miðvikudagur, 30. júlí 2025


Konan sem fékk vængi

Haraldur hafði reiknað með miðlífskrísu hjá Lovísu. Taldi hana hafa gott af breytingu. Hann hafði meira að segja stungið upp á nýjum fatastíl eða frönskunámi dagana sem hún var ekki föst niðri í hæstarétti. En Haraldur bjóst aldrei við því að maki hans til tuttugu ára, og starfandi hæstaréttardómari, vaknaði einn morguninn með vængi út úr bakinu. 

Hafði Haraldur ekki verið nógu afgerandi með að hún þyrfti á breytingum að halda? Eða hafði hann skemmt lífrænt ferli með óþolinmæði sinni? Varir hans titruðu. Hann hafði heyrt Lovísu opna verkjalyf inni í eldhúsi kvöld eftir kvöld án þess að segja neitt. Heyrt hana tala um að finna eitthvað á sér varðandi sum mál. Innvortis sannfæringu sem hún gat ekki tengt við rökvísina sem starfið krafðist. 

Haraldur mundi hvað Lovísa hafði sagt, frosin í andliti yfir þriðja hvítvínsglasi. Aftur farin að ræða dæmdu móðurina sem hafði aðeins reynt að vernda börnin sín með þeim leiðum sem hún kunni: „Stundum Halli... Þó það komist skýr lending í málið, klýfur hún mig í tvennt... Eins og helmingurinn fljúgi út úr mér og horfi niður á allt sem á að heita almenn skynsemi.“ Var þetta lýsing á kulnun? Uppgjöf? Ef hann fyndi ekki svona til í bakinu sjálfur hefði hann getað hlustað betur. Afstýrt þessum hræðilega dómi.

Haraldur virti nýsprottna vængina á baki Lovísu fyrir sér með kökk í hálsinum. Lovísa hélt niðri í sér andanum þegar hún breiddi úr vængjunum og hrópaði upp yfir sig. Það var sárt að hreyfa þá, en líka undarlega frelsandi. Fitugar fjaðrirnar gljáðu í daufri eldhússbirtunni og óljós tilfinning sagði henni að þessir vængir hefðu alltaf verið þarna. Vængirnir hennar.

Þetta voru ekki vængir af engli eða djöfli. Heldur eins og af önd sem hafði brotið sér leið inn í réttarsal, og reynt í örvæntingu sinni að takast aftur á loft yfir lagabálkum og villu samborgaranna. Önd sem þráði að kljúfa skýin og finna vindinn leika um fjaðrirnar, en hafði flækst í miskunnarlaust net dóms og laga, með gogginn fastan í sakbitinni steypu daglegs lífs.

Lovísa var líka skelkuð, en var vön að halda slíkum tilfinningum frá Haraldi. Hún þekkti skelfingarsvipinn á Haraldi svo vel. Mátti ekki kynda sjálf undir hann. Hafði margsagt honum að minnka við sig verkefni og fara fyrr að sofa. Hætta í gosinu, snakkinu. Það var þó eitthvað spaugilegt við Harald í þetta sinn, eins og réttarríkið myndi fara á hliðina vegna tveggja lítilla vængja.

En þegar Lovísa ætlaði að hlæja heyrðist ekkert í fyrstu. Síðan blöktu vængirnir og lágvært kvak barst úr brjóstkassanum. Hún horfði frávita til Haralds, þau tókust skjálfandi í hendur. Síðan bárust háværir smellir undan herðablöðum Lovísu. Hún dæsti með létti og sveigði hálsinn lengra en áður. Sumum herpingi man maður fyrst eftir þegar hann slaknar. Hún andaði djúpt. Sleppti Haraldi.

Augu Haralds brunnu af kvíða og spennu. Var þetta merki um að Lovísa væri að vaxa frá honum? Voru vængirnir leið líkamans til að hafna honum? Hafði Lovísa hægt og rólega undirbúið að fljúga frá honum í öll þessi ár? Voru endur farfuglar?

Ef hann hefði tekið hana oftar í bakaríið. Henni þótti brauðið alltaf svo gott. Nei, hann skyldi finna út úr því hvers vegna þetta gerðist, og snúa ferlinu við. Fólk fékk ekki vængi út af engu. Það hlaut að vera ástæða. Haraldur flýtti sér að draga fyrir gluggana. Ekki aðeins svo enginn sæi inn, heldur til að hylja litla tjörn í einum þeirra.

Allt þetta kom merkilega lítið niður á vinnu Lovísu, því skikkja dómarans var bæði löng og breið. Á daginn dæmdi hún, á kvöldin fannst henni hún leggjast á rúm úr litlum greinum. En brátt versnaði þetta. Þegar verjandinn leit til Lovísu fann hún þörf fyrir að dýfa höfðinu undir yfirborð sem var ekki til staðar. Og þegar niðurstaða komst í erfitt mál, spyrnti hún taktfast í gólfið svo allur salurinn leit undrandi til hennar. En það skrýtnasta var að þegar annar dómari spurði hvort allt væri í lagi fannst henni hún sjá arnarkló stingast undan ermi hans.

Þegar einn sakborningur talaði, sá hún ekki mann í svartri hettupeysu, heldur grimmileg, rauð augu á litlu höfði með loðinn, svartan feld. Hún fékk hroll og kramdi vængina inn í stólinn. Og meðdómarinn sem hún hafði reitt sig á leit til hennar með svip sem þekkir aðeins flótta yfir auðn og heiðar. 

