þriðjudagur, 23. ágúst 2016


línur og punktar

blár óendanlegur bakgrunnur,
ósýnileg hljóðfærin í vindinum
og hús brotin niður í einföld form

rýmið sameinað í svörtum línum,
rannsókn á fugli með nýjum táknum;
viðföng á eilífri hreyfingu yfir atvikum

ímynd á flötum grunni færð á umhverfið,
efni sem breytist eftir túlkun og staðsetningu
og hugsanir sem renna til og frá fullkomnun sinni

föstudagur, 19. ágúst 2016


nýjar andstæður

ljósið sýnir aðeins yfirborð hins ógagnsæja,
innan þess býr myrkur úr leyndum flutningum

hver borg hefur hugmyndafræðilegan grundvöll,
klofinn af hinu áþreifanlega í dreifðar eftirmyndir

í andstæðu tónlistarinnar fyrirfinnst innbundið tóm,
þögul, gagnstæð hreyfing úr óskynjanlegri hljómkviðu

hefur vænting staðsetningu? við ógreinileg sjávarföllin
berast öldur þess sem er samhliða skugga þess á djúpinu

- hver uppröðun skilgreinir um leið út undan sér röngu sína,
þar er ljóðið í raunveruleikanum og raunveruleikinn í ljóðinu

þriðjudagur, 16. ágúst 2016


náttúra

undan blágrænum speglum ljósleitra morgna
lyftir hún glærum líkama úr nafnlausum fljótum
og hreinsar árbakkana af aurugum útlínum fortíðar

því alheimar verða ekki eingöngu til við upphaf tímans
heldur einnig með hverju lífi sem fæðist á þessari jörðu
og finnur sig frammi fyrir máttugu sjónarspili náttúrunnar

eXTReMe Tracker