laugardagur, 9. ágúst 2025


Umbúðirnar

Fyrstu regndroparnir láku niður plastumbúðirnar sem Jódís tróð inn í stútfullan gám endurvinnslunnar. Uppsetning einingareldhússins hafði kostað sitt. Þakíbúðin var gósenland iðnaðarmanna. Samt virkaði vaskurinn ekki enn. Faðir hennar hefði lagað hann á fimm mínútum.

Gamla konan fyrir aftan hana í röðinni brosti tannlausu brosi þó Jódís tæki sinn tíma. Konan mælti mjóróma: „Þjappan kemur.“ Jódísi var of kalt til að svara. Flýtti sér inn í bílinn. Gæsahúð. 360 manns höfðu þegar líkað við myndina af henni á baki fíls við ána Brahmaputra. Heill hringur af brennandi augum.

Jódísi undraði hve henni var kalt þrátt fyrir hitann úti. Viðbrigði eftir Indland. Hún hækkaði í miðstöðinni. Hækkaði líka í tónlistinni í símanum og söng með. Kannski til að hunsa rödd föður síns í huga sér þegar hún dreif sig yfir á appelsínugulu og gaf síðan stefnuljós of seint: „Stefnuljós ÁÐUR en þú beygir. Fólk sér alveg þegar bíllinn er byrjaður að beygja.“ 

Hann hafði líka kynnt henni fyrir tónlistinni: „Jóa, hlustaðu á þetta.“ Hún mundi enn fyrstu hljómana á munnhörpuna og regnið á bárujárninu þegar hann kenndi henni að gera við vaskinn. Sama regn og rúðuþurrkurnar slógu nú af skuldlausum jeppa.

Faðir hennar gat lagað hvað sem var. Nýtti hlutina. Ók sama bíl í tuttugu ár. Jódís gat aldrei gert neitt með höndunum. Selja eða henda. Hann gat líka talað við hvern sem var. Jódís skammaðist sín fyrir að losna ekki við tilfinningu um að sóa tímanum í samneyti við fólk sem stóð ekki undir sjálfu sér. Við fólk sem ætlaði sér aldrei að verða neitt.

Jódís rétti úr sér. Þrýstingurinn í grindarbotninum. Þrátt fyrir öll bætiefnin. Björk læknir hafði ráðlagt að draga úr ákafanum. Þvílíkt bull.

Jódís fór lengri leiðina heim. Faðir hennar var ekki fullkominn. Hann hafði þessa óskiljanlegu þörf fyrir að vera á móti, vera sérstakur. Þessir eiginleikar unnu gegn honum. Gegn þeim. Hann hefði getað skarað fram úr. Skinið. Þess í stað hlógu bekkjarfélagar hennar þegar hann reifst við kallana á verkstæðinu.

Þvermóðskan kostaði hann vinnuna. Gat ekki sótt um bætur. Þetta ár hafði hún ekki fengið ný föt við skólabyrjun. Hún fann hvernig krakkarnir horfðu á sig. Hvernig þeir töluðu þegar hún var ekki á staðnum.

Hún leit örsnöggt á gengi hlutabréfanna: „+1,05%.“ Rödd föður hennar: „Fyrirtækjastyrkir, Jóa. Húsið vinnur alltaf að lokum.“ Ef hann sæi núna húsið sem hún hafði sigrað. Af hverju gat hann aldrei hlustað án þess að finna að því sem hún gerði? Jódís pírði augun í gegnum regnið. Slakaði á takinu um stýrið.

Faðir hennar hafði mætt hörku snemma. Hún opnaði gluggann. Lykt af díselolíu og blautu malbiki. Ljósin í mælaborðinu, brakið í plastleðrinu. Hún gólaði yfir græjunum og setti sætishitarann í botn.