Lögin voru ekki þau sömu heldur. Þegar á reyndi tók eðlishvötin yfir og reyndi að tryggja bæði egg og afkomu. Var hægt að dæma fólk fyrir það eitt að lifa með því litla sem náttúran gaf þeim? Var maðurinn vond skepna, eða voru endur bara betri?

Heima leit Lovísa vorkunnaraugum á Harald, sem reyndi að fela bækling um breytingaskeið kvenna og galdraheimildir frá brennuöld. Þó ekki fyrr en Lovísa hafði örugglega séð þá. Hann sagði: „Ég hefði aldrei átt að sleppa kvakinu. Ég meina takinu. Á okkur. Ég...“ „Halli minn,“ greip Lovísa fram í með snöggum höfuðhreyfingum. „Þetta hefur ekkert með þig að gera. Þetta þarf að komast út. Veistu hvað ég er búin að halda þessum vængjum lengi inni?“ 

Lágvært kvak. Hún horfði út um gluggann. „Heyrðu... viltu ekki bjóða Pétri í bústað um helgina. Fara út að veiða. Bara þið tveir. Það var svo gott bragðið af...“ Síðan mundi Lovísa með hryllingi hvað þeir félagar höfðu veitt síðasta sumar. Hvað hún hafði sjálf eldað og étið á aðfangadagskvöld. Hún kúgaðist.

„Ertu að meina þetta?“ Haraldur leit ekki framan í konuna sína. „Ég er búinn að vaka hérna í þrjá sólarhringa til að finna svör við því hver fjárinn er að gerast og... þetta er það eina sem þú hefur að segja? Hvernig á ég að finna út úr því hvað er í gangi ef þú viðurkennir það ekki einu sinni sjálf?!“ Fuglahópur í oddaflugi flaug hjá glugganum. Lovísa starði í augu Haralds. Þögn.

Lovísa hafði aldrei séð Harald svona reiðan. Hún horfði á manninn sinn. Ósofinn. Úfinn. Næstum grænn í framan. Hún skammaðist sín, en tilburðir hans minntu á... Já. Á söng og dans. Hálsinn gljáði af svita.

Lovísa ætlaði að svara en kvakið var á undan. Og ekki lágt, sjálfsmeðvitað kvak undan felubúningi, heldur hátt og skrækt kvak þess sem hefur losnað eftir þungan dóm. Kvak andar sem hefur borið kennsl á varpland sitt að nýju eftir endalausan vetur.

Þegar Haraldur tók um Lovísu kitluðu fjaðrirnar hann í lófann svo hann komst ekki hjá því að skella upp úr. Kannski var þetta ekki svo slæmt. Hann leit út um gluggann. Sólargeislarnir glitruðu á tjörninni.

miðvikudagur, 23. júlí 2025


Fjarstýringin

Ylfa sofnaði með heilbrigðu höndina kreppta um fjarstýringuna. Skrifstofudramað minnti á vinnuna. Fund um ársskýrslur. Fólk las til skiptis upp úr lélegu handriti á meðan tíminn lamaðist á illa uppsettum glærum. Svona fundum fylgdi skrýtin tilfinning um að máttlausa höndin héldi á einhverju köldu.

Óraunveruleikakennd Ylfu hafði komið löngu á undan heilablóðfallinu fyrir tveimur árum. Kannski þegar hún vaknaði við að önnur brosandi Ylfa horfði á hana af ljósmynd á náttborðinu. Myndinni frá fyrsta ári í hjúkrun. Ætli þessi Ylfa hefði þorað?

Markaðsdeildin varð ekkert raunverulegri þegar hún hvorki fann fyrir né gat stjórnað sinni eigin hendi. Eins og höndin tilheyrði einhverri annarri. Þeirri Ylfu sem hafði enn skoðanir og ætlaði aldrei í viðskiptafræði.

Þegar Sonja mætti til vinnu breyttist allt. Dagarnir í endurhæfingunni höfðu líka snúist um það eitt hvenær Sonja kæmi næst. Þennan morgun hafði hún hlegið með Sonju yfir rembingi Rögnu yfir glærunum. „Sástu svipinn á henni þegar tölurnar blikkuðu bara?“

Þegar Sonja deildi vonbrigðum sínum með Ylfu að fá ekki stjórnunarstöðuna í hinum enda bæjarins fann Ylfa hjartsláttinn, hnútinn í maganum. Sonja táraðist en Ylfa reyndi að leyna léttinum. Hún væri örugglega ekki mætt aftur til vinnu ef Sonja væri ekki þarna. Einn daginn myndi Ylfa segja Sonju hvaða þýðingu hún hefði. 

Ylfa rankaði við sér í stofusófanum. Sjónvarpið í gangi. Hægri höndin enn læst um fjarstýringuna, en hún leit allt öðruvísi út. Fjarstýringin var ekki svört lengur, heldur föl og fjólublá. Líka lengri og mjórri, eins og einhver hefði teygt úr henni á meðan Ylfa svaf. Allir takkarnir báru sama spóla-áfram merki. 

Ylfa reyndi að sleppa fjarstýringunni en hún var föst við lófann. Titraði og sló eins og lifandi vefur. Voru þetta skilaboð eða bölvun? Ylfa smellti á takka. Tíminn leið á tvöföldum hraða. Hún fylgdist með sjálfri sér standa upp og hafa sig til. Fann lítinn sting í lömuðu hendinni.  

