sunnudagur, 29. júní 2025


Slátturinn

Brotin skóflan dinglaði í hendi Fjólu eins og jörðin hefði gefist upp á henni. Olgeir renndi upp rúðunni þegar hún hvarf niðurlút inn í skúr. Hann þrýsti fingrunum í skarpa bíllyklana á meðan Jens talaði. Eintóna röddin rann undarlega vel saman við vélarhljóðið: „Ég myndi láta hana fara. Ég meina... Þetta er í annað sinn í þessari viku. Þetta eru nýjar skóflur.“

Fjóla kom aftur. Jens sat með þögult orfið. Olgeir leit snöggt á hana á meðan hann sneri sér við til að bakka gætilega með kerruna. Hvað ef hún segði satt? Þeir höfðu ekki hlustað á föður hans. Á sláttinn í höfðinu sem kom nokkrum vikum áður en hann hvarf ofan í moldina. Jens myndi ekki skilja að fleira en verkfæri gat brotnað. Ekki fyrr en of seint.

Jens hafði oft spurt Fjólu. En spurningarnar voru ekki til að heyra, heldur afhjúpa. Til að segja að henni væri bara illt í öxlinni þegar hún þyrfti að vinna. Fjóla sagði að áhöldin molnuðu á einhverju hörðu. Ekki steinn. Ekki klöpp. En aðeins Olgeir mátti heyra að verkurinn í öxlinni væri ekki hennar, heldur einhvers undir grasinu. Olgeir myndi skilja að þetta væri ekki lygi, heldur leið til að lifa áfram.

Olgeir rak niður skófluna án vandræða þegar hún var farin. Hann hætti þegar taktbundin höggin minntu á hraðan púls. Olgeir hafði verið hópstjóri í nokkur sumur. Fólk hafði áður hringt sig inn veikt á mánudögum. En þetta var eitthvað annað.

Hann skildi Fjólu enn minna eftir samtalið þegar Jens mundaði orfið efst í brekkunni. Þegar hún talaði um að lyfta því sem moldin gæti ekki borið. Sem enginn gæti borið nema hún.

Ekki að hann tryði henni. En stundum var trúin ekki jafn mikilvæg og að leyfa fólki að bera uppi sitt eigið líf. Ef þeir hefðu trúað föður hans. Ef við myndum öll trúa hvert öðru. En Jens trúði aðeins á árangur, á framtak. Jens var ekki vondur, hann myndi skilja þetta þegar hans eigin verkfæri brystu.

Þegar Jens hermdi eftir Fjólu kreisti Olgeir fram bros til að hylja herpinginn í kviðnum. Sama herping og þegar faðir hans fór upp í rúm og móðir hans sat þegjandi inni í stofu. Í þögninni sem fylgdi honum út í garð. Þögninni sem hann bar enn uppi.

Olgeir ætlaði að mótmæla þegar Fjólu var sagt upp, en eitthvað annað tók yfir. Jens var ánægður. Áhöldin hættu að brotna, en Olgeiri fannst sköftin ýmist þyngri eða jörðin þéttari. Hann stimplaði eitt sinn inn númerið hennar Fjólu en lagði símann niður þegar Jens slökkti á orfinu.

Þegar nýr starfsmaður spurði hvað lægi eiginlega grafið þarna tók Olgeir ósjálfrátt um öxlina. Jens byrjaði að hlæja. Olgeir heyrði hláturinn renna saman við snúninginn á orfinu, í sömu tíðni og slátturinn í höfði föður hans. Eins veröldin væri að fela það sem enginn gat borið lengur. Eða bara til að breiða yfir þögnina í stofunni.


Maður og vél 2

Fyrsti sjálfvirki maðurinn
fraus á miðjum sýningardegi.

Sumir kölluðu það bilun.
Aðrir töluðu um list.
Fáir sáu vinnuaðstæður hans.

fimmtudagur, 26. júní 2025


Sopinn

Ég var að laga kaffi fyrir þyrst skrifborð,
þegar öldruð hjón báðu mig
um að koma út að leika.

Ég skammaði þau – en mundi svo
að einu sinni hafði ég verið gamall líka.
Ég fékk mér sopa.

