mánudagur, 25. september 2017


morgunbörn

litlar hendur leita morguns
snemma í glitrandi djúpum

úr austri rís gullinn hnöttur
og bregður ljóma á andlitin

þau opna augnlokin varlega
fyrir björtu sjáaldri heimsins

undan ljósbreiðu hvítra skýja
byrjar himinninn í brosi þeirra

miðvikudagur, 20. september 2017


blóð og skuggi

hvaða takt hefur íhugun,
dregin í rökkvað landslag
vona og flöktandi stjarna?

hvaða gildi hefur andartak,
litað túlkunum og minningum
í endalausri tilveru stundanna?

hvaða þýðingu hafa einföld sannindi,
færð af vörum þess er leitar kjarnans
djúpt í blóði sínu, undir söltum skugga?

föstudagur, 1. september 2017


vetrarnótt

á úlfgráum feldi
skína hrímperlur
dimma vetrarnótt

augnabliksreykur
rís af frosinni jörð
og hverfur út í loftið

fjarlægar minningar
vakna á gömlum stað
og bergmála í auðninni

ljósvitar himins renna
yfir hrein og köld djúpin
frá einni nótt til annarrar

eXTReMe Tracker