Ýtti á annan takka með sama merki: x4 hraði. Ylfan fyrir framan hana var mætt í vinnuna. Leiðinlegur fundur. Hana hafði alltaf dreymt um að spóla yfir þá. Hún ýtti á takka: x8 hraði. Aftur: x16. Sterkur rafstraumur út í lömuðu vinstri hendina. 

Það var eitthvað frelsandi við að ýta á takkana. Ekki aðeins aukin stjórn, heldur djúp losun á ósýnileika. Fólkið stóð upp. Bíddu. Núna var Sonja að segja henni eitthvað. Það var lítil sprunga á hökunni á Sonju. Var hún að biðja um hjálp?  

Sonja leit í kringum sig og hallaði sér nær Ylfu. Hún var greinilega að segja eitthvað mikilvægt. En hvað? Veikindi? Skilnaður? Nýtt starf? Ylfa ýtti í fáti á takkana í von um að hægja á eina atriðinu sem skipti hana máli. En hver smellur hraðaði öllu enn meir. 

Skrifstofan. Klósettið. Skrifstofan. Kaffistofan. Af hverju stóðu allir inni á kaffistofunni? Var það gott eða slæmt? Sonja horfði beint á Ylfu. Þagði og talaði til skiptis. Þetta var of hratt. En Ylfa gat næstum hreyft allt vinstri hendina aftur, þó því fylgdi kaldur sviði. 

Frammi sá hún sjálfa sig þefa örsnöggt af treflinum hennar Sonju þegar enginn sá til. Hún fann ekki lyktina. Sonja aftur. Hún var komin með aðra sprungu í andlitið. Ylfa ýtti á fleiri takka. Sá ekki lengur sprungurnar á Sonju. Vinstri höndin lifnaði alveg við, greip fjarstýringuna úr þeirri hægri og hamaðist stjórnlaus á tökkunum. 

Á þessum hraða sá hún ekki hvar hún sjálf endaði. Líkami hennar varð að ormi sem teygði sig ekki aðeins í gegnum tíma og rúm, heldur sameinaðist göngunum sjálfum. Veggir skrifstofunnar urðu að dansandi línum og ljósin á skrifstofunni runnu út í óteljandi skæra liti.

Hún reyndi að hrópa en það kom aðeins undarlegur smellur. Gólfið minnti á þykkt hlaup sem sveigðist undir henni. Hún sá stjörnur. Vetrarbrautir þyrluðust yfir óendanlegar glærur Eyvarar um ársskýrslur. Þessu fylgdi skrýtin tilfinning um að tilheyra einhverju stærra en hún sjálf.

Allt svart. Ekki frá tómum skjá, heldur fyrir augum sem horfðu á bak við ljósið. Ylfa reyndi að spóla áfram. Ekkert. Síðan dauft ljós. Skrifstofan, sjúkrahúsið og heimili hennar runnu saman í eitt rými. Tvöföld rödd flutti eitthvað sem minnti á þakkarræðu. Tilfinning um kaldan hlut í hendinni. Höndin seig niður.

Hljóð í öndunarvél rauf þögnina. Þegar Ylfa leit á hendurnar voru fjarstýringar í þeim báðum. Í þeirri vinstri var hvít fjarstýring sem var enn í plastinu. Skynlaus höndin virtist nema örfínan titring. Hún sá glitta í takka til að pása og spóla til baka.

Ylfa reyndi að lyfta fingri, en höndin hreyfðist ekkert. Hún hugsaði um Sonju. Tilfinning um kipp án þess að sjá hreyfingu. Þá gerðist það. Höndin hreyfðist ekki, heldur hvíta fjarstýringin. Færðist nær. Eftir þó nokkra stund tókst henni að ýta á „PLAY“. Andlit Sonju birtist á skjánum. Hún spólaði upp á byrjun.

mánudagur, 21. júlí 2025


Hláturinn

Þetta byrjaði allt þegar Auður fann ekki fyrir glerögninni sem hún steig á þegar lampinn brotnaði. Skömmu síðar fór hún að skrópa hjá sjúkraþjálfaranum. Hætti að tala um Viktoríu í bókhaldinu.

Eggert vildi trúa því að þetta væru batamerki. Auður hafði ekki hlegið svona að bröndurum hans í mörg ár. En brátt þurfti enga brandara lengur, og Eggert tók orlofið út óvenju snemma þetta ár.

Kvöldið sem Auður táraðist ekki yfir atriði um einfættan hvolp greip Eggert örvænting. Hann rifjaði upp þegar faðir Viktoríu hafði sagt yfir alla í hléi leiksýningar að Adolf þeirra væri örugglega með sama bullandi ADHD og kvíða og mamma hans. En Auður lokaði bara ruslapokanum og smellti blautum kossi á háls Eggerts.

Þá vék Eggert, aldrei þessu vant, talinu að Viktoríu í bókhaldinu: „Túlípanarnir í garðinum hennar Viktoríu eru miklu fallegri en okkar, og húsið þeirra stærra og dýrara... Og... Og svo hafa mér alltaf þótt lærin á henni flottari en þín.

Auður draup höfði. Fyrst var Eggerti létt yfir kunnuglegu ekkasogi. Síðan óttaðist hann að þetta væru köfnunarhljóð. „Auður.. ég...Hljóðin frá henni minntu á lágvær hróp. 

Auður leit snögglega upp. Augun rauð. Síðan fór að skvettast úr brennandi kaffibollanum í hendi hennar undan stjórnlausum hláturrokunum. Eggert horfði á gleðitárin hverfa ofan í galopinn munninn.