Þau voru mun eldri en skjalataskan
sem hélt um sögu mína.

Ég opnaði hana
og byrjaði að lesa:

Ég drekk aldrei kaffi með álfum –
læt heitt súkkulaði duga.

En þegar sólin dró land úr austri,
birtist rjúkandi bolli
og tvær verur með lauf á enni.

Rauðklæddur álfur sagði:
„Ég fór á kaffihús. Gat ekki pantað
cappuccino á íslensku.
Þjónninn skildi mig ekki.“

Ég ætlaði að svara:
„Heldurðu að þessar
baunir séu íslenskar?“
En kaffið drakk orð mín.

Hvítklæddur álfur tautaði:
„Meira úrval.
Allir skilja peninga.“

Sá rauði bætti við:
„Það er ekki hægt að panta neitt
ef fólk heldur sig bara innan síns hóps.“

Ég spurði:
„Hafið þið ekki sjálfir lifað ósýnilegir
í hólum öldum saman?“

Þeir horfðu í gegnum mig.

„Við erum enn ósýnilegir.
Það ert þú sem reynir
að sjá okkur með þessum
asnalegu sögum þínum.
Farðu út að leika.“

Ég þagnaði, eins og einhver
hefði rænt af mér kaffibolla
sem ég gat hvorki pantað né drukkið.
Ekki vegna tungumáls, heldur aldurs.

Skjalataskan skall aftur
eins og til að hefta
saman tómar síður.

Kom kaffið til mín
eða hafði ég
drukkið mig héðan?

Gömlu hjónin bentu:
„Þú ert álfurinn.“

Ég leit út.

Þar stóð eldri maður
með framandi svip
og prentaði út laufblöð
með blautum litum.

Garðurinn lagði frá sér bollann
og fór inn að leika við okkur,
með dót sem hverfur ekki
nema maður sjái
hvaðan það kemur.

Ég lyfti bollanum.
Eftirbragðið var sætt.

þriðjudagur, 24. júní 2025


Myndin

Fræðingurinn gekk inn á barinn. Hann trúði ekki á drauga. Ekki nema þá sem afneituðu sinni eigin tilvist. Þræddu borgina í svörtum leigubílum sem gátu ekki stöðvað.

Lyktin barst fyrst. Síðan rám röddin: „Viltu vita hvernig er að vera lifandi og dáinn á sama tíma?“ Hann sá líkama hennar beygjast í glasinu. Veskið var utan af krókódíl.

Hann sagði frá draumnum. Hann hafði feluliti en var þó sá eini sem sást. Byggingarnar voru skakkar og komust ekki fyrir á götunum. Fólk gekk á milli í röngum hlutföllum.

„Þú ert ekki að segja mér þetta,“ sagði hún. „Heldur þeim sem hefur ekki enn lært að hlusta.“ Hann leit upp. Konan var horfin en krókódílaveskið lá eftir á barstólnum.

Hann hljóp á eftir henni en rýmið sveigðist. Svartur leigubíll stöðvaði með autt stýri. Fólkið á götunum gekk í gegnum hann. Hann leit niður. Krít í tveimur hlutum.

Hún tók veskið aftur: „Þær eru ekki að brotna, heldur að muna.“ Hann sá loksins. Ekki hverfið, heldur þann sem hafði lagt litina frá sér þegar bjallan hringdi.

Barljósin voru öðruvísi. Við borðin sátu form sem biðu teikningar. Hann pantaði sér vatnsglas. Dró upp þurran pensil sem hafði legið þéttar upp að lófanum en hann minnti.

Höndin hreyfðist ekki þegar hann málaði útlínurnar. Hann leit í spegilinn hinum megin við barborðið. Smátt og smátt þekkti hann aftur svipinn af ljósmyndunum.

sunnudagur, 22. júní 2025


Brunnurinn

Fæturnir þekktu leiðina, en sporin urðu þyngri með hverju skrefi. Ilmur af votu laufi og steinum minnti á nóttina sem hún stakk af. Svona staðir áttu að vekja ónot, ekki anga af sumri. Seytlandi hljóð. Mjó tunglsbirta. Hún vissi að veran beið.

