laugardagur, 30. júlí 2016


andagift

við elstu rætur lífsins,
letrað í salt blóð og stein,
af leyndum dómi tilverunnar

undir gagnsæjum vængjum,
í laufguðum höndum skóganna,
með tímann í rödd sjávarmálsins

í hljóðum skugga nætur
með hjartað numið göldrum
og óð stjarnanna á þyrstum vörum

mánudagur, 18. júlí 2016


himinn og jörð

hví loga vagnar himins yfir dimmum vegum?,
í hljóðri vöku brenna eldar þeirra í djúpi nætur

ég sé lýsandi merkin opnast í fjarlægu mynstri,
andartakið sem eilífðin leggur niður skjöld sinn

hvaða sannleik hefur hún í hljóðri myndun sinni,
þegar draumar árstíðanna lifna og deyja á víxl?

í augum sínum geymir hún gegnsæ, falin vötn,
þar sem regndroparnir sveipa jarðneskar krúnur

og einnig hjarta þitt er nakið í blómgarði hennar,
þar sem glitrandi jörðin afhjúpast á vegferð þinni

miðvikudagur, 6. júlí 2016


um fegurðina

að líta fegurð er að bera aftur kennsl á mynstur sem hugurinn þekkir en náttúran hefur fjarlægt úr vitund okkar; sköpun listar snýst öðru fremur að finna og afhjúpa þessi gleymdu mynstur, jafnt í skynjanlegum veruleika og þeim hugmyndum sem hægt er að setja fram

listamaðurinn býr ekki til neitt nýtt í þessum skilningi, heldur raðar aðeins saman einingum í ákveðin mynstur, svo sem orðum, efni, tónum, litum eða hreyfingum, í þeim tilgangi að skynja og tengjast að nýju hinu eilífa, bæði í sjálfum sér og frammi fyrir breytilegum heimi

eXTReMe Tracker