miðvikudagur, 25. maí 2016


yfir jörðinni

þegar vormáninn gengur hjá spegilsvörtum steinum fljótanna
og hugmyndin um morgundaginn gárast á lygnum djúpunum
fyllast vit okkar af draumum, ljóðum og dökkum söngvum
sem færast yfir tifandi og glitrandi rýmið á bak við ennið
með fegurstu augnablik jarðarinnar í dulu fótmáli sínu
áður en dagrenningin hefur loks hreinsað augu okkar
af síðustu stjörnum og skuggum húmblárrar nætur

laugardagur, 21. maí 2016


börn heimsins

saklausu börn, þið sem leikið
með eld lífsins og ljós framtíðar

fyrir ykkur hefur jörðin opnað dyr,
þó enginn fái skilið leiðir ykkar enn

þið munuð geyma regn, sól, snjó og vind
þegar hallir nútímans falla í skugga fortíðar

ég hef séð framtíðina í undrandi augum ykkar
og von mannkyns glæðast í vaxandi hjörtunum

verði heimurinn betri en sá sem við skildum eftir,
við sem kölluðum nöfn ykkar upp úr djúpi eilífðanna

föstudagur, 20. maí 2016


lítil bæn

þegar ljósið fellur loks á nakinn anda þinn
og klukkur vindsins þagna af draumi sínum

þegar máninn sofnar í faðmi morgungeislanna
og rigningin klæðir hold þitt með dulu skýjanna

þá mun hljóðfærið í brjósti þínu leika í fyrsta sinn
af söngvunum sem náttúran faldi djúpt í hjarta þínu

mánudagur, 2. maí 2016


eftirmæli

vinir, dveljið ei lengi
við hvíta grímu dauðans

gleðjist við göldróttar lýrur
og etið af korni bestu uppskeru

munið góða stund og glæsta sigra
og krýnið andvarann lárviðarsveigum

megið þið lifa og vitna áhugaverða tíma
og varðveita um stund hina hverfulu paradís

sunnudagur, 1. maí 2016


fyrir eilífðina

áður en draumur minn lyftist af jörðu
og hugurinn heldur út á kyrrar víðáttur

mun tíminn hægja á friðlausri leit sinni
og stöðva loks hjól sín við hringrás lífsins

þá mun minning þín opna ský bak við auðnina
og skilja nöfn okkar eftir yfir hásætum dögunar

eXTReMe Tracker