Lófarnir kólnuðu á brúninni. Steinarnir voru alltaf kaldir, jafnvel þegar sólin brenndi garðinn. Hún leit niður. Botninn geymdi ekki spegilmynd hennar, heldur þunga nærveru sem talaði þegar hún sneri sér undan. Hún kallaði – en hrasaði og skall með höfuðið á stein sem losnaði.

Engin svör. Rakinn smaug inn í sárið. Æðaslátturinn minnti á fótatökin nóttina sem hún læddist út í skóginn – og systurinnar sem leitaði hennar enn í skógarmyrkrinu. Nóttina áður en hún átti að fara burt – til frænkunnar með stafinn og reglurnar. Hana sveið í kinnina.

Útlínur sáust á botninum, eins og vatnið vissi meira en það sýndi. Blóðdropi lak niður hálsinn, heitur og hljóður. Duft sáldraðist úr veggnum og teiknaði litla hringi á flötinn. Hún horfði á lausa steininn. Enginn hafði kennt henni að hlaða. Samt hélt veggurinn. Þar til nú.

Hún kastaði steininum í þögnina – en brunnurinn gleypti hann án hljóðs. Hún hlustaði. Sama hrollvekjandi gutl og leitaði hennar í draumum.

Hún lokaði augunum – þetta þýddi ekkert. Þá hreyfðist eitthvað. Hún opnaði augun. Fingur verunnar teygðu sig upp úr vatninu. Augun voru gegnsæ – og snertu trosnaðan hnút sem lá dýpra en hún þekkti.

Kaldur dropi rann eftir upphandleggnum. Hún hélt niðri í sér andanum og horfði á veruna draga eitthvað upp úr gruggugum botninum. Smám saman reis það upp – andlit systurinnar, nóttina sem hún lést við leitina.

Hún losaði næsta stein. Þær kipptust allar við: Hún, systirin, veran. Systirin talaði, en veran átti röddina: „Við vorum aldrei ósýnilegri en þræðirnir sem héldu okkur saman.“ Hvítt ör opnaðist á kinn þeirra beggja.

Þögn. Orð systur hennar opnuðu rás sem hún hafði haldið lokaðri. Ekki til að týna sekt, heldur lifa með henni. Þekkja hinn hlutann af sjálfri sér. En hvað ef steinarnir héldu ekki systur hennar, heldur hennar eigin skugga? Hana svimaði. Horfði á veruna.

Hún sá það núna. Brunnurinn geymdi brotið – en hafði gleymt hver átti það. Hann nærði falskt hjarta á milli þeirra, sem slóst um án líkama. Bjó til veru sem hélt þeim saman með svörtum þráðum. Til að taka á móti – verður fyrst að sleppa. En til að sleppa þarf að halda lengur en líkaminn megnar.

Hún gekk með steininn að trjánum. Hann var þyngri en steinn átti að vera. En hún þekkti þennan þunga, hafði borið hann áður og síðan. Steinninn fölnaði af sýnilegri byrði, en virtist þyngjast með hverju skrefi. Spor hennar urðu dýpri um leið, eins og jörðin sjálf mótmælti verkinu. 

Hún lagði steininn upp við gamalt tré, eins og til að skila honum. Kastaði mæðinni. Það voru svo margir steinar eftir. Sumir voru þyngri en hún sjálf.

Hún leit við. Veran stóð við brunninn. Horfði á gluggann á svefnherbergi hennar, síðan beint á hana. Hún hafði hennar eigin augu. Varirnar hreyfðust en hljóðið minnti á rennandi vatn. Andlitið í brunninum lokaði augum og seig ofan í dýpið.

Veran sneri sér hægt – og hvarf inn á milli trjánna. Í þykkan faðminn sem opnaðist þegar allt hafði sýnst lokað. Sporin hurfu eitt af öðru undir moldugan skugga. Þangað sem hluti af henni hafði alltaf beðið.

