föstudagur, 24. júní 2016


í duft fyrstu stjarnanna

hver hefur lagt erindi sín á herðar kvöldsins
og dreift gylltum laufum af altörum skóganna?

yfir dul himnavötn, gljáð fjarlægum táknum
og földum sannleikum í lýsandi hyljum stjarna

þú sem lýkur upp dyrum hinnar björtu nætur,
með blómstur jarðarinnar í frjósömu hjartanu

regnið skíri enni þitt af himneskum djásnum,
þegar eilífðin opnar að síðustu tárvot blöð sín

því einnig andi þinn mun gista mánalýst fljót,
þegar bikar þeirra fyllist af óteljandi stjörnum

miðvikudagur, 8. júní 2016


í slóð birtunnar

þegar ég hristi rúmföt dóttur minnar
flaug eitthvað upp af smárri sænginni

þegar mér varð svo loks litið upp sá ég
að agnarlítil og hvít fjöður sveif yfir mér
og virtist staðnæmast þar nokkur augnablik,
áður en hún leið hljóðlega út í bjart dagsljósið

mánudagur, 6. júní 2016


úr fjarlægum glugga

með stjörnur á tungunni
og dulmál fljótsins í höndum
klæða þau eilífðina ljóskerjum
og andvarann glitrandi draumum

hvarvetna rísa vonir yfir slóðinni
og hefjast á loft með himintunglum
frammi fyrir hvikulum bakgrunni skýja
og þögn þess, sem hlustar eftir ljóði þeirra

eXTReMe Tracker