Skapgerðarbreytingin var ekki alslæm og Eggert talaði lengi fyrir daufum eyrum annarra. Kannski var hann vandamálið. Hvít og miðaldra pungfýlan. Auður hafði aldrei verið svona vinsæl. Viktoría í bókhaldinu trúði ekki eigin eyrum: „Hvar er þessi þreytta og neikvæða Auður sem við þekktum svo vel?

Vinnufélagar Auðar kunnu að meta hól hennar um heimaprjónaða peysu Þorgríms og hrós yfir meðalhæfileikum barnanna. Auður var kosin starfsmaður mánaðarins tvisvar í röð. Beðin um að tala í veislum: „Fólk eins og þið gerir þennan heim betri.

Þegar Ólafur kom niður í mötuneytið í fyrsta sinn eftir skilnaðinn reyndi hún að tárast. En skeifan sneri öfugt, og Gunnar horfði reiðilega á hana þegar tennurnar glömpuðu í sólinni. Auður hljóp frá borðinu til að hlæja ofan í tóma krukku inni á klósetti.

Þegar sonur Viktoríu var dæmdur fyrir fölsunina heyrðist ekkert frá Auði. Um þetta leyti jókst dofinn, ekki sem hún fann, heldur hinn sem grófst undir líkama hennar.

Á furðulegan hátt fjölgaði sorglegum atburðum í kringum Auði. Viktoría fékk slæma sýkingu í brjóstið og Bárður í móttökunni þurfti að svæfa minnsta naggrísinn. Um svipað leyti fór Auður sjálf að skreppa saman. Hló bara og minnkaði þegar hjúkrunarfræðingurinn spurði hvort einhver hefði farið langt yfir mörk hennar.

Eggert keypti töflur sem áttu að gera mann leiðan. Sagði að hann heyrði enn tuð Auðar þarna innst inni. Að hún mætti alveg vera hún sjálf, engum þætti hún kjánaleg eða skrýtin - nema kannski henni sjálfri?

En Auður skrækti bara og klappaði í sólskini stofunnar: „Eggert, það er svo dásamlegt að draga andann á þessari jörð!Eggert endaði með því að taka þessar töflur sjálfur.

Daginn sem Auður hvarf fundust óteljandi lokuð ílát undir litlum hlera inni í þvottahúsi. Hvern sunnudag opnaði fjölskyldan eitt ílátanna, og hlustaði á hve æðisleg þau væru öll. 

Áður en hláturinn þagnaði voru þau ekki viss um hvort Auður hefði horfið eða hluti af þeim sjálfum. En Auður fannst aldrei, og þau sáu aldrei rakann sem hafði smeygt sér undir stærstu ílátin.

föstudagur, 18. júlí 2025


Umbreytingin

Högni opnaði bílinn. Leiðin frá þjónustuverinu til heimkeyrslunnar var eini tíminn sem hann heyrði í sjálfum sér. Mínúturnar eftir endalausar kvartanir um biluð raftæki, og áður en hann gat ekki sest niður heima hjá sér, jafnvel þegar allt var í lagi. Nýlega hafði hann setið í auknum mæli á bak við stýrið og hlustað á þögnina eftir þungan skell hurðarinnar. Þögn þar sem enginn bað hann um neitt. Tilfinningin líktist því að hverfa inn í ósýnileg göng.

Áður hafði Högni fundið frið úti í náttúrunni, en ökklameiðslin komu nú í veg fyrir það. Hann hafði reynt en haltraði í marga daga á eftir. Kristján þurfti líka á föður sínum að halda, og Elísa hafði aldrei lært almennilega á hóstavélina. Hún var orðin of máttfarin í höndunum. Hvenær hafði allt farið að síga niður á við? Hann fann hitann á enninu þegar hann hugsaði hve litla þolinmæði hann hafði fyrir kvörtunum Elísu yfir hóstavélinni. Hver myndi ekki kvarta? Af hverju þoldi hann þetta ekki betur?

Högni lokaði augunum, einn á bílastæði lokaða þjónustuversins. Elísa átti nóg með sig. Samt sagði hún kvöldið áður að hann svæfi gagnvart sjálfum sér. Hvað þýddi það? Þetta var enginn svefn, heldur aðstæður sem héldu honum föstum. Elísa virtist þó oft vita betur hvernig honum leið en hann sjálfur. Kannski hafði það dregið hann að henni? Verst að hann gæti ekki sjálfur veitt Kristjáni það sama eftir nokkur ár, þegar...

Högni dró andann djúpt. Eftir smá stund sukku fæturnir niður í gúmmímottuna undir framsætinu. Fæturnir hjálpuðu honum að komast út úr höfðinu á sér, jafnvel þó hann fyndi meira fyrir ökklanum. Högni slakaði á baki og herðum. Fannst hann svífa. Þegar landslag opnaðist undir honum var hann ekki viss hvort hann hefði dottað á bak við stýrið eða væri að vakna inn í sjálfan sig.

Óstöðugt grjótið reyndi á ökklann. Trosnuð liðböndin. Fyrst mætti hann bláum barnagítar. Hann hafði átt hann sjálfur, og ætlunin var alltaf að kenna Kristjáni meira en nokkur grip. Um leið óttaðist hann að klunnalegar hendur Kristjáns myndu skemma gítarinn. Þó lakkið væri sprungið mundu fingurgómarnir kalda áferð núandi strengjanna. Högni renndi yfir þá, en höndin var of stór. Hljómurinn þyrlaði upp fínu ryki af skærum hlátri og nærveru. Hann brosti, en fann svo að hláturinn tilheyrði öðrum en honum sjálfum.

