fimmtudagur, 15. júní 2017


móðir jörð

hún opnar dyrnar svo ljós sólarinnar fyllir að nýju rökkvuð herbergin,
með léttan vind í lýsandi hárinu og mildan hlátur í bjartri röddinni

í hljóðri athöfninni berast orð hennar um brotinn helgidóm jarðar,
með lifandi tákn í náttúrulegum hreyfingum og frjósömu spori

á naktar strendur bergskorpunnar, undan bylgjandi haföldunum,
felur hún morgunbjarmanum í hendur verðmætustu eign sína

síðast safnar hún týndum og villtum börnum í opinn faðminn
og þvær óhreina líkama þeirra með glitrandi söltum tárum

sunnudagur, 11. júní 2017


óður náttúrunnar

úr mildum lófum vindsins leið nóttin
eins og örsmá stef í hvíslandi reyrblöð

aldin jarðar glitruðu undir berum himni
er lýsandi mána bar við laufgaðar krúnur

í aflausninni spratt villiblómi skógarins
og færði dauðlega fórn sína fyrir jarðlífið

feginsamlega laukst frjómagn þeirra upp
með heilögum dansi og saklausri játningu

dökkar klukkur og dulin tákn ljómuðu
og ótal draumar lyftust yfir dimmri jörð

því hjörtun hafa hvorki nafn né skugga
er andvari nætur fer hljótt um hús þeirra

laugardagur, 3. júní 2017


haustvindurinn

sá dagur mun koma
þegar haustvindurinn
kallar hljóðlega nafn þitt

laufin hnita litla hringi
yfir hálfgleymdum stígum
í rauðum og gulum myndum

öll veröldin virðist hverfa
í dökkan og aflíðandi hljóm
er kviknar í umróti náttúrunnar

þá er sem gamall vinur hvísli
hljótt í svarta og stirnda þögn
sem verður til djúpt í vöku nætur

því með vindinum berast fræ
sem leita skjóls í höndum jarðar
líkt og þau er bíða lausnar morguns

eXTReMe Tracker