Hún gekk að brunninum. Sár en ögn léttari. Hvorki af sekt né sakleysi. Fæturnir þekktu ekki þessa jörð lengur – en augun höfðu beðið. Ilmur af gróðri barst með vindinum. 

Vatnið var tært. Hún skolaði sárið. Himinninn var hvítur – hvorki af nóttu né degi, heldur einhverju ósýnilegu sem hélt þeim saman.

miðvikudagur, 18. júní 2025


Nafnið

Ég mætti dauðunum
við dyr að týndu húsi.

Þeir spurðu mig til vegar,
en ég rataði ekki sjálfur.

Ég veit ekki hvort þeir
sáu í gegnum mig
eða höfðu bara sofið lítið.

Þeir taka langar vaktir —
og mér var kennt
að hringja ekki í þá
nema að ég væri að deyja.

Biðin er víst orðin
heil mannsævi.

En þeir voru ekki pirraðir
yfir ratleysi mínu,
heldur andvörpuðu
úr eigin botnleysi.

Og með andvarpinu
kom þessi
óþekkta hlýja:

„Vegurinn hverfur ekki
þó þokan leggist yfir
og hendur myrkurs
týni útlínum fjallanna.

Við tökum ekkert,
heldur skilum
kjarnanum.

Við köllum ykkur
nafni sem þið
hafið gleymt.“

Síðan tók ljóðið
við samtalinu.

Vindurinn
teiknaði myndir
af öllu sem ég
gat aldrei
horfst í augu við.

Ég kinkaði kolli
eins og ég skildi —

og um stund
mundi ég ekki
hvað ég hét.

Endanleikinn
þekkir mig
ekki lengur

en ég faðma hann —
eins og minn
eigin son.


Veiðin

Ég veiddi nokkra fiska 
úr ánni sem rennur
yfir nöfn steinanna.

Línan var úr lygi
og öngullinn 
sneri sér undan
til að sjá meira.

Sumir fiskar 
beygðu stöngina
af djúpri þyngd.
Aðrir báru andlit barns.

Þeir voru kunnuglegir,
eins og gömul bekkjarmynd
sem sá mig enn brosa
í máðum stólnum.

Ég setti þá 
í þyngdarlausa fötu.
Tálknin hreyfðust
en vatnið stóð kyrrt.

Ég reyndi 
að létta stemmninguna,
en einn þeirra hló ekki
að bröndurum mínum.

Hann flaut hægt 
niður á botn og sagði:

„Þetta gekk allt vel,
en ég hafði ákveðið annað.
Ég get ekki útskýrt það,
en stundum fer ég alveg inn —
ekki til að finna lausn,
heldur sjálfan mig.“

Ég hætti veiðunum —
eða var það áin
sem sleppti mér?

Ég hellti fiskunum úr fötunni.

Þeir hurfu einn af öðrum
undir slý og blauta spegla,
eins og minning 
einhvers annars.

Allir nema sá sem áin
hafði þegar tekið
úr höndum mér.

Hann varð að steini
sem fann enn
fyrir snertingunni.

mánudagur, 16. júní 2025


Blöðrurnar

Sólrún stakk hníf
í kommentakerfið —
ekki til að flýja þögn,
heldur sprengja hana.

„Öruggt rými,“
hikaði Laufey tvíburi.
En Laufey var sjálf
flott af eigin leik.

Laufey kom með nýja lausn.
Sólrún hafði séð auglýsingarnar:
Nú var hægt að blása
ábyrgð frá sér í litlar blöðrur —
gular, bláar, grænar.
En ekki hvítar.

Eitthvað varð eftir.
Hvítur dofi á vörunum.
Sumir kölluðu hann frelsiskossinn,
aðrir botnfall siðferðis.

En blaðra Sólrúnar var kommentakerfið.
Leikurinn þandi lyklaborðið út
og lyfti henni yfir bæinn:
löggæslan, sveitastjórnin, kirkjan.
Sauðir þurftu að heyra það.

Allir höfðu forðað sér,
nema sannleikurinn
sem stakk í blöðrurnar.

Sólrún horfði á systur sína.
Kannski var þetta hennar leið
til að hleypa lofti úr samviskunni.