Högni kom auga á tvo dulda strengi. Annar var þykkur og dökkur og titraði hljóðlaus undir grárri slykju, á meðan hinn hertist í stífað, örfínt ljós. Hann snerti þann dökka. Ekkert gerðist, en strengurinn bylgjaðist eins og snúran á hóstavélinni hennar Elísu. Strengurinn náði ekki alla leið og annar endinn hékk í lausu lofti. Ljósi strengurinn minnti á geislann undir lokuðum herbergisdyrum Kristjáns. Óáþreifanlegt bil á milli tveggja lokaðra veralda. Hann hafði staðið við dyr Kristjáns, stundum bankað, stundum ekki.

Armur Högna herptist og öndunin grynnkaði. Hann reyndi að neyða strengina á sinn stað. En hönd hans hreyfðist ekki, heldur einhvers í fjallinu. Vöðvarnir slöknuðu einn af öðrum og þörfin fyrir að laga strengina varð sjálf að nýjum og ósýnilegum streng sem rann eins og lækur í gegnum fingur hans.

Högni gekk að þeim sem stóð á fjallinu. Þetta var stór jötunn sem horfði yfir landið. Jötunninn virtist annaðhvort ekki taka eftir Högna eða sjá hann sem hluta af landslaginu. Jötunninn reis til hálfs upp úr basalthlíðinni en hinn helmingurinn dró sjálfan sig upp úr daufu kalki. Basaltið hlekkjaði hann við jörðina en kalkið var að leysast upp. Högni hlustaði. Lágvær en stöðug upplausn yfir þungri jörð. Vaxandi krampi í ökklanum vildi toga hann í burtu, en hugurinn var þegar haldinn áfram.

Hann virti jötuninn fyrir sér. Þeir höfðu áður mæst í draumum sem hann hrökk sveittur upp af við annað hóstakast hjá Elísu. En nú var ekki sama myrkur til staðar sem elti hann í gegnum draumana, heldur mun hlutlausari og bjargföst nærvera. Önnur hönd jötunsins læstist um steintöflur, hin var hvít og gegnsæ og sveigðist í gegnum harða skriftina. 

Þegar Högni gekk nær lyfti jötunninn hendinni með steintöflunum. Fyrir aftan jötuninn risu bleikir fálmarar sem námu agnir í loftinu og hreyfðu við óþægilegri himnu í grjótinu. Fínn titringur hennar kreisti eitthvað djúpt í Högna sjálfum. Skerandi ýl fylgdi lengi á eftir.

Strengir bláa gítarsins tóku við þegar ýlið þagnaði. Litlar agnir losnuðu af strengjunum, sem bleiku fálmararnir gripu með æsingi. Hvíta himnan nötraði með málmkenndu ískri. Jötunninn fylltist skelfingu, henti steintöflunum beint í ökkla Högna, sneri sér öskrandi við og hjó stórt gat á fjallið með hnefunum svo kalkið spýttist af honum í allar áttir. 

Gatið opnaði göng. Högni hélt haltrandi inn. Hljóð í hringjandi símum og hurð að lokast. Þykk spenna læddist upp við veggina. Hann heyrði sína eigin rödd svara: „Ég skil vel að þetta sé pirrandi. Já... Batteríin eiga að endast lengur en í tvo daga. Já, við sendum þér ný - já, já, já, já...“ Ökklinn herptist eins og hann reyndi að renna saman við basaltið undir sér. Kalkagnir svifu inn í augu og munn.

Högni fann enn sterkari vilja til að snúa til við, eins og undan þyngd sem leggst hægt og rólega yfir bringuna. Nei. Áfram. Þetta var svæði sem hann hafði fundið en aldrei snert. Hálfrödduð viðvörun heyrðist. Hljómaði eins og strangur kennari að skamma einhvern. Að baki ómuðu strengirnir af mjúkum trega. 

Göngin enduðu. Fyrir framan hann skautuðu andstæðir pólar í eilífa hringi. Sumir pólar báru nöfn en aðrir hrökkluðust undan augum: Einn geymdi stakt lítið ljós, sá næsti geymdi skugga fólks. Annar teiknaði upp fjallið sem hann gat ekki lengur gleymt sér á, sá næsti splundraði því með rauðum og rjúkandi hnefa.

Högni horfði á gangverkið snúast í hringi. Ökklinn strekktist upp eins og strengur. Blái barnagítarinn herti taktinn. Honum fannst líkaminn sjálfur snúast, eða togast í ólíkar áttir. Þetta varð að hætta. 

Högni lyfti höndum. Strengirnir þögnuðu inn í sjálfa sig. Jötunninn rétti úr bakinu með skrykkjóttum smellum. Bleiku fálmararnir á bak við hann lögðust máttlausir ofan á bergið og spúðu svartri froðu yfir rifna himnuna. Hósti og vélrænt suð í fjarska mættu ferskum keim af mosa og möl.

Högni leit á ökklann. Steintaflan sem jötunninn hafði kastað lá þétt upp við hann. Á henni stóð einfaldlega: „Leyfðu“. Pólarnir numu staðar, og þrátt fyrir að sameinast ekki, varð til ein og marglaga rödd yfir blágrænni heiði. Ökklinn slaknaði. Óviðbúin þögn fylgdi, eins og hann missti skyndilega jafnvægið. Þögnin rofnaði aðeins til hálfs af hans eigin hjartslætti. Högni leit við. Jötunninn og fjallið mynduðu saman stóran hljómbotn undir strengina. En nú hljómuðu allir í einu, og tónlistin endurómaði úr áður óþekkri dýpt.

