miðvikudagur, 30. apríl 2025


Bréf til vinar

Þú talar um breytingu. Athugaðu að fyrr eða síðar skapar frelsið sína eigin fjötra. Valið geymir nýjar spurningar; jaðarinn óséðan neista. Flótti opnar nýjar dyr, ekki leið út heldur inn í sömu hringrás.

Í rótlausri leit hverfur nærvera. Sá vilji felur í sér vöntun. Að elta er að yfirgefa, fara í kringum óvissu. Þar byrjar gleymska. Ekki tap á tengingu, heldur stanslaus hreyfing, spenna án lausnar.

Að muna er að sitja með, leyfa reynslunni að hljóma, líkamanum að tala. Að dvelja er að finna rými fyrir það varðveitta og týnda. Snerting er ekki uppgjöf, heldur skilyrði til vaxtar, frelsi til að vera.


Kveðja, 

annar leitandi orða.

þriðjudagur, 29. apríl 2025


Draumurinn

Þegar ég vaknaði var tígrisdýr á heimilinu. Í fyrstu hafði ég áhyggjur en með tímanum varð nærvera þess kunnugleg, næstum eðlileg. Þungt þrammið á flísunum, stöku urrið og lyktin sem minnti á rakan skógarbotn - allt vandist þetta merkilega fljótt. 

En dag einn færði dýrið sig upp á skaftið, stökk upp í sófa til mín með háværu mali og lagði risavaxna loppu yfir brjóstkassann á mér. Ég fann minn eigin hjartslátt undir klóm dýrsins, og því fylgdi skrýtin tilfinning, blanda af vernd og skelfingu.

Var dýrið smátt og smátt að taka yfir? Ég flýtti mér inn á skrifstofu til að lesa mér til um sjúkdóma og sýkingar sem fylgja villtum dýrum. En þegar ég mændi á skjáinn gekk óvænt inn annað stórt kattardýr: Grannvaxinn, tignarlegur blettatígur, með dimm og dularfull augu. Einhverra hluta vegna virtist mér stafa mun meiri ógn af þessu dýri, og ég velti meira að segja fyrir mér hvort ég ætti að kalla á eftir tígrinum.

Blettatígurinn nálgaðist hægt og hljóðalaust. Ég man ég hugði of seint að flýja. Dýrið færði sig fyrir aftan mig og þefaði varlega í bæði eyrun á mér. Mjúkur og rannsakandi andardráttur þess fyllti hlustirnar. Ég lokaði augum. Það var eins og dýrið væri að miðla til mín einhverju frumstæðu, um að óttast ekki hið hráa og óræða.

Þegar ég opnaði augun aftur voru bæði dýrin horfin. Í loftinu hékk enn lykt af rökum skógarbotni. Nokkrar djúpar rispur skreyttu parketið. En innra með mér var ákafur en óræður friður sem ég gat ekki alveg útskýrt.

föstudagur, 25. apríl 2025


Regndroparnir

Óteljandi regndropar falla í sömu tjörn.
Öll saga, öll reynsla samofin í eina heild.

Við erum bæði barnið sem horfir á regnið
og regnið sem fellur fyrir augum barnsins.

Óendanlegt augnablik, agnarlitlar eilífðir.

En hvað ef tjörnin gleymir?
Ef barnið snýr sér undan?

Hvað hvílir þá í rýminu á milli þeirra?
Gegnsæ form sem hverfa —
eitt af öðru — í sömu tjörn,
án vitnis, án merkingar.

En tómið heldur áfram,
ekki sem skuggi, heldur sem minning
um eitthvað sem við þekktum
á undan nöfnum og beinum.

Og í röddinni dvelur enn barnið,
enn tjörnin,
og á milli þeirra
fellur hver einasti regndropi.

eXTReMe Tracker