En hvort stingur meir
að lifa af –
eða snúa baki við þeim
sem treystu á þig?

Blöðrurnar voru dýrar.
En Laufey bauð.
Er hægt að kaupa sér líf?

Sólrún dró fyrir.
Tók upp eina gula blöðru.
Sviði á vörum.
Lykt af hreinsilausn.

Þenslan var hljóðlaus,
en hún heyrði rödd Laufeyjar
í hugskotinu:
„Hjá mér er bara gleði.
Maður velur hugsanir sínar.“

Hún svaraði röddinni:
„Af hverju ertu þá öll
að þenjast út Laufey —
eins og pínulítil, gegnsæ blaðra?“

Sólrún andaði inn,
litirnir sprungu.
Ekki til að eyða
heldur opna.

Eftir var hvít blaðra
sem þurfti að vernda
fyrir hnífum.

laugardagur, 14. júní 2025


Gesturinn

Sellóið hafði alltaf verið í húsinu, löngu á undan fólkinu. Það bar sama dökka hljóm og handriðin. Kannski bauð fólkið mér þangað vegna tóna sem þau höfðu gleymt. Ég hefði aldrei þolað að vera þarna heldur nema fyrir tónlistina.

Flesta morgna vaknaði ég við þungan hlátur, en þegar ég kom upp sat maðurinn pinnstífur fyrir framan hálfétna köku. Hann talaði um gleði, en höndin titraði.

Þegar ég æfði tónstigana heyrði ég hláturinn og barðist um leið við krampa í fingrunum. Stundum var eins og við héldum um sömu strengi, annar með svörtum nótum en hinn með köldum titringi.

En hljóðið sem fór inn í mig kom ekki frá honum. Þegar ég lék á sellóið heyrði ég eitthvað skella saman hinum megin við vegginn, þannig að ég átti erfitt með að fylgja taktmælinum.

Konan borðaði ekki annað en gulrætur og rófur. Hún fiktaði stöðugt við beinhvítar kúlur í litlum silkipoka. Skerandi hljóðið í kúlunum minnti á skellina á bak við vegginn. Fyrsta daginn spurði ég, af sakleysi, hvað væri í þessum kúlum. „Augnablikin sem þeir rændu frá mér,“ svaraði hún hvasst. Ég þorði ekki að spyrja neitt frekar.

Svo var það sonurinn – langur, mjór og með þögul raddbönd frá fæðingu. Ég sá hann ekki þegar ég æfði, en heyrði einhvern fjarlægjast þegar ég lagði bogann frá mér. Hann læddist alltaf eins og hann óttaðist að mynda nokkurt hljóð. Eins og allur líkaminn reyndi að lifa undir sömu þögn.

Síðasta morguninn vaknaði ég enn við læti. Ekki þennan þunglamalega hlátur sem ég hafði reynt að venjast, heldur brambolt í húsgögnum og skápum. Bíll mannsins var horfinn úr innkeyrslunni. Hröð fótatök smugu yfir þröskuldana eins og kaldur gegnumtrekkur. Sellóið hafði dottið á hlið, en var óskaddað.

Þegar ég kom upp sat sonurinn þögull við matarborðið. Fyrir framan hann lá tómur silkipoki. Konan óð á milli herbergja án þess að segja neitt. Svart hárið sveiflaðist á eftir henni.

Þegar móðir hans sá ekki til, benti sonurinn upp í munn sér. Ég heyrði hljóð sem minnti á einhvern að ræskja sig, síðan vélrænan hlátur.

Kannski var ég ekki gesturinn, heldur sellóið. Strengirnir fylltu rými sem þau náðu aldrei að snerta. Augnablik sem kúlurnar gátu ekki geymt. Ég heyri enn óminn í strengjunum þegar ég hugsa til þessa fólks.


Augað

Við sögðum kjallaranum sögur þegar allt í einu kom gat á vegg.

Rautt auga óþekktrar veru leit á okkur af sömu undrun til baka:

„Afsakið mig, ég er bara að ná í það sem regnið ánafnaði mér.“


Skattholið

Gamli maðurinn á neðri hæðinni 
sýndi mér skattholið: 
„Hér geymi ég það 
sem rúmaðist aldrei inni í mér.“

Hann strauk yfir lifandi viðinn 
eins og vaxtarræktarmaður 
sem spennir sig í bilinu 
á milli hégóma og vöntunar.