Tíminn hafði liðið á undarlegan hátt. Högni opnaði augun, og sá aftur stýrið fyrir framan sig á bílastæði þjónustuversins. Hafði hann sofnað? Það var slökkt á útvarpinu en samt heyrði hann tónlist sem var bæði friðsæl og þung. Hann leit á símann. Elísa hafði hringt tvisvar. Kristján.

Á leiðinni heim fannst Högna einhver standa uppi á fjallinu og horfa yfir landslagið. Heima spurði Elísa hvernig honum liði: „Ég veit það ekki, en það er alls konar.“ Þegar Elísa fór að kvarta yfir hóstavélinni sagði Högni ekkert heldur lagði hönd sína yfir hennar. Hljóð í dyrum að opnast. Hann horfði á staka kalkögn hverfa hægt og rólega í þunnan ljósgeisla frá herbergi Kristjáns.

sunnudagur, 13. júlí 2025


Reiknivélin

Elfríð roðnaði þegar Magnús dró aftur upp reiknivélina í matarboði Mánasteð hjónanna. Magnús stimplaði hugsi inn tölurnar, og það yfir bananakökunni sem Elfríð hafði bakað fram á nótt. Kökunni sem átti bragðast af eðlilegu sambandi. Mánasteð hjónin brostu með blöndu af forvitni og yfirlæti.

Elfríð andaði kökuilminum að sér. Kanillinn þrykkti sér í gegnum þéttan keim úr vanillu og banönum. Hún fékk sér bita. Gyllt brúnin splundraðist á hörðum glerungnum. Einu sinni hafði þetta verið uppáhalds kakan hans Magnúsar. Þegar hann virtist ósigrandi og gerði grín að þeim sem gátu ekki reiknað í huganum. En núna, með hverju pikki hans á litlu plasttakka vélarinnar, fannst Elfríði maðurinn sinn éta upp aðra og kaldari köku innan úr henni sjálfri.

Það var Elfríð sem hafði gefið honum þessa reiknivél. Hún sagði öðrum, og aðallega sjálfri sér, að hún sæi talnasnilli hans. Að hún skildi hungrið fyrir formúlum. En innst inni reiknaði Elfríð með því að andlit hennar myndi dag einn birtast í litla græna glugganum. Í staðinn leið henni eins og „ERROR“ skilaboði sem Magnús þurrkaði út með ósýnilegri servíettu af þurrum og snjáðum tökkunum.

„Magnús, viltu köku?“ Ekkert svar, bara lágvært suðið úr reiknivélinni. Heyrðu Mánasteð hjónin þetta suð líka, eða kom það frá hennar eigin skömm? Þetta var eins og hljóð í útvarpi sem hamaðist við að finna aftur lagið þeirra á meðan hún bakaði.

Elfríð horfði afsakandi til Mánasteð hjónanna, síðan á rándýra handtösku frú Mánasteð. Hún sá útundan sér þegar frú Mánasteð leit laumulega til eiginmannsins. Þau vissu meira en þau sögðu, enda unnu þau bæði hjá Numerus. „Jæja, stemmir þetta allt Magnús? Ingvar þarf að fara að borga þér fyrir alla þessa vinnu!“ grínaðist herra Mánasteð. Magnús horfði flóttalega frá skjánum, muldraði eitthvað ógreinilegt um samlagningu og frádrátt, og fór svo aftur að pikka inn tölur.

„Hann reiknar fyrir okkur bæði“ hló Elfríð vandræðalega og færði upphandleggina þéttar að sér svo frú Mánasteð sæi ekki stækkandi svitablettina. Suðið hækkaði þegar hún horfði á herra Mánasteð taka allt of stóran kökubita upp í sig, líklega til að skýla sjálfum sér frá því að telja upp það sem hann vissi um þau Ingvar. Samt sló herra Mánasteð greinilega inn tölurnar með augunum.

Magnús hafði ekki alltaf verið svona. Einu sinni blés hann af öllu afli á rjúkandi bananakökuna til að brenna sig ekki. Þá var ekkert suð, aðeins ánægjulegt smjatt, og engin hönd sem reyndi stöðugt að reikna sig til baka yfir sveitt og lyktarlaust plastið.

Síðan breyttist eitthvað. Elfríð vissi ekki hvað, en hún vissi hvenær. Þegar Magnús klúðraði ársuppgjörinu hjá Numerus. Hafði hún bakað eitraða köku með því að taka undir að bókhaldsskekkjurnar væru sök Ingvars og mannauðssviðsins eins og það lagði sig? Vildi hún trúa því sjálf? Hún horfði á ístru Magnúsar. Ingvar var grennri og stæltari. Ingvar borðaði kökuna áður en hún kynntist Magnúsi, en Magnús vissi það aldrei. Saknaði Ingvar bananakökunnar?

Um svipað leyti og reiknivélin kom til sögunnar fór Elfríð að nema hverfandi skilaboð á baðherbergisspeglinum, þegar Magnús gekk út eftir sturtu. Hún fór að flýta sér inn eftir að hann hafði verið þar. Fór jafnvel að tala um fýluna af honum til að reka á eftir böðun. Móðan inni á baðspeglinum geymdi ekki formúlur heldur andvörp einhvers sem skildi aldrei tilganginn með því að taka út fyrir sviga. Var þetta Ingvar? Elfríð tók fyrir eyrun. Heyrðu Mánasteð hjónin ekki þetta suð?

