föstudagur, 25. ágúst 2017


hús jarðarinnar

á hverju kvöldi dreymdi mig sama drauminn,
þar sem allar tilfinningar mínar urðu að tónlist
og svifu um í vindinum eins og óteljandi laufblöð

á þessu augnabliki voru hvorki himinn né jörð,
elstu minningar mínar flöktu fyrir augum mínum
eins og ljósglampar á ferð yfir tímalausum vötnum

síðan þegar ég ætlaði að halda þessari ferð minni áfram,
sá ég að vegurinn var horfinn og orðinn að þungum straumi
sem bar mig áfram uns ég vaknaði þegar hann steyptist í djúpin

laugardagur, 12. ágúst 2017


uppspretta vindsins

svífandi af himnum,
brotið á kristöllum skýja;
ljósið snertir yfirborð jarðar

í vöku hvers augnabliks
rísa stórar og smáar öldur;
tíminn vindur klukkur eilífðar

undir ósýnilegri leið regnsins
klæðast göturnar glitrandi dulmáli;
þar lifnar enn þrá, í dökku brjósti nætur

miðvikudagur, 9. ágúst 2017


næturleið

um nóttina breiddist stjörnuþyrping yfir ásjónu jarðar
og vakti glóandi mynstur og glitrandi vefi á vatni hennar

hvítur máni sigldi út yfir hljóð og myrk djúp himingeimsins
og kastaði kaldri mynd sinni á svartan spegil og flöktandi ský

frostkulið ljómaði af kyrrum augnablikum og fjarlægum sálmum
þegar rísandi tákn næturinnar hóf sig á loft úr dimmum sprungum

ég gekk undir dulum ljósum himins um dökkan litinn í auga myrkurs
meðan óteljandi skuggar runnu hljóðlega út í svarm af lýsandi formum

þriðjudagur, 1. ágúst 2017


trú

á annasömum tímum ákvað ég að eiga
stutta göngu um morguninn í skóginum

það var ekki enn orðið alveg bjart þá
og myrkur huldi hverja sprungu og dæld

á gangi inn um stórvaxin trén rakst ég á
yfirgefna og opna bók á miðjum veginum

ég tók hana upp og þrátt fyrir hún væri
illa farin sá ég að þetta hafði verið biblía

stafirnir voru máðir eftir vætusama nótt
og sums staðar vantaði nú heilu síðurnar

skýin hreyfðust varlega yfir veginum
og hljóður vindur fór um skugga trjánna

ég lagði bókina aftur þar sem hún fannst
og hvarf bak við næsta horn á vegi mínum

eXTReMe Tracker