Ég gekk nær 
og las vandlega 
handskrifaða miða
yfir pínulitlum skúffum:

– „Undrun.“ – „Vanmáttur.“ – „Afbrýðisemi.“ –

„En þarftu ekki að gera þær upp? 
Eftir hverju ertu að bíða?“ spurði ég 
og rykkti í sprungna skúffu.

Skúffan geymdi aðeins 
ryk úr krömdum flugum
og skorpnuðum lirfum. 

Hrollur fór um mig,
ég skellti henni ósjálfrátt aftur,
eins og af ótta við að smitast
af einhverju ósýnilegu 
úr þögn áratuganna.

Gamli maðurinn brosti hlýlega
án þess að hreyfa andlitið.

„Þá missi ég þær,“ sagði hann.
„Og skítt með mig – þegar ég fer
verða þær eftir hérna, 
fyrir fjölskylduna. 

Ég hef þegar merkt mér 
herbergi í erfðamenginu.“

Ég leit á hann –
og sá ekki gamlan mann,
heldur ungan draug
að fálma eftir líkama.

Við fætur hans 
léku hljóðfæri
sem morgunninn
heyrði ekki í lengur.

föstudagur, 13. júní 2025


Maður og vél

Þegar tæknin
verður betri
en maðurinn,

getum við loksins
einbeitt okkur að því
að vera manneskjur.

fimmtudagur, 12. júní 2025


Dauði trúðs

Þegar trúðurinn féll frá
klæddu áhorfendur hann
í rennislétt skrifstofuföt.

Þeir strengdu á hann alvöru nef
og lögðu daufar vekjaraklukkur
yfir brandarann í bringunni.

Áhorfendur ærðust
þegar nýr alvarleiki
þvingaði boltunum í hringi.

Þríhjólin rúlluðu inn
í kringum vísitölurnar
og rólurnar brenndu peninga.

Þetta var ekki sirkus,
bara farði og gerviblóm
yfir stígvélum úr græðgi.

En þegar kerfið
sneri útúrsnúningunum við,
hvarf allt – nema trúðurinn.

Trúðurinn hló þá og grét,
því sýningunni lauk aldrei –
klappið kom án lófataks.

Þó sviðsljósið hafi mörg lög,
getur sá sem hvergi birtist
aldrei stigið í gegnum þau.

Að hverfa inn í spegil
er að koma fram í leik
sem húsið hefur yfirgefið.

Trúður étur trúð,
þegar sviðið máir
bæði menn og hlutverk.

Og trúður sem er innlyksa
í veröld án gríns og gamans,
getur ekki kastað grímunni.


Tækin

Fólk vandist því
ótrúlega fljótt
að tilfinningar
væru mælanlegar.

Gagnrýnendur sögðu
almenning glata hæfni
til að skynja eigin líðan.

Forsvarsmenn tækninnar
minntu á að mannkynið
hefði aldrei skilið sig sjálft –
hvorki fyrr né síðar.

Þetta væri aðeins byrjunin.
Á næsta misseri, sögðu þau,
yrði hægt að eyða tilfinningum
með daufum geisla.

Þau hvísluðu óvart:
„Enginn þarf þá
að finna neitt lengur.“

En þegar skælbrosandi menn
tóku að streyma
inn á heilsugæslur
og biðja um mælingar
á sorg sinni og reiði,

byrjaði kerfið að halla.

Ekki til hliðar –
heldur inn í eitthvað
sem birtist aldrei á skjánum.

miðvikudagur, 11. júní 2025


Ísveggurinn

Sálfræðingurinn hafði hitt margar manngerðir, en aldrei heila fjölskyldu úr ísilögðu gleri. Hún horfði á þau ganga inn með frosin föt og andlit í klakanum.

Þau gáfu ekki mikið af sér. Móðirin andaði köldu við hverja spurningu, og þó faðirinn þurrkaði af sér gleraugun, sat móðan eftir.
 
