÓLÓKLES: Það er í stíl við bláa litinn inni á klósetti hjá mér. Þú ættir að þekkja mikilvægi áreiðanleika og samfellu þegar hugsmíðar eru annars vegar! Hvað með þig? Konunni þinni hlýtur að vera sama um sefgrænan lit?
FORNFÚSÍUS: Ah, Stólókles. Hér stendur þú og hefur áhyggjur af nekt þinni. En sérðu ekki að rökvillur þínar svipta þig meiru en klæðum? Er þetta sturtuhengi raunverulega blátt eða litar skynjun okkar það blátt? Hvenær verða plasthringir og þrýstistöng að hengi, nema þegar við höfum fært þessum hlutum merkingu og notagildi?
Stólókles virðist ringlaður og Fornfúsíus nýtir færið og rykkir sturtuhenginu úr höndum hans. Ungur starfsmaður verður var við ryskingar og nálgast spekingana. Það stendur „Kevin Sveinsson“ á nafnspjaldi hans.
KEVIN: Get ég aðstoðað?!
STÓLÓKLES (lítur ekki á Kevin): Ég verð að hrósa þér Fornfúsíus, fyrir metnaðinn. Þú hefur ekki aðeins skapað nýja fræðigrein í kringum þvaðrið í sjálfum þér, heldur ætlarðu nú að teygja hana eins og krumpað lak yfir gjörvalla heimsbyggðina. Og þú hefur náð nýrri dýpt með tvöfaldri afneitun, því ekki snýrð þú þér undan gatinu í þessari speki þinni, heldur kallar það nauðsynlega blástursholu!
KEVIN: Halló? Mér sýnist þið tala um þetta hengi. Ég get gáð hvort við eigum fleiri svona í Skeifunni.
FORNFÚSÍUS (við Kevin): Skeifunni?! Býr hugur minn Skeifuna til, eða stendur hún fyrir eitthvað í raunveruleikanum? Ég þarf þetta hengi núna!
Fornfúsíus grípur klósettbursta eins og sverð og snýr sér að Stólóklesi.
FORNFÚSÍUS: Ætlar þú næst að afklæðast hér í baðvörudeildinni og bíða eftir vatni af himnum? Sérðu ekki, að þrátt fyrir heilu hillurnar af handklæðum og sápustykkjum, að þá verður „bað“ aðeins hugmynd þar til hver og einn gerir það að veruleika heima hjá sér?
KEVIN: Herramenn. Hjá JYSK trúum við á góð tilboð, þar sem réttlætið er... Umm... Já. Réttlætið er.
Kevin brosir stoltur að óvæntu og djúpu innleggi sínu í umræðuna.
STÓLÓKLES (löðrungar Fornfúsíus og togar í sturtuhengið): Þú telur þig slíkan öðling þegar þú ferð í biðröðina við kassann. En þú ferð einungis í röðina til að hleypa fólki á undan þér. Þannig viðheldur þú tálsýn um siðferðislega yfirburði þína. En er það ekki makalaus della, að telja sig fremstan með því að svindla sér aftast?
KEVIN (við sjálfan sig): Er ég til í alvörunni, eða bara sem persóna í einhverju leikriti?
Kevin hristir höfuðið, dregur upp síma og gengur í burtu.
FORNFÚSÍUS (sparkar í sköflunginn á Stólóklesi, sem dettur aftur fyrir sig ofan á sýningarrúm): Ég biðst forláts! Ert þú hér til að ræða undirstöður þekkingar og siðgæða, eða festa kaup á sturtuhengi á gjafaverði? Er það ekki viðeigandi fyrir rökþrot þitt, að þú þurfir að draga fyrir augun á sjálfum þér með þessu þrugli?
Kevin kemur aftur. Spekingarnir toga báðir af alefli í sturtuhengið sem brotnar á milli þeirra.
KEVIN: Ööö... Þið þurfið að borga þetta.
FORNFÚSÍUS: Hver á að borga það sem enginn hefur keypt?
Nokkur ljós slokkna innst í versluninni. Rödd í kallkerfi segir verslunina loka eftir 5 mínútur.
STÓLÓKLES: Þú hefur grafið þína eigin gröf Fornfúsíus! Þú smættaðir hengið niður í brotið plaströr og skeljatjald, og heyrir ekki að verslunin lokar! Mér sýnist stofusófinn bíða þín heima, nema þú hafir sætt þig við hugmyndina um konuna þína?
FORNFÚSÍUS: Þú ert ekki aðeins dóni Stólókles, heldur einnig flón! Það ert þú sem hefur snúið upp á hengið, og fjötrað sjálfan þig um leið! Því þó kassarnir loki og verslunin tæmist, þá lifa hugtökin áfram.
STÓLÓKLES: Ú, ú og æ, æ.
FORNFÚSÍUS: Síðan, aumi og lágkúrulegi Stólókles, er betra að sofa frjáls frammi í sófa, en að skola neyðina í sjálfskipaðri prísund úr baðmottu og blautum flísum!
Kevin veifar öryggisverði sem fylgir spekingunum út.
STÓLÓKLES (við Fornfúsíus): Geturðu skutlað mér í Bakarameistarann? Mig langar svo í kleinuhring núna.
Tjaldið fellur.