sunnudagur, 27. mars 2016


minningar úr framtíðinni

á sólskinsdegi, eftir næstu heimsstyrjöld,
munu ógnarstórar höfuðskepnur birtast
og dvelja við rústir hinna föllnu borga

við fótskör þeirra leika dýr og börn á ný
og afhjúpa stærðir og stafi náttúrunnar
undan hinum saklausa skilningi sínum


rétt áður en þessi sýn hverfur loks aftur,
munu öflin sem fyrst lyftu veröldinni
gera öll augnablik sögunnar að einu

en í þeirri birtingu upphafs og endaloka,
mun felast endurtekning lífs og dauða
og ein áleitnasta spurning allra tíma

fimmtudagur, 24. mars 2016


hvít jörð

frostmóða læðist yfir ísbleika mýri,
þögul og ígrunduð sýn hennar fumlaus

ljósleiknir gluggar opnast við hvert fótmál,
hrímuð ró þeirra sett brothættum kristöllum

hvarvetna liggja örlitlar frásagnir og fíngerð bréf,
snjóhvít blöð þeirra varðveitt í dökknandi höndum

í köldum leyndardóminum andar ósprungið blómstur,
meðan máninn skapar smávaxnar myndir á nakin öræfin

föstudagur, 4. mars 2016


endurnýjun

duftmynd hrundi niður úr rökkvaðri ásjónu og hafði með sér þekkta uppröðun úr grynningum leiks og veru

gömul sannindi brotnuðu í einfölduð form og mynduðu því næst undirstöður nýstárlegra samsetninga og skýringa

þannig urðu elstu uppspretturnar að daufum ísvoðum sem fljótlega leystust upp í gufu og óskýrar vofur

fimmtudagur, 3. mars 2016


vatn og ljós

gakktu hjá hinum hugsandi djúpum að kvöldlagi, bak við lygn vatnsformin munu þau glitra af dulu mynstri og hljóðum vísdómi;

þar verður síðasti vitnisburðurinn færður fram, þegar gljáandi ferjur stundanna yfirgefa að endingu ljósaskipti himins og jarðar

eXTReMe Tracker