Dóttirin sat inni í glerkúlu þar sem húsið hreyfðist, en snjórinn sat kyrr. Glitrandi þögn hennar talaði undir nálum og kristöllum.

Þegar sálfræðingurinn spurði um samskiptin á heimilinu, sagði móðirin að dóttirin ætti bara að hrista þetta af sér. Faðirinn lagði örsmáa glerfiðlu á borðið og vék talinu að hnattrænni hlýnun.

Dóttirin hvíslaði úr kúlunni: „Það er ekki bara hægt að hrista burt snjóinn.“

Sálfræðingurinn spurði hvernig fjölskyldan tjáði erfiðar tilfinningar. Móðirin svaraði með ísköldu glotti og speglaði sig á gljáandi eiginmanninum, sem flýtti sér að fela bleytuna undir skónum.

Sálfræðingurinn sneri sér að tölvunni. Ekki til að skrifa í hana – heldur til að finna hlýjuna frá lyklaborðinu.

Hún hlustaði á móður hrópa í gegnum sprungur og föður andvarpa á gluggarúðu til að sjá ekki út.
 
Hún þagði svo með dóttur, sem hreyfði ekki við heiminum af ótta við að týna sporunum.

mánudagur, 9. júní 2025


Heiðin

Ég mætti æsku og elli
uppi á miðri heiði,
þar sem vegalengdir
mælast í því sem finnst
án þess að leita.

Æskan var með nefrennsli
og marbletti upp að hnjám.
Hún spurði og spurði
en hlustaði ekkert á svörin.

Ellin var heldur rórri
og talaði um ódýr duftker
eins og hendur mínar
vissu eitthvað um sandinn. 

Síðan um steina 
sem muna allt 
nema nöfn okkar.

Æskan rétti mér pela
af orðlausum minningum
með bragði af leik og ótta.

Ég fann tönn í mosanum,
en kunni ekki við að spyrja 
hvor þeirra væri eigandinn.

Ellin kinkaði kolli:
„Jæja, gamli.
Ég verð ekkert yngri.“

Þá rétti hún mér
lyfjarúllu og gerviliði
úr títani og sagði:

„Þeir komast
lengra en fæturnir.“

Ég leit við,
en æskan var horfin.

sunnudagur, 8. júní 2025


Þú mátt leggja skóna hér

Hann hafði ekki sofið,
stóð og kallaði 
á dimmum
sjúkrahússgangi:

„Þið hlaupið
til að heyra ekki
skref mín.“

Var ég sá
sem skildi ekki?

Blöð óttans opnast:
Í líkamanum,
í umhverfinu.

Reiðin þrýstir
hælum í jörðina
til að finna fótfestu.

Skömmin skríður 
um mygluð göng
og étur eigin skugga.

En hvar dregur lífið
þurra rót
undan sólu?

Hræðumst ei
helgidóm líkamans.

Leyfum altarinu
að vera brotið.  

Garðarnir bíða
undir skorpunni.

Bíða eftir rödd 
sem seytlar
um opið hold:

„Þú hefur þjáðst.

En þér er óhætt –
þú mátt losa reimarnar
og leggja skóna hér.

Grasið man
iljar þínar.“

laugardagur, 7. júní 2025


Þau sem sáu mannkynið

Hann birtist stundum í gervi fjalls sem heyrir okkur nema staðar. En oftar geymir áin kaldar hendur sem sverfa grjót úr bökkunum.

Hún dregur mánaljósið inn í herbergin, kastar skýjum yfir augu okkar og vefur hárið djúpt í svefninn. Baðar andlit okkar í auðninni.

Hann leggur brekkurnar yfir öxlina og teymir fossinn eins og nafnlausa skepnu. Mótar hreyfingar okkar úr hrjóstugum klettum.
 
Hún raðar fuglasporum og klaka umsælis iljar okkar. Bindur eyðimörkina í útlínur konu. Skrifar það sem söknuður getur ekki lesið.

Þau mætast sem heimur í öðrum heimi. Þetta er ekki ást, heldur eilífðir sem halda fyrir augun. Samvera þeirra er sundrunin sjálf.