Hún datt aftur inn í matarboðið eins og útvarp sem hrekkur skyndilega inn á rétta tíðni. Elfríð horfði á ósnerta sneiðina á disk Magnúsar og gaf honum olnbogaskot. „Ing... ég meina Magnús..“ Mánasteð hjónin klufu Elfríð í sundur með augunum eins og brennandi kökusneið. Þau ranghvolfdu augum eins og hákarlar á eftir bráð.

Magnús hikstaði í augnablik eins og hann hefði slegið inn vitlausa tölu. Leit upp og kom við skeiðina eins og hann vissi ekki hvernig ætti að halda á henni. „Já svona, Magnús minn, kakan“ hugsaði Elfríð. Suðið dofnaði og Magnús byrjaði að flauta lagið þeirra. En síðan var eins og eitthvað slægi hann í höfuðið og hann leit aftur á vélina. Græn birtan lýsti upp andlit hans.

Elfríð leit ósjálfrátt á skjáinn og fannst standa þar „INGVAR“. Ingvar elskaði bananakökuna. Og elskaði hana örugglega enn. Hún ætlaði að telja rólega upp að fimm í huganum en byrjaði að skjálfa þegar hún komst upp í þrjá. Hún dró einn frá. Suðið kom aftur. Hana langaði bara til að baka. Ingvar, Ingvar, Ingvar hvar ertu?!

Elfríð ímyndaði sér að undir skelfdum hérasvipnum væri enn sami Magnús og hafði beðið um meiri bananaköku fyrir tuttugu árum. Maður reiknar ekki út bragðið af kökunni. Elfríð fann allt í einu plastbragð. Gleypti kökubitann og hrifsaði reiknivélina af Magnúsi. Fór að segja frá endurtekna draumnum.

Í draumnum var ekkert lok yfir rafhlöðunum og tölurnar ilmuðu eins og nýbökuð kaka. Þær svifu um loftið og settust svo á spegilinn inni á baði. Einhver hafði teiknað hjarta í þær með fingrinum, eða var þetta kaka? Draumurinn endaði alltaf á því að hún strauk yfir spegilinn og sá bananakökuna hverfa inn í ofninn. Ingvar brosti í stofunni. Þegar hún vaknaði fann hún slakann í lófunum og hveitiagnir á milli fingranna.

Þögn við matarborðið. Hvorki heyrðist suð né smjatt. Magnús stakk upp í sig kökumylsnu þegar Elfríð sagði Ingvar og mannauðssvið Numerus alltaf hafa staðið sig vel. Magnús ætlaði að telja eitthvað á fingrum sér, en hætti við og stakk fingrinum í kökuna. Henni fannst suðið allt í einu koma frá Mánasteð hjónunum. Þegar þau komu heim var enn móða á speglinum. Magnús renndi fingrinum eftir speglinum. Smá kökufeiti fylgdi með þegar hann sló skjálfandi inn: „3-1“.

miðvikudagur, 9. júlí 2025


Brekkan

Ingólfur kveikti ekki ljósið inni í bílskúr. Kannski viljandi. Hann hrasaði um rykugan keppnissleðann. Fann ekki fyrir votri steypunni við garðslönguna, heldur jörð sem hafði aldrei þiðnað. 

Hann hafði oft dottið af sleðanum, en sumir árekstrar brjóta ekki aðeins bein annarra heldur snúa brekkum í endalausa hringi.

Ingólfur leit á sleðann. Rifinn og upplitaðan límmiðann af Leiftra, sem systir hans hafði komið fyrir með ögrandi glampa: „Kannski þorirðu nú loksins að gefa inn, væskillinn þinn.“ 

Ingólfur hafði gefið inn, meira en hann þorði. Hún hafði haldið sér hlæjandi í stóra bróður. Síðan varð allt hvítt, ekki eins og fönn heldur stýri sem hendurnar geta ekki snúið við.

Hann fann eitthvað leka niður ennið. Sami skurður. Hann heyrði andköf hennar aftur úr myrkri bílskúrsins.

Hann hljóp inn í húsið. Dyrnar höfðu hækkað. Auður leit upp úr bókinni en andvarpaði þegar hann strunsaði fram hjá henni. Hún hafði reynt, en faðmur hennar var of mjúkur. Bláu ljósin sem keyrðu burt með systur hans hurfu þegar hann opnaði kexpakka í býtibúrinu.

Um stund fann hann ekki fyrir klístruðu súkkulaðinu heldur svölum vindi smjúga undir raka lambhúshettuna. Systkinin runnu niður brekku sem endaði aldrei.

Allt í einu greip hann í tómt. Þegar síðasti bitinn rann niður herti systirin takið og ósýnilegur steinn reis aftur upp úr snjónum.

sunnudagur, 6. júlí 2025


Stofuborðið

Hún þekkti ekki stofuna
nema þegar sonurinn
sofnaði í sófanum.

Þá læddust veggirnir
og þegar hann hóstaði
hrökk gólfið til –
eins og þykkt lag
yfir grafna skömm.

Eiginmaðurinn hafði runnið
saman við stofuborðið,
og dró annað lungað
í gegnum brostinn viðinn
og hitt undan glerinu.

Hann reyndi að hjálpa
en hjartað var úr vatni
og augun litu fram hjá
því sem bjargaði henni.

