laugardagur, 23. apríl 2016


fæðing stórborgar

andartaki áður en söngurinn hófst
og auglit morguns gáraðist tilfinningu,

þegar gylltur ljómi klæddi hvíta götusteina
og kyrrlát stund reifaðist himneskum krúnum,

leið höfuð borgarguðs yfir nakin og hrein strætin
með óteljandi drauma bak við eyðimörk malbiksins

í hjarta hans fólst eftirvænting úr rökkvuðum trumbum
sem slógu inn við leitandi náttúru og híbýli mennskunnar

skömmu síðar stigu ljósgeislar og þulur um hlustandi rýmið
og héldu áfram að opna falin merki yfir gangstéttum og vegum

fimmtudagur, 14. apríl 2016


undan vetri

kaldir speglar vatnsins brotna
í mergð ótal lýsandi klakamynda
og fljóta inn um gullvætta ljósþræði
sem þeir týna snöggvast glæru dulmálinu
frammi fyrir glóandi mynstrum vorlækjanna

sunnudagur, 3. apríl 2016


skógarnir vakna

fjarræn upplifun sveif yfir sofandi mörkum
eins og gleymdur söngur eða vængjuð bending

innar bárust áköll og seiðir af leysandi vötnum
og dul hreyfing hvíldi í flöktandi skyggnum nætur

þögn sló á raddir náttúrunnar og himnarnir opnuðust
en dimm trumba hóf takt sinn við ástig dansandi skugga

trén munduðu tákn sín og rýmið fylltist undirleik og ljóma
er skógarvættir leituðu sér líkis í greinum, hornum og beinum

um leið rann gustur í runur og raðir úr hringvindum lífs og veru
og kveikti með hverjum þeirra nýjan draum og von um betri heim

eXTReMe Tracker