Þó mynda þau líkama. Í okkur anda þau með öllum árstíðum. Dansa eins og liðamót sem lifa alla þessa tónlist í fyrsta sinn.

föstudagur, 6. júní 2025


Eftir æskuna

Við skrúfuðum nóttina í sundur eins og hillu
og lögðum bernskuna í þunnan kassa.

Strekktum himnu milli vonar og ótta
og drógum rykugan draum af þakinu.

Tókum fuglana niður úr trjánum,
en skildum söngvana eftir í garðinum.

Brátt hurfu fótatökin úr stiganum
og gljáandi iljar gengu undir sápuvatn.

Við settum rýmið í glærar töskur
og stöfluðum þeim á herðarnar.

Áður en við afhentum húsið gömlum konum
máluðum við það með lit úr gleymdum veggjum.

En í hvert sinn sem við áttum leið hjá
horfði sakleysið á okkur úr gluggunum.

fimmtudagur, 5. júní 2025


Að yfirgefa tungumál

Inni í mér hvíla orð sem leita þagnar. En enginn getur lýst djúpinu án þess að gára flötinn.

Það sem talar hér er aðeins hús sem heimsækir mig þegar óendanleikinn hefur gleymt sér.

Þetta er skel sem vænting skildi eftir. Rofin kalkskurn sem rúmaði aldrei stærð lífsins.

Þegar stráunum er sleppt, tekur engið á móti. Rakinn vefur sér rólega um rætur jarðarinnar.

Fátækt okkar dansar í kringum himinstjörnur. Skriftin á veggjunum opnar nýjar sprungur.

Samt bíður eitthvað ósagt á tungu næturinnar, samt eru hendur morgunsins fullar af korni.

Handan líkamans birtist enginn vegur, aðeins snerting við vota og hrjúfa þögn handan orða.

þriðjudagur, 3. júní 2025


Skuggadrengurinn

Ég heyrði skuggadreng flauta undir trénu. Hann sagði ekki neitt, en bað mig um að elta. Tilfinningu? Draum? Ég áttaði mig ekki á því. En mér til furðu sneru spor okkar í hina áttina. 

Við komum niður að ánni. Hann dró úr vasanum: Matt glerbrot, ókunnan lykil, tvo steina. Ekki til að muna eða sakna, heldur gæta. Síðan gekk hann í burtu án þess að hreyfast úr stað.

Ég sneri aftur að húsinu. Sólin hafði hækkað á lofti og tréð reis án skugga. Áður en ég lokaði dyrunum hljómaði kunnuglegt stef í fjarska – og eitthvað sem svaraði, miklu nær.

sunnudagur, 1. júní 2025


Tennisboltar

Skrifstofan minnti hann á tennisvöll. Boltinn á hillunni. Annar sem aldrei myndi lenda. Netið strengt á milli þess sem er og var. Kaffibollinn brenndi lófann, með sama bruna og spaðinn hafði gert heilu sumrin.

Á vellinum varð hann aftur drengurinn sem tapaði aldrei. Ennisbandið þrýstist inn í höfuðleðrið. Metnaðurinn strekkti skinn yfir hnúana. Sárin og blöðrurnar færðu bikarinn fingurbreidd nær.

Man húðin? Blauta málmskífu. Titrandi verðlaunapall. Snertingu sem kona skildi eftir. En drengir halda ekki utan um konur. Drengir elta bolta. Sumir þeirra snúast ekki, heldur staðnæmast yfir leikmanninum.

Hann fitlaði við nafnspjaldið. Að vinna sig upp krafðist aga. Agi krafðist viljastyrks. Viljastyrkur fórna. En að sjá aðeins næsta bikar var að líta fram hjá drengnum sem mátti aldrei nokkurn tímann tapa leiknum.

Boltinn hæfði gólfið. Hann tók niður bandið. Leit ekki á medalíurnar. Hendurnar slöknuðu. Honum fannst einhver leiða sig áfram. Hverjum sigri fylgdi gullpeningur, og annar sem gróf sig undir húðina.

eXTReMe Tracker