Þegar Jódís keyrði hjá gamla hverfinu fannst henni hún snögglega sjá einhvern í baksýnisspeglinum: Raunamæddan mann á hennar aldri í óhreinum vinnugalla með skiptilykil í hendinni. En þegar hún leit aftur var þar enginn. Fjarlæg lykt af sagi og málningu sat eftir. Jódís lokaði glugganum aftur. 

Undarleg tilfinning, eins og vegurinn væri ekki raunverulegur. Hún fann heldur ekki fyrir stýrinu. Gaf í til að gera heiminn áþreifanlegan aftur. Síðan, allt í einu: Rautt ljós. 

Hún hemlaði snögglega á blautum veginum, ískrandi dekkin staðnæmdust yfir hálfri gangbrautinni. Vegurinn hökti, eins og truflun í myndskeiði. Af hverju þurfti alltaf eitthvað að stöðva hana þegar hún komst af stað?

Hún leit út. Móðir í slitnum buxum með barn í fanginu á leið yfir gangbrautina. Gegnsósa í rigningunni. Hjartað sló örar en tíminn virtist hægja á sér. Það var eitthvað skrýtið við móðurina. Hárið sýndist þurrt þrátt fyrir úrhellið.

Móðir og barn stigu úr regnveggnum. Jódís sá þau skýrt. Hún hrökk við. Rak höfuðið í spegilinn. Hrópaði lágt. Þau höfðu ekkert andlit, aðeins glært tóm sem beyglaðist eins og tröðkuð plastflaska. Droparnir mynduðu lágvær hljóð þegar þeir lentu á því, og láku ekki niður heldur undir það. Þessi eyða virtist gleypa í sig önnur hljóð, eins og agnarlítið gat á veruleikanum. 

Á eftir þeim gekk ungt par með sama lekandi hol yfir hálsinum. Hún þekkti þetta fólk. Öruggt göngulagið, ögrandi merkjafötin: Ási og Sísí úr G&G þáttunum. Það hafði ekki sést til sólar fyrir þeim. Vatn hafði safnast fyrir í fellingar og vasa þess sem þau báru í stað andlits. Vatn sem skvettist til og frá á meðan þau gengu yfir götuna.

Á eftir þeim hljóp manneskja sem líktist... Nei. Jú. Jódís fann hvernig grindarbotninn beyglaðist saman eins og plastbox í þjöppun. Þetta var hún sjálf sem skokkaði hjá með sama æpandi tóm undir hettupeysunni. Sömu peysu og hún hafði hlaupið í fimm kílómetra í morgun.

Myndin hvarf á bak við næsta horn. Gömul kona kallaði frá gangbrautinni. Hún var ekki með tóm í andlitinu. Hafði Jódís ekki séð hana áður? Rödd konunnar smaug í gegnum lokaðan gluggann á meðan rauða ljósið dansaði á tannlausum gómnum: „Þau komast núna fyrir, vinan.“ 

Jódís leit í hliðarspegilinn og mætti andliti föður síns: „Augun á veginum.“ Bíll flautaði. Hún rankaði við sér. Grænt ljós. Jódís steig á bensíngjöfina. Fólkið á gangstéttunum leit aftur eðlilega út, en gamla konan var horfin.

Jódís hækkaði í útvarpinu en heyrði samt ekkert í því. Aðeins hljóðið í plastinu sem hún hafði þegar losað sig við úr skottinu. Undir því nam hún æðasláttinn, á sama tíma harður og hlýr, eins og hamarshöggin úr skúr föður hennar.

Það sem eftir var leiðar fannst henni bíllinn vera kyrr en mjúkt hylki renna með hana til baka. Á eldhúsborðinu lá skiptilykill eftir iðnaðarmennina. Í speglinum sat lítil stúlka og reyndi að spila á munnhörpu. Hljóðið blandaðist regninu. 

Jódís tók skiptilykilinn, kaldan og slitinn. Vaskurinn fór ekki í gang þó hún herti róna. En eitthvað rann aftur innra með henni. Eitthvað raunverulegt. Regnið hélt áfram.

eXTReMe Tracker