Viðarborðið mundi enn
hvar flöskurnar stóðu
sem hún hafði hreinsað
eftir föður sinn –
áður en hóstinn hvarf.

Hún hafði reynt að þrífa
en hringirnir sátu eftir
eins og litlar hirslur
utan um nafn hennar.

Hvert sumar kom
með grænar flöskur
sem lítil stelpa
hellti niður í vaskinn.

Síðasti dropinn
skolaðist ekki niður
heldur rann saman
við hljóðið í vaskinum.

Hljóð sem endurtók sig
á meðan sonurinn svaf
og klofnaði við hóstann.

Hún leit fram í stofu.
Hresstist sonurinn
eða var stofan sjálf
að veikjast aftur?

Þegar sonurinn hélt
norður um haustið
lagðist ósýnilegt glas á borðið
sem fylltist aldrei sögu hennar.

Einhver hóstaði í glerinu
og drakk í sig þögnina
undir blautum stjörnum.

Glugginn stóð opinn
og húmið helltist inn
um sprungið tréð.

Faðir hennar settist
smám saman við borðið
og sofnaði í sófanum.

föstudagur, 4. júlí 2025


Snúningsmaðurinn

Úlfar þekkti brakið í liðunum, marrið í vöðvunum: Snúningsmaðurinn. Hann leit ekki við og hélt áfram að teikna, reyndi að heyra ekki hljóðið í beinunum.

Pabbi hans vissi ekki af snúningsmanninum, en hann vissi af Steinari. Sagði honum að slá til baka. En Úlfar vildi ekki slá. Ekki einu sinni Steinar. Að slá Steinar væri að slá sjálfan sig. Steinar hafði misst foreldri líka.

Rödd snúningsmannsins var hás og hvell. Hann sagði myndirnar lélegar. Tilraun til að hylja blöð sem yrðu alltaf auð. Hönd Úlfars staðnæmdist í miðri hreyfingu.

Snúningsmaðurinn hélt áfram: „Þú getur ekkert teiknað, aumingi! Það eina sem þú gerir er að þurrka endalausan skít af þér!“

Úlfar sá snúningsmanninn út undan sér. Fingurnir sneru öfugt og bakið vafðist um skakka hryggarliðina. Úlfar hafði oft meitt sig við að reyna að rétta úr honum.

Þó snúningsmaðurinn væri afmyndaður stamaði hann þó ekki. Hann gat talað. Ólíkt því sem vafðist um tungu Úlfars þegar Steinar nálgaðist.

Snúningsmaðurinn kom alveg upp að skrifborðinu. Olnbogarnir fundu aftur fyrir mölinni á skólalóðinni. Hráka Steinars. Sviðanum eftir spörkin.

Úlfar var vanur að bíða. Steinar hætti alltaf á endanum. Við tók tilfinning sem var bæði þung og létt, og fylgdi honum aftur inn í skólastofuna. Það var auk þess ekki hann, heldur Steinar sem grét.

En í þetta sinn gerðist eitthvað. Úlfar hunsaði hvorki snúningsmanninn né reyndi að stöðva hann. Hann leit beint á hann og rétti honum varlega blað og penna.

Reiðisvipurinn vék fyrir undrun. Þegar snúningsmaðurinn byrjaði að teikna skólalóðina fann Úlfar hvernig herðablöðin fóru að hreyfast. Í fyrsta sinn var hann ekki viss hvor þeirra héldi á pennanum.

þriðjudagur, 1. júlí 2025


Tréð

Kalt ryðið
dró línur í lófann
þegar hliðið opnaðist.

Áður bar dagsljósið
engan þunga.

Tréð læstist
eins og minning
um rætur sínar.

Hún hellti vatninu
yfir þyrsta jörð
og hengdi ljósker
á bera krónuna.

Tré standa eftir.
Tré fara ekki.

Tíminn gáraði
ósýnilegan flöt
undir líkamanum.

Hún geymdi tréð
og tréð geymdi hana.

Svo liðu árin
í þykkum raka.

En einn morgun
titraði strengur
í viðargólfinu.

Hún lá kyrr
eins og hann
myndi þagna.

Tónninn hvarf ekki,
heldur lagðist
nær líkamanum.

Hún áttaði sig.

Hann barst 
ekki að utan.

Hún hélt út.
Hliðið var opið.
Ljóskerin slokknuð.

Börkurinn
var rennsléttur,
eða voru hendur
hennar orðnar hrjúfar?

Tréð hvíslaði
inn í línur 
húðarinnar:

„Enginn sáir fræjum,
heldur leggur þau
í lófa okkar.“

Tréð opnaðist ekki —
heimurinn rúmaðist
allur innan þess. 

Hún gekk inn. 

Í fjarska heyrðist
hliðið lokast aftur.

Gangurinn
var hvorki bjartur
né dimmur.

Agnarsmá kornin
höfðu enga þyngd
í lófa hennar.

Viðurinn andaði.
Einhver hafði
rist á vegginn:
„Líf.“

Hún leit varlega inn
um dyragættina.

Þar sat kona
sem skildi hvorki
orð né þögn.

Ræturnar vöfðust
um ökklana,
andlitið hreyfðist
undir laufinu.

Konan rétti fram
hendurnar, hægt,
eins og hún hefði
beðið hennar.

Hún lagði fræin
í lófa konunnar
og benti á gluggann.

Dagsljósið féll
léttar en áður.

eXTReMe Tracker