mánudagur, 19. september 2016


haust

glitrandi þula úr gagnsæju tákni
reis úr dimmum höndum fljótsins
og veröldin ljómaði af gylltu borði

örsmáir gluggar opnuðust við dögun,
af ljósum mynstrum og lifandi stígum
með glær líkneskin yfir glóandi vötnum

haustmorgunn færðist á dökkbláan skugga,
þar sem hugur regnsins dvaldi á öxl hæðanna
og máninn vætti hendur sínar í lygnum draumi

mánudagur, 12. september 2016


haustrigning

ég heyri stundum litla trommu slegna í regninu,
ýmist þungt eða létt og takturinn smá breytilegur

þegar dimmir yfir húsinu mínu sé ég veröldina glitra,
í náttbirtunni rísa göturnar upp af nöktum skuggunum

frásagnir vindsins hreyfast í einni svipan um lýsandi rýmið,
með raddir sem bregða ljósri dulu á skil staða og fyrri atvika

með tímanum fellur vatnið til sjávar með gleymdum minningum,
þangað til hafið geymir loks alla litina sem við völdum á himininn

miðvikudagur, 7. september 2016


miðja borgarinnar

rennandi útlínur gatnanna framundan,
frjáls vindur sveigir tré handan ljósanna

dökkbláir gluggar opnast yfir augnablikinu,
uppgötvun dregin lárétt á uppleystar myndir

að yfirgefa minningu er að finna týnt hljóðfæri,
og takt sem myndar veruleika á bak við skuggann

fremst í núinu bíður staðhæfing í upplýstum dyrum
um leit persónu að uppruna sínum og stað í heiminum

gagnsæ gríma lyftist varlega af elstu hlutum borgarinnar
með óteljandi frásagnir upp úr sögulegum dældum hennar

bláir skuggar dansa í flæðandi ljósi við hringtorg og gatnamót
og fella glitrandi ábreiður á rýmið yfir gangvegum og biðskýlum

eXTReMe Tracker